bylarm

 

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 8. mars, 2014]

Óslónætur

• Tónlistarhátíðin by:Larm fór fram í Ósló um síðustu helgi
• Norrænu tónlistarverðlaunin afhent á hátíðinni

Hátíðin sem um ræðir er orðin giska mikilvægur fasti í tónlistarlífi Skandinavíu, hún er hvort tveggja tónlistar- og „bransa“-hátíð þar sem aðilar frá útgáfufyrirtækjum, fjölmiðlum, tónlistarhátíðum o.s.frv. hittast, koma á samböndum, hreyfa við hlutum, fræðast um innviði iðnaðarins og miðla þekkingu þar um. Norrænu tónlistarverðlaun (Nordic Music Prize) eru afhent á sama tíma og í þetta skiptið var hin sænska The Knife verðlaunuð fyrir plötu sína Shaking The Habitual.

Hjaltalín rústaði

Það fyrsta sem ég barði augum í ár var sænska stúlknasveitin Tiger Bell. Hún lék í WIMP-tjaldinu (sem heitir eftir norsku útgáfunni af tonlist.is) sem staðsett er á „Youngs“-torginu en það var um leið nokkurs konar miðstöð hátíðarinnar. Hátíðin er svona eins og dönnuð Airwaves og kosturinn í ár var að það var afar stutt á milli helstu tónleikastaða og lítið mál að nema það sem mann lysti. Tímaáætlanir voru skýrar og skorinorðar, hálftími á kjaft en eins og segir er hátíðin að miklum hluta kynningarhátíð eða svofelld „showcase“-hátíð, m.a. ætluð þeim sem hafa atvinnu af því að snuðra uppi hæfileikafólk.
Því miður var hæfileikum Tiger Bell verulega ábótavant, snautlegt innihald í ríkulegum umbúðum, tónlistin slæleg endurvinnsla á Blink 182 popppönki. Hin alíslenska Sísý Ey hélt hins vegar uppi stuðinu hæst uppi, þ.e. á háhýsisstaðnum Stratos sem er á tólftu hæð í byggingu við sama torg. Aðrir Íslendingar sem heiðruðu frændur sína með nærveru sinni voru Hjaltalín, Dísa og Hjálmar, sem spiluðu ásamt heimamanni, sjálfum Erlend Øye (Kings Of Convenience, The Whitest Boy Alive m.a.). Næst var stikað á Revolver, dásamlega svitaholu þar sem Finni nokkur, Jaakko Eino Kalevi, fór mikinn. Þessi drengur er mikill meistari og ég er ekki hissa á því að hið virta útgáfufélag Domino er búið að tryggja sér samning við hann og ku hann fyrsti Skandinavinn sem Domino leitar til. Já, það er vel. Tónlistin stórkostleg uppfærsla á köldu en melódísku tölvupoppi Associates og Human League borin uppi af einstakri, kaldhamraðri kímnigáfu þeirra Finna. Það besta sem ég sá á hátíðinni (fyrir utan allt þetta íslenska að sjálfsögðu). Á sama stað spilaði hin norska Tremoro Tarantura og fór hún sömuleiðis á kostum. Mikið og stuðvænt keyrslurokk (minnti smá á Kvelertak, viðhorfið þ.e.) en myrkur yfir um leið. Tilvísanir í Ministry og vélarokk tíunda áratugarins voru auðheyranlegar en fyrst og síðast: skemmtilegt. Ég endaði þetta fyrsta kvöld með Hjaltalín í WIMP-tjaldinu og jú, vissulega er maður hlutdrægur, en þau rústuðu þessu. Þvílíkt band! Hnökralaust samspil og flæði, dáleiðandi eiginlega, og mikil innlifun og einlægni. Högni gaf sig 110% og það mynduðust einhverjir töfrar. Þorvaldur Þór frábær á trommunum og bara allir læstir inn í stemninguna. Áhersla var á efni af Enter 4 og djöfull er það magnað stöff. Hvernig gat sama hljómsveitin gert jafn „úthverfa“ plötu og Terminal og svo jafn „innhverfa“ plötu og Enter 4 og svo gætt þær báðar sömu snilldaráferðinni? Stórkostlegt.

Finnarnir eru með þetta

Á föstudeginum sat ég tvær „Spurt og svarað“ samkomur með mönnum sem muna tímana tvenna og gott betur en það. John gamli Cale, Velvet Underground-limur, var stærsta nafnið hvað þessa dagskrá varðaði og var það gamla rokkpennabrýnið Barney Hoskyns sem spjallaði við hann. Cale var hinn ljúfasti, svaraði eins ærlega og hann gat og áhrifaríkast var að sjá að hann var ekki í stakk búinn til að tjá sig um vin sinn Lou Reed. Hann varð ekki hvumpinn þegar það kom upp, blakaði því eins kurteislega frá sér og hann gat, greinilega syrgjandi enn.
Strax á eftir var svipaður fundur með Irmin Schmidt, hljómborðsleikara Can, en Rob Young (Electric Eden, Wire) tók hann tali en Young, sem er búsettur í Noregi og vinnur m.a. fyrir by:Larm, vinnur nú að fyrstu bókinni um Can og það í fullu samstarfi við eftirlifandi meðlimi. Það segir ýmislegt um Young sem höfund að Can hafi treyst honum til verka en sveitin er einstaklega passasöm upp á eigin arfleifð. Schmidt kom vel fyrir líkt og Cale; rólegur, vís og gefandi og salurinn stappaður enda dýpkar á goðsögninni um Can með hverju ári. Hvað tónleika áhrærir sá ég hina dönsku Baby in Vain, þrjár kornungar stúlkur sem spýttu út hráu blúsrokki eins og enginn væri morgundagurinn. Ég hefði ekki verið hissa þó að Jack White og Captain Beefheart hefðu komið í enda settsins og borið fyrir þá magnarana. Ég var heillaður. Lower koma sömuleiðis frá Danmörku og tilheyra sömu ný-síðpönkssenununni og Ice Age. Flott en ekki frábært. Hin finnska Death Hawks leikur blúsað eyðimerkurrokk með dassi af Earth og Ennio Morricone og gera slíkt vel. Finnarnir eru ósnertanlegir þegar sá gállinn er á þeim. Laugardagskvöldið fór mikið til í stúss vegna verðlaunanna og því miður þurfti ég að þola First Aid Kit í nokkur lög enda erfitt að komast út úr salnum. Sá svo hina sænsku Zöhlu sem heillaði mig ekki en kvöldið endaði ég með því að fara aftur á Jaakko Eino Kalevi ásamt nokkrum finnskum kolleggum. Var það góður endir á þessum yndislegu Óslónóttum. Þar til næst…

 

bylarm 2014 mbl

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: