Emilíana Torrini hefur bætt við aukatónleikum í Eldborg, Hörpu, laugardaginn 9. nóvember en uppselt er á tónleika hennar sunnudaginn 10. nóvember. Tónleikarnir eru í samstarfi við Iceland Airwaves og eru í tengslum við nýja plötu hennar, Miss Flower, sem hefur verið að fá framúrskarandi dóma.

Það var gott að fá tækifæri til að tala aðeins við Emilíönu vegna þessa en ég er einn af þeim sem varð ægihrifinn af plötunni. Þannig reit ég dóm fyrir Rás 2 og komst meðal annars að þessu: „Þetta er stórgóð plata hjá Emilíönu og minnir í raun ekki á neitt annað úr hennar sarpi, nú nema þá röddin. Emilíana talar um að hin nálæga rödd Leonard Cohen, og vísar sérstaklega í I’m Your Man, hafi verið innblástur. Og í raun talsyngur hún út plötuna, í takt við umfjöllunarefnið. Tónlistin er haglega samsett blanda af lífrænum hljómum og rafrænum, surgandi hljóð þegar hæfir, gítarar og ásláttur þegar það á við.“ (Hér er dómurinn í fullri lengd: https://www.ruv.is/frettir/menning-og-daegurmal/2024-06-28-miss-flower-bref-til-konu-416334)

Ég skrifaði líka um bakgrunn plötunnar í sama dómI: „Tildrög Miss Flower eru áhugaverð. Emilíana og vinkona hennar, Zoe, komust í gömul bréf sem skrifuð voru til móður Zoe, Geraldine Flower. Hvert og eitt lag hér, tíu alls, tekur svo mið af einu bréfi. Emilíana kynntist Geraldine í lifanda lífi og varð dáleidd af þessari sjarmerandi konu og enn frekar eftir að hún og Zoe fóru að lesa (upplýsingar af vefsíðu Emilíönu, frásögn hennar). „Öll bréfin eru til hennar þannig að við vitum ekki hvað hún hugsaði,“ segir Emilíana. „Utan að í restina á vinnunni þá fann Zoe ástarbréf frá henni til manns sem var ástin hennar eina („Love Poem“).“ Emilíana gisti hjá Zoe í Chiswick, hvar mamma hennar bjó, og platan var tekin upp af eiginmanni Zoe og samstarfsmanni Emilíönu til margra ára, Simon Byrt. Hljóðverið hans er í garðinum þannig að Emilíana var á bólakafi í efninu allan tímann.“

Galdrar Zoom eru hagnýttir fyrir þetta viðtal og ég er því með söngkonuna í mynd. Ég heyri ekki bara breytingar í tóni heldur sé hana kíma, hlæja, sveifla höndum, verða feimna og hugsi. Borðsímablaðamaðurinn er enn hugsi yfir öllum þessum tæknibreytingum! Ég og Emilíana þekkjumst, ég hef tekið við hana nokkur viðtöl og eitt meira að segja risavaxið sem birt var í Morgunblaðinu 2008 („Eins og frumskógartromma“, flettið því upp). Síðast ræddi ég við hana 2010 og því gaman að rifja upp gamla takta.

AET: Til hamingju með plötuna Emilíana. Mér finnst hún geggjuð!

ET: (Hlær) Mér líka! (hlær meira).

AET: Útkoman er svo … flott eitthvað … svona hvíslað við rúmstokkinn fílíngur…

ET: (Kinkar kolli) Ég var mjög einbeitt þegar við unnum þetta. Ég held að ég hafi aldrei verið jafn skýr í hljóðverinu og núna. Það var líka rosalega gaman að gera þessa plötu. Ég var ekki fyrir sjálfri mér (brosir), þetta var um eitthvað annað. Og fá að vera með vinkonu minni (Zoe) nánast á hverjum degi þegar ég var að gera hana (brosir prakkaralega) var æði. Ég og Simon vorum úti í garði að gera plötuna, Zoe að vinna inni í húsi og svo borðuðum við hádegismat saman úti í sólinni. Og stundum vorum við frjósa saman í ullarfötum á veturna (hlær). Þannig að þetta var rosalega mikil samvinna og miklir töfrar mynduðust í ferlinu. Þetta var alveg einstakt. Og svo fannst mér eins og mamma Zoe væri þarna með okkur líka (horfir glúrin á mig, teygir sig í Múmínbolla og sýpur á. Blaðamaður gerir það sama úr sínum Múmínbolla).  

AET: Þú þekktir hana Geraldine? Var þetta svona glæsileg, ensk ofurkona (og ég sveifla höndum)?

ET: Já. Sko, hún var áströlsk-írsk og ólst upp í Ástralíu … (hugsi) … sko, vá, maður hittir svona fólk svo sjaldan. Fólk sem hreinlega virðist ekki af þessum heimi og er alveg óendanlega sjarmerandi. Og það er alveg sama hvað það gerir. Ég hugsaði oft „vá, ég vildi að ég væri svona!“

Ég sveifla Múmínbollanum mínum og hún sínum og við hlæjum. Við skálum í gegnum Zoom.

ET (kát): Sonur minn gaf mér bollann af því að það er lag eftir mig í Múmínþáttunum. Já, en ég þekkti sjálfa mig í henni (Geraldine). Við erum ekkert ósvipaðar týpur, erum svona frjálsir andar. Það var margt sem gerðist hjá mér við plötuvinnsluna, eitthvað sem gerðist innra með mér við það að fara svona djúpt ofan í þessi bréfaskrif. Maður les á milli lína og fer á svakalegt flug. Og þetta er svo heilagt líka … það er ekkert heilagra en mamma manns einhvern veginn. Ég sagði við Zoe að ef þetta væri mamma mín þá hefði ég ekki leyft henni að snerta hana (hlær hátt)! En Zoe gaf mér alveg svigrúm til að vera með listræna túlkun á þessu öllu saman. Það er svo margt í þessu, svo margar sögur þarna og við vitum ekkert hvort að þær eru allar sannar. Á tímabili vorum við að spá í því að sannreyna eitthvað af þeim en hurfum alveg frá því svo. Ég fann að ég hafði engan áhuga á því. Af því að það skiptir engu máli. Við vorum að upplifa það sem var fyrir framan okkur og það nægir.

AET: Svo passar tónlistin svo vel við. Hún dregur mann inn í þessa stemningu. Er eins og værðarvoð og röddin þín er líka svo framarlega í hljóðblönduninni. Svona eins og það sé verið að hvísla einhverjum leyndarmálum í eyrað á manni, upp úr einhverri leynilegri dagbók. Sem er dáldið málið auðvitað. Líka þessi eldgamla rómantík, bréfaskriftir frá óðum karlmönnum (Emilíana hlær) og líka alls konar bréf. Dramatísk, fyndin og furðuleg.

ET: Rosalega mikið af fyndnum bréfum, einmitt. Og þessi breski húmor. Og þessi kynhvöt öll sem tíðkaðist á þessum tíma. Maður finnur bara lyktina af þessu og sér þetta svo skýrt. Manni er sagt að skrifa dagbók svo manni líði betur og það virkar. Bréf eru síðan enn áhrifaríkari. Þau eru svo persónuleg, ég er að treysta annarri manneskju fyrir hluta af mér. Og þetta er bara á milli mín og hennar. Þetta er svo náið og fallegt. Þegar fólk treystir einhverjum svona þá fer það líka að skrifa til sjálfs síns að einhverju leyti.

AET: Maður skynjar Geraldine að einhverju leyti í gegnum þetta bráðvel heppnaða plötuumslag (á myndinni er Geraldine ásamt Emilíönu, sú síðari sett inn á myndina fyrir tilstuðlan tölvutækni).

ET: Við fundum þessa mynd, ég og Zoe, þar sem við lágum yfir þessum gömlu myndum öllum stundum. Við vorum að reyna að átta okkur á því hvaða maður þetta væri sem sæti þarna á móti henni. Við komumst að því að myndin hafði verið tekin í París. Þetta var fyrsta hugmyndin sem við fengum, að setja mig á móti henni. Það var táknrænt, að hér væri einhver samvinna í gangi og þarna sæti ég á móti konunni sem ég væri að semja tónlist til. Mér fannst það svolítið fallegt.

AET: Og þessa tónlist ætlarðu að flytja á sviði?

ET: Já. Og það er bíómynd líka! En við spilum plötuna alla ásamt eldra efni.

Emilíana mun fara í umfangsmikinn Evróputúr í október og eins og hún segir sjálf, það var líka gerð bíómynd, The Extraordinary Miss Flower, sem verður sýnd á BFI kvikmyndahátíðinni í London í sama mánuði. Myndin er eftir þau Iain Forsyth og Jane Pollard (20,000 Days on Earth m.a., Nick Cave heimildarmyndin magnaða). Myndin er tilnefnd sem besta mynd hátíðarinnar ásamt ellefu öðrum (og Emilíana hnyklar vöðvann á grafískan hátt þegar hún tilkynnir mér þetta, stolt, glöð og smááá feimin).  

AET: Þetta er fyrsta konseptplatan þín er það ekki?

ET: Fullkomlega. Mér finnst eitthvað ótrúlega fallegt við það að hlusta á konseptplötur. Maður þarf að fylgja allri sögunni. Ég fer í sama gírinn og ég var í þegar ég var heima hjá systur ömmu minnar en ég var hjá henni hverja einustu helgi þegar ég var krakki. Hún gaf mér alltaf gúrku sem ég fékk að dýfa í „season all“ (!) og svo var maður að hlusta á Glám og Skrám. Og hún var sú eina sem leyfði mér að snerta plöturnar og þreifa á þeim. Svo sat maður í marga klukkutíma og hvarf inn í þessar sögur. Það er leiðinlegt að hugmyndin um konseptplötur er svo eitruð í dag. En ég held að þær séu að koma aftur. Nú er allt í playlistum, fólk þekkir ekki plötur listamannanna og áttar sig ekki á þræðinum. Þannig að þetta er hárréttur tími fyrir konsept-kombakk!

Sjá nánar um tónleikana hér:
https://senalive.is/vidburdir/emiliana-torrini-i-eldborg/

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: