San Marino Já, góðan daginn!

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 14. maí, 2022.

Handlaugar, vélbolar … jafnvel tónlist?

Úrslitin í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fara fram í kvöld. Hér verður rýnt í þau 35 lög sem flutt voru á undanúrslitunum og kennir að sönnu ýmissa grasa.

Það er hægt að skipta Eurovision-lögum samtímans í nokkra flokka sem virðast endurtaka sig ár frá ári. Við fáum slatta af þjóðlagakenndum lögum, hvar þjóðirnar nýta sér arfinn, oft – en ekki alltaf – með nýstárlegum hætti. Það er oft haganlega samið, nútímavætt popp (oft frá Norðurlöndunum) og svo hreint flipp með dassi af súrrealisma. Þá er það ofurballaðan, hvar söngvarinn stendur einn og keyrir tilfinningasemina upp í ellefu. Ég er að gleyma einhverju, en sem betur fer fáum við líka alltaf lög sem falla utan þessara flokka, eitthvað sem gerir þetta spennandi.

Umgjörðin á Ítalíu er athyglisverð. Stórbrotið svið, ókei, en virkar víst ekki alveg, er mér sagt. Vatnið samt flott. Upphafsatriðið á þriðjudaginn var undarlega gamaldags, kem samt ekki fingrum á það hvað það var sem var að trufla. Kynnarnir eru þá með öllu óþolandi og hallærislegir, allir brandararnir aulahrollsvaldandi og vandræðalegir, eins og misheppnaði frændi þinn sem er að reyna að vera fyndinn í fermingarveislunni.

Fyrra undanúrslitakvöldið hófst ágætlega. Einhvers konar þjóðlagaraftónlistarsturlun frá Albaníu, leitt af glæstri dívu og pilsklæddum gaurum. Ég var að fíla þetta! Úkraína bauð þá einnig upp á þjóðlagaarf. Það mátti halda að Jamiroquai væri kominn á sviðið, og við fengum breikdans í bland við nístandi sársauka aldanna, eitthvað sem Úkraínufólk þekkir því miður allt of vel. Þetta var kúl. Bananaúlfurinn norski komst ágætlega frá sínu, þótt maður finni fyrir ákveðnum rembingi við það að vera hipp og kúl og nútímalegur. Og ólíkt mörgum var ég ánægður með teknópopp Austurríkis. Ísland gerði þá mjög vel, þetta lag er svo vel byggt og haganlega samið og flutningur með slíkum ágætum að ýmislegt gæti gerst í kvöld. Best var Holland, frábær ballaða og fallega sungin en uppáhaldið er Portúgal. Sönghringurinn og stemningin í laginu göldrum líkust, fallegt, hugljúft og bara dásamlegt.

Svo var það hratið og af nógu að taka. Lettar með hörmulega „síð-áttu“ sturlun, þar sem við erum ekki skemmtilega hallærisleg, bara hallærisleg. Sama má segja um Moldavíu, áðurnefndur frændi og vinir hans að skemmta á þorrablóti og við þurfum að þjást. Ætla ekki að telja meira upp, plássins vegna, en nóg var af júróhörmungum.

En hvað var að virka á fimmtudaginn? Finnst eins og það hafi verið meira um gúmmelaði þá. Georgía bauð okkur upp á System of a Down fátæka mannsins, súrrandi sýra með vísunum í Residents og Primus. Frábært! San Marino var þá með atriði sem var svona „endastöð Eurovision“, svo hlaðið að maður þurfti að leggja sig eftir flutning. Ég nam Lönu Del Rey takta í pólska laginu og Eistar voru með vinalega spagettívestraballöðu. Fínt. Tékkar líka mjög góðir, víruð útgáfa af Vök og svalheitaramminn góður. Serbía hins vegar langbest, þetta dularfulla, „Lynch“-íska atriði var bara magnað. Ég vissi varla hvað var í gangi en ég dýrkaði það.

Malta skilaði líklega inn versta Eurovisionlagi sögunnar. Ef þessu lagi var skipt inn á fyrir annað verra? Ég meina, vá! Finnar ollu þá aldrei þessu vant vonbrigðum með því að draga fram sveitina góðkunnu The Rasmus og því hefði mátt sleppa. Írar gerðu þá vel í því að reyna að komast ekki áfram með andlausu danspoppi. Enda enn að borga brúsann af því að hafa unnið keppnina um það bil átján sinnum í röð.

Góða skemmtun í kvöld, kæru landar. Tónlist sefar, ærir, kætir, dregur okkur niður og lyftir okkur upp. Allt þetta og meira til verður væntanlega í gangi og er það vel.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: