Sigurvegarar Var sigur Úkraínu verðskuldaður?

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 21. maí, 2022.


Hvað ertu, Eurovision?


Söngvakeppnin í ár sendi pistilritara um víðan andlegan völl, þar sem hugleiðingar um þetta merkilega dægurmenningarfyrirbæri heltóku hann.


Ég naut þess virkilega að fylgjast með Eurovision í ár, meira en nokkru sinni fyrr í raun, og ég er að reyna að komast til botns í þessu máli. Er þetta aldurinn? Einkanlega tókst úrslitakvöldinu að skríða inn fyrir skinnið. Það var nefnilega stígandi í keppninni. Ég fer venjulega með hangandi haus inn í hana, nenni þessu varla en „neyðist“ venjulega til að horfa á undankeppnina hér heima og undanúrslitin úti, sökum vinnu minnar. Og leiðist það reyndar aldrei, þegar á hólminn er komið, en er svona temmilega kaldur getum við sagt.

En annað gildir með aðalúrslitakvöldið og ég er svona að reyna að skilja af hverju í gegnum þessi skrif. Fyrir það fyrsta vorum við fjölskyldan hjá vinafjölskyldu og kvöldið var rólegt. Tvær fjölskyldur sem þekkjast vel, engin ofsadrykkja, engin læti eða at. Börnin orðin stór, það þarf ekki að hlaupa á eftir þeim og þau voru auk þess lítt áhugasöm um keppnina. Fullorðna fólkið hins vegar afar spennt og þessi gamalkunni fiðringur til staðar er klukkan sló sjö og Eurovision-temað fór að spilast.

Eurovision-kvöld eru skemmtileg og sameina margt. Samveru, sem er mikilvægast, en svo er áhorfið á keppnina jafnan mjög virkt. Það er hlegið, skipst á skoðunum og það er þessi endapunktur og þessi keppnisveruleiki sem heldur manni þægilega á tánum. Sem afþreying er þetta fullkomið form. Og spennan er þrískipt. Fyrst fáum við lögin, svo koma atkvæði dómnefnda og þá áhorfenda. Allt skemmtir þetta óskaplega. Einn af eðlislægum eiginleikum popptónlistar (og einn af mörgum sem gera hana að snilld) er líka sá að lögin eru stutt þannig að manni leiðist aldrei þófið. Lagið drepleiðinlegt? Hinkraðu bara í tvær.

Ég er hugsi yfir sigri Úkraínu. Fólk talaði um samúðaratkvæði. Og að í „venjulegu árferði“ hefði Úkraína líklega ekki sigrað. Ég held að þetta sé rétt. Upp að vissu marki. Mér fannst lagið gott. Elska þessa samtvinnun þjóðlagatónlistarinnar en fannst breikið og rappið dulítið kjánalegt og yfir síðasta söludag. Ég vil stilla fram kenningu. Snýst tónlist ekki fyrst og síðast um áhrif hennar á viðtakendur? Og þarna voru menn, í miðju stríði (og á leið þangað út aftur) að syngja harmrænan gleðisöng sem maður getur rétt ímyndað sér að spretti upp úr mjög svo raunverulegum aðstæðum. Þetta stuðlaði að sigri Úkraínu. Er hægt að rjúfa á óhjákvæmileg tengsl afþreyingar og pólitíkur? Er hægt að taka tónlistina út fyrir sviga? Maður spyr sig.

Annað sem hreif mig óskaplega var framlag Serbíu. Hér höfum við svo gott sem hreint „listapopp“, dægurlag sem gjörning og með þráðbein tengsl í „avant-garde“ hugmyndir. Á sviði Eurovision! Ég hugsaði um listamenn eins og Laurie Anderson þegar ég nam þetta. Og lagið var afar vinsælt hjá almenningi, eitthvað sem fær mig til að klóra mér enn harðar í kolli.

Tölum því næst aðeins um Stóra-Bretland. Ég viðurkenni að Sam „wicked!“ Ryder heillaði mig upp úr skónum. Má maður vona að Bretar séu loksins búnir að fatta Eurovision? Að málið sé ekki að mæta til leiks með nefið upp í loft og með hangandi hendi, nema hvort tveggja sé, heldur að umfaðma kjarna keppninnar að fullu eins og hin löndin myndast við að gera? Mér fannst sá andi stafa frá Ryder blessuðum.

Annað sem kom mér á óvart. Á úrslitunum var ég farinn að elska kynnana (sérstaklega Mika), var orðinn skotinn í Martin Österdahl og fannst stemningin í Græna herberginu svo dásamlega innileg og nærandi. Ég var í álögum. Hámarksvirkni afþreyingar, hlýtur að vera. Búinn að gleyma mér, algerlega, í nokkra tíma.

Eitt að lokum, eitthvað sem veldur mér áhyggjum. Þrátt fyrir þessar mæringar mínar er keppni þessi bundin í eðli dægurmenningarinnar. Það er verið að leika tveimur skjöldum. Þrátt fyrir samfélagslegt gildi hennar, sem er ríkt, þá eru þetta um leið skyndibitar, yfirborð. Eða hvað? Mér finnst ég hálfgerður loddari að vera að skrifa svona í einhverjum æsingi og svo verð ég búinn að gleyma öllum þessum lögum í næstu viku.
Biðjið fyrir mér!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: