PSY - mynd

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 29. desember]

Milljarða virði

 

Myndband PSY við „Gangnam Style“ (ég þarf ekki að eyða miklu púðri í bakgrunn þessa alls) er skemmtilegt, grallaralegt, litríkt. Uppsprengt en fyrst og síðast innihaldsrýrt sprell. Hefur maður ekki séð svona myndbönd milljón sinnum áður? Lagið er ódýrt. Sæmilega heiladautt popp, byggt á úr sér gengnu Evrópoppi að mestu. Það er eiginlega ekkert í myndbandinu, hvað þá laginu, sem hefði mögulega getið gefið einhverjar vísbendingar um þær ótrúlegu vinsældir sem það nýtur á heimsvísu í dag. Það eina sem maður hefur í höndunum er að það er sama hversu mörg excel-skjöl eru stofnuð, línurit upp dregin eða grá jakkaföt pressuð fyrir þankahríðafundina endalausu sem ætlað er að segja fyrir um hvað verði heitt og hvað ekki neitt, það er óræða breytan – hinn svofelldi „x-factor“ – sem stýrir málum á endanum.

Dreifingarhraði

Hvernig stendur eiginlega á þessu? Er von að maður – og fleiri – spyrji? PSY sjálfur (fæddur Park Jae-sang 31. desember 1977) er ekki beint líklegasta poppstjarnan, hvorki hvað aldur varðar né líkamsvöxt (á poppskala myndi hann teljast gildvaxinn en er hann ekki bara tiltölulega eðlilegur hér í „raunheimum“?). En PSY er enginn vitleysingur. Ferill hans spannar nú þegar yfir áratug og frá upphafi hefur hann vakið athygli fyrir óvenjulega háttsemi og nýstárlegar leiðir í popp-arkitektúrnum. Og þegar „Gangnam Style“ var sett undir mæliker vestrænna poppfræðinga kom í ljós glúrið háð á hástéttina í Seúl, myndbandið væri viljandi yfirkeyrt og beitt kímnigáfa PSY mallandi undir hverjum ramma.
Myndbandið var frumsýnt í júlí og dreifingarhraðinn á því, svo ég noti þá lýsingu, hefur verið með miklum ólíkindum. Það er eins og maður sé alltaf að fá skýrari sannanir fyrir hinu svokallaða heimsþorpi, þar sem allir eru í sekúndu fjarlægð hver frá öðrum. Fólk um heim allan – af öllum stærðum og gerðum – hefur þannig póstað eigin útgáfum af laginu og þá sérstaklega dansinum á youtube og æðið er síst í rénun.

Roknavinsældir

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem eitthvert fyrirbæri dregur að sér roknavinsældir á skömmum tíma fyrir tilstuðlan netsins ógurlega. Engu að síður finnst manni þetta tiltekna dæmi vera algerlega einstakt. Þegar lög verða svona vinsæl eru þau jafnan frá Vesturlöndum fyrir það fyrsta. Og að dansinn góði sé svo gott sem dansaður af öllum, hvort sem það er af mér (já, ég er að æfa mig) eða Ban Ki-moon, fær mann til að hugsa. Á wikipedíunni er nú um metra löng færsla um menningarleg áhrif myndbandsins og maður hlýtur að spyrja: Á hvaða alheimsstreng náði PSY eiginlega að slá þarna? Er mannkynið semsagt tengt, eftir allt saman, í gegnum skondinn og fáránlegan knapadans?
Það er eins og PSY hafi á einhvern ótrúlegan hátt náð að opna fyrir þessa mjög svo náttúrulegu þörf okkar fyrir að bregða á leik, bara til þess að bregða á leik, dyggilega studdur nýjustu tækni og vísindum.

En ég er bara að hugsa upphátt. Þetta sérkennilega dæmi þarfnast meiri djúpsjávarköfunar en 500 orða pistill ræður við. Talið við mig á næsta ári.

Tagged with:
 

One Response to Gangnam Style!: Poppfræðileg úttekt

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: