George-Jones-608x416

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 4. maí, 2013]

„Hann hætti að syngja í dag…“

• Kántrígoðsögnin George Jones lést í síðustu viku
• Rödd hans þykir sú fegursta sem kántrítónlistin hefur getið af sér

Banastikan mín („deadline“) var útrunnin á föstudaginn næstsíðasta (26. apríl) þegar frétt þess efnis að George Jones væri látinn barst. Ég hefði vitaskuld húrrað inn minningargrein hefði mér unnist tími til og þess vegna koma hugleiðingar mínar um þennan meistara nú, með næstu lest ef svo mætti segja.
Leiðir mínar og Jones lágu saman með nokkuð sérkennilegum hætti. Það var um miðjan tíunda áratuginn og ég var að vafra um einn af margmiðlunardiskum Encarta sem Microsoft gaf út um hríð. Þetta var fyrir alræði internetsins og Wikipedíu sjáið til. Þar var að finna hljóðbút með lagi í flutningi Jones en bútarnir voru ekki margir og sýnir það m.a. vel í hversu miklum metum hann var þarna vestra. Lagið var „Shes’s Lonesome Again,“ búturinn á að giska 15 sekúndur. En seiðmagnið í röddinni var slíkt að ég var með það í hausnum í fjölmörg ár á eftir. Þar og þá sannfærðist ég um kynngi þá sem rödd hans bjó yfir og sá þann kost vænstan að kanna feril hans betur.

Grjótharður

Jones hóf innreið sína í sveitatónlistina á sjötta áratugnum en stjarna hans skein skærast á þeim sjöunda og áttunda. Árið 1969 giftist hann annarri kántrístjörnu, Tammy Wynette, og var samband þeirra með eindæmum stormasamt (þau skildu árið 1975). Jones var drykkfelldur mjög og sáu sumir hann sem einhvers konar kjörson Hanks Williams hvað lífsstíl varðaði en Jones var undir miklum áhrifum frá kántríkónginum. Jones var enda ávallt með aðra löppina kirfilega í grjóthörðu honkí-tonkíi þó að síðar á ferlinum yrðu silkimjúkar ballöður helsta einkennismerkið. Jones náði um síðir að rífa sig frá Bakkusi og hann kom reglulega fram allt til enda nánast, risatónleikaferðalag var meira að segja á teikniborðinu fyrir árið í ár og var ýjað að því að það yrði hans síðasta.
Eins og áður segir verður mönnum tíðrætt um hreinleikann sem var í rödd Jones. Hvernig honum tókst að renna fullkomlega saman við lagið sem hann var að flytja, tilfinningin svo sterk og sannfærandi að fólki varð orða vant. „Þetta var ekki flutningur, bara hljóðið í manni sem var að brotna saman fyrir framan þig,“ sagði Mark Hagen hjá BBC í minningarorðum og Hank Wangford hjá Guardian lýsir því hvernig Jones lengdi á tónunum og skreytti þá með tilfinningalegri dýpt sem fáir – ef einhverjir – gátu leikið eftir.

Áhrif

Jones hafði þá djúpstæð áhrif á kántrírokkara eins og Gram Parsons sem söng eitt af einkennislögum Jones og Wynette, „That‘s All It Took“, á fyrstu sólóplötu sinni GP árið 1973 ásamt Emmylou Harris. Hæfileikar skera á öll kynslóðabil og -stefnur og yngri rokkarar eru með Jones á stalli. Twitter-vottum hefur þannig rignt inn frá ólíklegustu áttum; Tom Morello, Kings of Leon og Caitlin Rose hafa öll sent alnetinu línu en einnig samtíðafólk eins og Kenny Rogers og Dolly Parton. Sjálfur Merle Haggard sparar þá ekki stóru orðin og segir: „Heimurinn kann að hafa misst mesta kántrísöngvara allra tíma.“ Jones lést á sjúkrahúsi í Nashville og var 81 árs.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: