Skrifað í tengslum við Nuuk Nordic Culture Festival, hátíð í Nuuk sem við sóttum heim dagana 9. – 12 október.

Mikið er nú undarlegt að hafa vitað af Grænlandi alla ævi, þessi risastóra, ísi lagða eyja sem er úti á horni, en koma svo ekki þangað fyrr en maður er orðinn 45 ára gamall. Manni finnst eins og Grænlendingar og Íslendingar eigi að vera að renna á milli eyjanna svipað og þeir séu að skreppa úr miðbæ upp í Breiðholt en það er öðru nær. Við erum á ferð og flugi til allra annara staða í heiminum að því er virðist. Svo þegar ég festi loks bláeygður kaup á tveimur miðum, fram og til baka, var það 350.000 IKR. Góðan daginn! „Faraway .. So Close“ eins og skáldið kvað.

Þessi skrif sem nú fara snúast fyrst og fremst um fyrstu hughrif, óritskoðuð. Opin dagbók/flæði manns sem vill skilja og vera opinn. Hvað er að gerast í Grænlandi/Nuuk? Hvernig horfir þetta við forréttindapésanum? Ég á mikil og rík tengsl við Færeyjar, góða vini þar, en það tók tíma, samveru og nánd svo að skilningur á ýmsu sem var mér hulið áður, næðist. Versta finnst mér, að ég kom þangað fyrst með ákveðið yfirlæti. Slíkt er ekki í mér lengur.

Landslagið í kringum Nuuk er hrjóstrugt. Eyðilegt. Hrikaleg fjöll í fjarska, gróðursnauðar klappir við fæturna. Og það er bráðabirgðabragur á öllu hérna, finnst mér. Eins og bærinn sé deluxe útgáfa af birgðastöð Bandaríkjahers. Hér eru blokkir og raðhús, allt í skipulegum og skýrum stíl. En köldum og fráhrindandi. Þetta er t.d. skrifað í úthverfi norður af Nuuk, Nuussuaq, þar sem raðhúsablokkirnar eru í mildum tréhúsastíl. Jú jú, fínt. Eins og krúttlega, litríka hafnarhverfið í Grafarvoginum með Grafarholtsblæ. Miðbær Nuuk fer aðeins að minna á eðlilegan bæ, veitingahús og gönguljós (strætóar!), en ekkert sem mætti kalla krúttlegt eða kósi, þannig séð. En alveg róleg, ég lofaði heiðarleika og að segja frá fyrstu tilfinningum á hráan hátt. Allt þetta gæti breyst, mynd mín af staðnum tekið á sig annað form, þess vegna eftir hádegi. Bíðum átekta.

Hvernig á ég að orða næstu málsgrein án þess að líta út eins og fáviti? Ég hef aldrei umgengist innfædda, fyrir utan það að vera í vinfengi við hljómsveitina Nanook. Fyrstu Grænlendingarnir sem ég hitti voru þeir, árið 2011, og það samband skilaði mér hingað loks. Þannig að, að vera í strætó yfirfullum af inúítum var … exótískt. Öðruvísi. Eitthvað annað. Og vegna þess sem maður les og heyrir um stöðu mála hér, nálgast maður hlutina á undarlegan hátt. Af fávisku og fordómum? Alveg ábyggilega. Ég fór í matvörubúð, bjórkælirinn var hálftómur, og ég fékk í magann. Meðvirkur með alkóhólismanum sem hér grasserar.

Tilfinningar hlaupa stundum með mig í gönur og ég á það til að sjá hlutina svart/hvítt. Danir eru djöfullinn, Grænlendingarnir fórnarlömb. En ég vil sjá blæbrigðin. Hvað er raunhæft og hvað ekki? Og er verið að vinda af hlutum – eður ei? Þarf þess? Hæsta sjálfmorðstíðni heims er í Grænlandi, helmingi hærri en í næsta landi sem á eftir kemur. En núna er ég mættur, búinn að spjalla við vonbjartan og glaðan gistihúsaeigandann (sem er að fara að bjóða okkur í sela-súpu), búinn að glettast við leigubílstjórann og njóta uppbyggilegra samskipta við menningarpáfa, ljóðskáld og tónlistarmenn sem kalla Grænland heima. Allt þetta fólk er með blik í auga. Ég geng brattur út í morgunsólina.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: