[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 22. september]

Birnirnir frá Brooklyn

• Shields er fjórða plata Brooklyn-sveitarinnar Grizzly Bear
• Sú plata á árinu sem beðið hefur verið eftir með hvað mestri eftirvæntingu

Þriðja plata Grizzly Bear, Veckatimest, var hæglega með því allra, allra besta sem út kom árið 2009 í tónlist. Tilraunakennt kammerpopp, mun áhlýðilegra og grípandi en lýsingin gefur til kynna og Nico „okkar“ Muhly hafði meira að segja hönd í bagga með að draga verkið að landi. Virkilega heillandi verk og einfaldlega góð plata. Mjög góð meira að segja. Eiginlega ekki hægt að lýsa því nákvæmar. Nú gefst skemmtilegt tækifæri til að bregðast við eigin skrifum en á þeim tíma reit ég eftirfarandi í þetta blað: „Grizzly Bear eru stórhuga menn en metnaðurinn keyrir aldrei sjálfar lagasmíðarnar niður og þannig nær sveitin að landa meistaraverki. Platan flöktir glæsilega á milli risastórra kafla, þar sem alls kyns hljómar og ólíkir eru þræddir saman í stóreflis hljómmynd og svo innilegra, melódískra og hálf-þögulla stunda þar sem hlustandinn er kominn inn í stofu til sveitarinnar. Og allt hangir þetta fullkomlega eðlilega saman. Grizzly Bear er eins og sést á miklu háflugi nú um stundir. Hvað næst? spyr maður sig óhjákvæmilega.“ Og nú er komið að því að svara því…

Meira rokk?

Því að þetta „næst“ kom út nú í vikunni í formi fjórðu hljóðversplötu sveitarinnar sem kallast Shields. Og er hún risa-„stór“, með 200 manna sinfóníuhljómsveitum og alltumlykjandi ofurflúri? Eða stungu meðlimir af upp í fjallakofa og strípuðu niður hljóminn á nýjan leik? (fyrsta verk Grizzly Bear, Horn of Plenty (2004), var í raun réttri sólóplata Ed Droste, leiðtogans). Við erum einhvers staðar þarna á milli heyrist manni við fyrstu hlustun og það er ennfremur gefið aðeins meira í hvað rokkið varðar, hljómur hvassari og beinskeyttari.

Eftir að hafa túrað Veckatimest nokkuð þétt tók sveitin sér frí frá störfum í hálft ár. Eirðarlausustu meðlimirnir fundu sér sitthvað að gera í millitíðinni, Chris Taylor vann t.a.m. að sólóefni í gegnum nafnið CANT og Daniel Rossen gaf út stuttskífu, Silent Hour/Golden Mile. Strax í maí 2011 var tilkynnt að ný hljóðversplata frá Grizzly Bear væri væntanleg og í júní fór sveitin til Texas þar sem upptökur voru settar í gang. Taylor sá um að snúa tökkum og ígildi breiðskífu var klárað. En Droste og félagar voru engu að síður ekki sáttir við útkomuna og megnið af efninu var sett upp í skáp.

Það losnaði hins vegar um ritstífluna svo um munaði þegar sveitin sneri aftur í Gula húsið sem amma Droste á en þar var önnur plata sveitarinnar, sem er skírð í höfuðið á húsinu, tekin upp. Tveggja mánaða dvöl þar í sæmilegri einangrun skilaði okkar mönnum loksins í höfn. Lögin voru þá samin á annan hátt en venjulega, Droste segir að í fyrsta skipti hafi menn sest niður og búið til eitthvað úr engu í sameiningu.

Ótti

„Við vorum óttaslegnir í fyrstu. Við höfðum aldrei unnið svona náið saman áður. Svo opnuðust menn. Eftir því sem við verðum eldri og öruggari með okkur, þroskaðri jafnvel, er eins og við séum ekki jafn smeykir við það að troða hver öðrum aðeins um tær.“

Tagged with:
 

One Response to Grizzly Bear: Plata ársins?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: