Risi Björgvin Halldórsson, anno 2021. Ljósmynd/Eggert (Morgunblaðið)

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 24. apríl, 2021.

Að lita tímans svörð

Björgvin Halldórsson fagnaði sjötíu ára afmæli sínu á dögunum vel og innilega. Var meðal annars blásið til afmælistónleika, nema hvað! En hvar liggur tónlistarlegt vægi þessarar lifandi goðsagnar?

Ég er á þeim aldri að Björgvin Halldórsson hefur alltaf verið til. Og alltaf verið risi. Er það ekki merkilegt að þannig hefur það í raun verið allar götur síðan hann var valin poppstjarna ársins árið 1969, þá ekki nema átján ára? Að minnsta kosti hefur ekki þótt tilefni til að velja aðra slíka.

Björgvin hefur alltaf vitað lengra en nef hans nær. Skynugur á tíma sinn og hvað móðins er um leið og hann hefur aldrei verið múlbundinn af slíku. Fljótur að hugsa, beittur. Sjarmerandi, iðinn og hæfileikaríkur. Söngvinn, gítarsláttumaður og lagahöfundur. Okkar maður var vel nestaður þegar hann lagði upp í ferð og ákvað að gefa tónlistinni öll sín bestu ár, líf sitt í raun.

Björgvin skilur líka vel í hvaða bransa hann er og um hvað hann snýst á endanum. Það þarf að skemmta fólkinu. Popp og vinsældir hafa aldrei verið lastmæli í hans bókum nema síður sé. Þetta umfaðmaði hann með glæsibrag á áttunda áratugnum og svo allar götur síðan. Mér hefur fundist ansi merkilegt að skoða hvernig barið var á honum og hans mönnum af sjálfskipaðri listaelítu á sínum tíma. Mín kynslóð sér þetta ekki sömu augum. Brimkló dældi út vinsældaefni á sínum tíma en Björgvin vissi upp á hár hvað hann var að gera með því batteríi. Það er t.d. vel hægt að höfða til fjöldans en halda í smekkvísi um leið. Á Rock‘n{lsquo}Roll, öll mín bestu ár (1976), fyrstu breiðskífu Brimklóar, er t.d. ábreiða á „In My Hour of Darkness“ eftir Gram Parsons og Emmylou Harris og „Full Circle“ eftir Gene Clark og eru bæði við íslenska texta að sjálfsögðu. Rándýr tökulög! Efa að fólk hafi tekið almennilega eftir þessu á sínum tíma en við sem böðuðum okkur upp úr jaðarkántríi í kringum aldamótin sáum að Bó vissi vel hvar átti að leita eftir ærlegum lagasmíðum (og hamraði hann kántríjárnið frekar bæði sóló og með Brimkló og Hjartagosunum á fyrsta og öðrum áratug nýs árþúsunds).

Björgvin hélt sterkri stöðu á níunda áratugnum; söng vinsæl lög, gaf út jólaplötur og var allra handa poppmógúll (gleymi því aldrei þegar hann söng melódíuna við „Hjálpum þeim“ í símaviðtali við einhverja útvarpsstöðina, lagið þá í vinnslu). Í minningunni var maðurinn út um allt. Hvort heldur að sprella með HLH eða syngja einhverja hjartatosandi ballöðuna.

Síðustu áratugi hefur maður svo fylgst með Björgvini verða að nokkurs konar „don“ íslenskrar dægurtónlistar. Jólatónleikar hans eru glæsilegt sjónarspil og það er hægt að leika sér að samlíkingum (Presley hittir Sinatra með dassi af Cash?). Björgvin hefur borið sig með reisn hvað þetta varðar og líka magnað að sjá hvernig menn hafa verið að mildast með árunum. Í gegnum fjasbókina sér maður ekkert nema kærleik, þakklæti og hjörtu. Hvernig hann talar við og um börnin sín á þeim vettvangi, hvetur þau áfram í sinni list, er beinlínis hjartavermandi.

Björgvin hefur alltaf verið risi og utan við tímann á einhvern hátt eins og jafnan er með sígilda tónlistarmenn. En svörð hans hefur hann engu að síður litað eins og segir í laginu. Sterkum, skemmtilegum og afar eftirminnilegum litum.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: