Fjölhæf Margrét Rán er ekki við eina tónlistarfjölina felld.
Ljósmynd/Dóra Dúna.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 1. maí, 2021.

Tónspor á Ránarslóð

Margrét Rán Magnúsdóttir er kona ekki einhöm. Hún leiðir poppsveitina frábæru Vök en fann svo einhvers staðar tíma til að semja tónlist fyrir kvikmyndir. Og ekki eina, heldur tvær.

Annars vegar er um að ræða tónlist við Fjörd Lines , stuttmynd sem snjóbrettaiðkandinn Rúnar Pétur og kvikmyndagerðarmaðurinn Víðir Björnsson gerðu í sameiningu. Við fylgjumst með Rúnari bruna um fjöll í grennd við Neskaupstað og sjónarspilið allsvakalegt (myndina má finna á whitelines.com). Hins vegar er það tónlistin við heimildamyndina A Song Called Hate hvar fylgst er með ævintýrum Hatara í Eurovision. Plöturnar eru báðar tiltölulega nýútkomnar og í styttra lagi, sú fyrrnefnda sex laga stuttskífa upp á tæpar fjórtán mínútur, sú síðarnefnda tæpur hálftími að lengd (báðar á Spotify). Efniviðurinn nægði þó pistilritara til að greina þar nokk persónulegan stíl. Maður heyrir smávegis í Vök en þó meira í manneskju sem kann giska vel á þau handbrögð sem fylgja því að gera vel heppnaða tónlist af sjónvarps- og kvikmyndatoga.

Tildrögin að Fjörd Lines liggja í því að Margrét hafði fylgst með þeim félögum á samfélagsmiðlum um hríð og hrifist af því sem þeir voru að gera þar. Hvernig þeir voru rennandi sér um íslenska náttúru í alls konar aðstæðum, nýtandi hana til fulls. Í stuttu spjalli við greinarhöfund sagðist hún einfaldlega hafa sent Víði línu og boðið fram krafta sína ef hann þyrfti tónlist við eitthvað af þessum tiltækjum. „Þannig varð þetta samstarf til,“ segir hún. „Við stefnum 100% á að gera eitthvað meira saman í framtíðinni.“

Tónlistin við A Song Called Hate var svo unnin af Margréti í samstarfi við Berg Þórisson sem aðstoðaði við að klippa og hljóðblanda verkið. Í fréttatilkynningu var haft eftir Margréti: „Mig hefur alltaf langað til að gera þetta og það var því frábært tækifæri að fá að vinna með Önnu Hildi og hennar teymi. Ég lifði mig mjög mikið inn í fyrstu klippin sem ég fékk frá henni og smám saman bjó ég til safn af þeim tilfinningum sem ég skynjaði þegar ég var að upplifa ferðalag Hatara í gegnum myndirnar sem ég sá.“

Margréti tekst vel að ramma inn það viðfangsefni með hljómum. Tónlistin er hvöss og áleitin, vísandi í „industrial“-grunn Hatara um leið og stemmunum er sveiflað í draum- og poppkenndari áttir ef svo ber undir. „Into the Unknown“ hefst á gítarplokki en svo tekur engilblíð rödd við (eins og úr fjarska) en undir krauma ókennilegri hljóð. Leikur að andstæðum. „Palestine“ er angurvært og löngunarfullt og gítarinn svona ýjar að Austurlöndum. „The Flag“ ber með sér spennu, eðlilega, og Margrét er jafnvíg á blíðu og grimmd í tónmáli sínu.

Tónlistin við Fjörd Lines er ekki ósvipuð og maður merkir að hér er sami höfundur. Hljóðgervlaleg epík opnar hana („Sensation“) og því er fylgt eftir með ósunginni stemmu í Vakarsniði („Junoland“). Lögin eru hress og værðarleg á víxl eins og myndmálið kallar eftir, öll unnin innan þessa þokkafulla, vélræna tónheims sem Margrét kann svo vel á. Tónlist fyrir kvikmyndir tekur ávallt mið af því sem hún þjónar en það er vel hægt að hefla út eigin stíl í gegnum þá vinnu eins og okkar helsta fólk á því sviði hefur gert (Hildur og Jóhann t.d.).

Ég spurði Margréti hvernig hún bæri sig að þessari vinnu. Ég hefði orðið var við Vök, væru þetta mögulega hugmyndir sem næðu ekki þangað inn eða eitthvað allt annað?

„ Fjörd Lines -tónlistin er mestmegnis samin fyrir myndina en ég átti líka tvö lítið unnin demó sem ég tók lengra því þau pössuðu svo vel við landslag myndarinnar,“ svarar hún. „Þannig að það er allur gangur á þessu.“ Hún segist að lokum vel geta hugsað sér að vinna meira á þessum vettvangi: „Mér finnst þetta mjög spennandi atvinnugrein og er ég að fiska eftir fleiri verkefnum. Það vantar líka fleiri konur í þetta.“

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: