pharrell thicke

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 21. mars, 2015

Allt sama súpan?

• Dómsmálið varðandi „Blurred Lines“ hefur vakið athygli
• Hvenær eru menn að stela lögum og hvenær ekki?

Hljómsveitinni AC/DC var stefnt fyrir dómstóla fyrr á árinu. Kom í ljós að öll þeirra lög, tæplega 200 talsins, eru meira og minna byggð á gítarstefi því sem Chuck Berry brúkar í „Johnny B. Goode“. Þó að laglínurnar séu ekki alltaf nákvæmlega þær sömu, þá er stemningin afskaplega áþekk í hvert og eitt sinn. Meðlimir áströlsku rokksveitarinnar játuðu brot sín fyrir dómstólum og hafa nú greitt Chuck gamla, sem er enn í fullu fjöri (ja…eða a.m.k. í fjöri) um 350 milljónir dala, vegna uppsafnaðra stefgjalda.

Stolið og stælt

Þetta lauflétta grín mitt hér í upphafi (en þó ekki) er spunnið út frá dómi sem féll um lagið ægivinsæla „Blurred Lines“ á dögunum. Höfundunum, þeim Robin Thicke og Pharrell Williams, var gert að greiða afkomendum Marvin Gaye 7,3 milljónir dala í bætur en sannað þykir að lagið hafi verið stolið og stælt og fyrirmyndin sé lag Gaye, „Got to Give It Up“, frá 1977. T.I., þriðji höfundurinn, slapp þó við dóm. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem dómur um lagastuld fellur, slíkt er orðið að viðtekinni venju í dægurtónlistarheiminum, en dómurinn er þó nýstárlegur um margt og hefur vakið nokkuð hörð viðbrögð, einkanlega frá popptónlistarmönnum. Það sem vekur m.a. furðu er að lögin tvö voru borin saman með því að bera þau saman á nótum, en slík aðferð þykir bera vott um lítinn skilning á eðli og eigindum popptónlistar. Tónskalinn sem allra handa popp og rokk vinnur með er takmarkaður og það sem einatt skilur að lagasmíðar sem eru á pappír svo gott sem eins, er eitthvað sem hægt er að kalla tilfinning, áferð, hljómur, þ.e. eitthvað sem hver og einn listamaður kemur með að borðinu í sjálfum flutningnum.
AC/DC spila afskaplega „einfalda“ tónlist (en algerlega stórkostlega, verð ég að fá að bæta við) en þú heyrir á fyrsta gítarslætti um hvaða sveit er að ræða. Sama gildir um ZZ Top og Status Quo og allt eru þetta hljómsveitir með einkennandi hljóm. En þær gætu kært hver aðra til eilífðarnóns með nótnaútskriftir að vopni, hefðu þær nennu í það. Þá er við þetta að bæta að ýmsum hljóðversbrögðum er beitt í dag til að gefa lögum lit og sérkenni, eitthvað sem ekki er hægt að festa á nótnablöð. Þessi nálgun dómstólanna er því út úr kú. Thicke og Pharrell ætla að áfrýja dómnum og vonandi verður hann að engu gerður því að fordæmið er einstaklega vafasamt og í raun algjört rugl.

Tengingar

Aldrei tengdi ég t.a.m. „Blurred Lines“ og Gaye-stemmuna saman (lagið er einmitt meiri stemma en lag). „Blurred Lines“ býr t.d. yfir nettum ska-takti sem er ekki fyrir að fara hjá Gaye. Ég kveikti ekki heldur á nýlegu dæmi, þegar Sam Smith var gert að hafa stolið lagi Tom Petty, „I Won’t Back Down“. Það eru svipaðar línur þarna, já, en andrúm laganna er afskaplega ólíkt. Það segir sig nefnilega sjálft að ef „Blurred Lines“-málið heldur þá geta ættingjar Bob Marley kært meira og minna alla reggítónlistarmenn sem á eftir Marley hafa komið. Og sama á við um allflesta undirgeira popptónlistarinnar.
Ekkert kemur úr engu, fólk vinnur úr áhrifum, meðvitað sem ómeðvitað, og það er tilfellið, að mínu viti, með þetta mál. Og fleiri. Ekkert er nýtt undir sólinni. Ég hlusta t.d. mikið á dauðarokk og ég skil vel að fyrir þá sem standa utan við þá stefnu er þetta allt sama lagið. Blæbrigðin verða hins vegar ljós þeim sem eru á kafi í geiranum og á það við um allar undirstefnur dægurtónlistarinnar. En, ef menn hafa tímann fyrir sér og peninga er hægur vandi að búa til slatta af stefnum. Það verður því fjör á næstu árum, haldi þessi stórundarlegi dómur. Ég fagna því er honum verður hnekkt. Ég ætla að leyfa mér að hafa trú á mannkyninu í þetta skiptið.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: