AFP 531219989 E MUS MUS GBR SO

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 5. júlí, 2014

Sumarið er (tónlistarhátíðar)-tíminn

• Tónlistarhátíðir njóta vinsælda að sumri til, hérlendis sem erlendis
• Þessi geiri tónlistariðnaðarins hefur eflst mikið á undanförnum árum
• Dagskrá ATP á Ásbrú í ár er sérlega tilkomumikil

Um næstu helgi verður tónlistarhátíðin All Tomorrow’s Parties haldin öðru sinni í Ásbrú, Keflavík, en pistilhöfundur hefur aldrei barið jafn tilkomumikla dagskrá augum hvað íslenska tónlistarhátíð varðar. Ég man að ég var orðlaus þegar ég sá þetta, maður er vanur að sjá tvo, þrjá risa og svo slatta af „áhugaverðum“ böndum – annaðhvort gildandi listamenn sem mega þó muna fífil sinn fegri eða óþekkt ungblóð löðrandi í nýjabrumi. Og ekkert að því. En í þetta sinn virtist risaupptalningin aldrei ætla að hætta. Interpol, Portishead, Mogwai, Swans, Low, Kurt Vile… og svo framvegis! Og svo tengir hátíðin inn í Neil Young-tónleika sem fara fram nú á mánudaginn. Jamm… detta mér allar dauðar lýs…

Dýrð

Á vissan hátt er þessi dýrð táknræn um viðgang og vöxt tónlistarhátíða heilt yfir hin síðustu ár. Við höfum þurft að þola svartagallsraus frá fulltrúum iðnaðarins í áratugi um minnkandi sölu tónlistar en slíku er þó ekki hægt að snúa upp á tónleika. Tekjur af slíku hafa aukist jafnt og þétt hin síðustu ár og samfara því hafa verið miklar hræringar í tónlistarhátíðabransanum. Hræringar segi ég, því að ekki er hægt að tala um beina línu upp á við, og þannig fóru nokkrar tónlistarhátíðir á hausinn hér í Bretlandi fyrir tveimur árum. En virknin er mikil, geirinn er „sprelllifandi“ að því leytinu til og nýjar hátíðir spretta upp eins og gorkúlur á meðan aðrar falla í valinn, sumar sérhæfðar (þjóðlagatónlist, raftónlist, þungarokk o.s.frv.) og stærri hátíðir eins og Hróarskelda, Glastonbury og Coachella hafa treyst sig í sessi. Undanfarnar vikur hafa blöðin hérna úti t.d. nærst vel á þeirri staðreynd að Metallica lék á Glastonbury sem eitt aðalnúmerið (en ekki hvað). Þær hártoganir allar, eins og bjánalegar og þær hafa annars verið, færa heim sanninn um hið mikla gildi sem tónlistarhátíðir hafa í dag, og þá ekki bara hjá tónlistarnerðinum heldur líka hjá meðaljóninum.

Sérkenni

Þegar ég var reglulegur gestur á Hróarskeldu á fyrsta áratug aldarinnar varð mér ljóst hið fjölþætta hlutverk tónlistarhátíða. Tónlistin er aðeins einn þáttur af upplifuninni og aðalmálið var „andinn“. Það skipti ekki máli hvort þessi, hinn eða Metallica voru að spila heldur einstæð stemningin – en henni er erfitt að koma í orð – sem lék um mann. Tónlist var allt um kring en einnig vinir, matur, uppákomur, fíflalæti, sögur, partí, samtöl, ferðalagið á hátíðina, brölt í tjaldi og þessi skrítni gaur þarna sem þú sérð ár eftir ár á hátíðinni. Hróarskelda hafði þannig gildi í sjálfu sér. Þessi eiginleiki á við um fleiri hátíðir; ég nefni t.d. Eistnaflug og G! hátíðina í Færeyjum, þar sem ég hef reynslu af þeim, en báðar búa yfir sérkennum sem heilla og draga að sama fólkið ár eftir ár.
Emma Webster, sem er ein af rannsóknarteyminu sem stendur á bakvið verkefnið Live Music Exchange (http://livemusicexchange.org/), lýsir lítilli samanburðarrannsókn sem hún gerði á tveimur tónlistarhátíðum og nefnir þar ýmislegt sem prýða ætti góðar hátíðir. Tiltekur hún m.a. „vinalega“ öryggisgæslu og mikilvægi þess að hafa sæmilega litríkan og skemmtilegan umbúnað um hátíðina. Rannsóknir sýni einmitt að fólk sæki hátíðir ekki eingöngu vegna tónlistarinnar og vandvirkni hvað aðra þætti varðar ýti venjulega undir aðsókn og gott umtal. Á vefsíðu þessa verkefnis má finna fleiri greinar um eðli og eigindir tónlistarhátíða en rannsakendur vinna m.a. að ritverki um sögu tónleikamenningar í Bretlandi.

Þörf

Rapparinn Murs, sem rak hipphopp-hátíðina Paid Dues í Los Angeles, segir vaxandi vinsældir hátíða ganga í takt við aukna tæknivæðingu samfélagsins. „Fólk sendir sms, fer á skæp en kíkir ekki í heimsókn hvað til annars. Við erum hætt að snerta hvert annað,“ sagði hann í spjalli við L.A. Weekly. „Fólk sækir í hátíðir til að sinna þessari náttúrulegu þörf fyrir samkennd og félagsskap sem tæknin lokar alla jafna á.“
Hippaleg lokaorð en algerlega við hæfi. Góða skemmtun í sumar!

 

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: