yeah yeah yeah

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 28. júní, 2014

Sagan öll?

• Yeah Yeah Yeah, saga nútímapopps, er feiknlegt verk
• Höfundurinn er tónlistarmaður og popppenni

Ég fór til London á dögunum og pikkaði þá upp bók Bobs Stanley, Yeah Yeah Yeah – The Story of Modern Pop, um leið og ég valsaði um hina tilkomumiklu Rough Trade-búð í Brick Lane. Hef ég legið talsvert í henni síðan og haft gaman af – og já, einnig nokkurt gagn. Bókin hefur verið nokkuð nafntoguð og verkefnið sem Stanley setti sér er að sönnu metnaðarfullt en í gegnum tæplega 800 síður gerir hann tilraun til að rekja sögu þess sem hann kallar „nútímapopp“, allt frá Bill Haley til Lönu del Rey.

„Ferlar“

Fyrir poppnörda er þetta Guðsgjöf en Stanley skiptir bókinni upp í fimm hluta sem innihalda alls 65 kafla. Skiptingin er að mestu eftir stíltegundum (fremur en árum) og er sagan rakin í tímaröð. Það eru kaflar um grugg, hipphopp, diskó, kántrí og þungarokk, og líka um sértækari efni, sálartónlistinni eru t.d. gerð skil í gegnum mismunandi kafla sem heita t.a.m. „deep soul“, „electrified soul“ og „soft soul“. Síðpönk, „nýpopp“ níunda áratugarins og amerískt pönk fá líka sérkafla og einnig listamenn eins og Kraftwerk, Bítlarnir, Bee Gees og Michael Jackson. Stundum dokar hann við og lítur yfir farinn veg í köflum eins og „1970: Everything‘s Gone Grey“ og „1975: Storm Warning“.
Ég varð fyrst var við Stanley í gegnum sveit hans, Saint Etienne, sem var ein af merkari poppsveitum Bretlands í upphafi tíunda áratugarins og er enn í dag mikils metin (og starfandi er hún enn). Síðan fór ég að rekast á greinar eftir hann í tónlistarblöðunum, einatt um löngu gleymdar kvenkyns poppstjörnur frá sjöunda áratugnum, meistaraverk úr ranni sálartónlistar og fönks eða hipsteravænar létthlustunarskífur. Ég hugsaði gjarnan um það hvernig hann færi að því að keyra þennan hliðarferil saman með Saint Etienne. En í dag er eins og þessir tveir „ferlar“ séu í meira jafnvægi, sem skýrir kannski tilurð bókarinnar.

Popp eða rokk?

En hvernig höfundur er Stanley og hver er nálgunin? Hann er poppari, ekki rokkari og hann hugsar í smáskífum frekar en plötum (öfugt við mig t.d., í báðum tilfellum). Hann er skemmtilegur stílisti, með þennan breska, kaldhæðna, popppennahúmor, með sagnfræðina á hreinu og það sem mestu skiptir; hreina, sannferðuga ástríðu fyrir efninu. Honum tekst að hrífa og rekur mann í það að snuðra um ýmislegt sem maður þekkti ekki áður.
Stanley er hins vegar misvel að sér um alla þessa ólíku anga poppsins og það er greinilegt hvar hjartað slær. Þegar kemur að kvennasöngsveitum fyrri tíma, Motown, diskói og sálartónlist kemur hann fyrir sem yfirburða fræðimaður og gæsahúðin sem hann hefur fengið í gegnum tíðina vegna þessarar tónlistar er tilfinnanleg. Og þar sem ég stend sæmilega utan við þessa geira, bæði hvað varðar þekkingu og áhuga(er hægt að aðskilja þetta tvennt?) get ég ekki einu sinni dæmt um hversu djúpt eða grunnt Stanley er að fara. En þegar kemur að pönki, þungarokki og nýbylgju fatast honum hins vegar flugið og ég – sem hef mikinn áhuga á þessu öllu – á auðvelt með að reka hann á gat. Hann er með grunnþekkinguna en ástríðuna vantar. Og þegar hann tiltekur „Start Choppin‘“ sem það besta sem Dinosaur Jr. hefur gert þá gat ég ekki annað en ranghvolft augunum. Einn af kostum bókarinnar er að það er eigi nauðsynlegt að lesa hana frá upphafi til enda. Það er gott að grípa niður í því sem þú hefur áhuga á hverju sinni og það tekur stuttan tíma að strauja í gegnum kaflanna, sem eru ca. 10 til 15 blaðsíður. Og svona misfellur, eins og í tilfelli Dinosaur Jr., eru líka nauðsynlegar til að halda okkur nördunum spenntum, bensín fyrir þennan yndislega þrasgrír sem heldur okkur gangandi. Meira popp, meira helv…

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: