bellowhead 2

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 21. júní, 2014

Fornfálegt… og framsækið?

 

• Bellowhead, merkasta þjóðlagasveit Englands í dag, fagnar tíu ára afmæli
• Fimmta plata hennar, Revival, kemur út hjá hinni gagnmerku útgáfu Island

 

Þjóðlagatónlist fær fólk venjulega til að hugsa um eitthvað gamalt, íhaldssamt, hefðbundið – óbreytanlegt. En ef betur er um skyggnst hefur slík tónlist alla tíð verið grunnurinn að tilraunum og framsækni um leið, hvort heldur um er að ræða Þursaflokkinn, vísanir dauðarokkssveitarinnar At the Gates í þjóðlagatónlist Svíþjóðar eða mölbrot það á reglum sem var stundað af Fairport Convention við öndverðan sjöunda áratuginn. Svona má lengi telja. Ný alda slíkrar starfsemi reið yfir Bretlandseyjar fyrir ekki svo löngu (ég reit pistil um þessi mál í janúar, 2013) og hefur hin fjölskipaða Bellowhead staðið þar í stafni lengi vel.

 

Hlaðið

 

Sveitin var stofnuð af félögunum John Spiers og Jon Boden árið 2004 og telur í dag ellefu meðlimi. Þeir höfðu starfað sem dúó og við leiguspilamennsku fram að því, m.a. fyrir Elizu Carthy. Bellowhead var sett í gang til að þeir gætu spriklað aðeins sköpunarlega en fljótlega fór hin ellefu hausa skepna að dansa sjálf af miklum krafti og henni var nákvæmlega ekkert heilagt. Undir þessu öllu er jú þjóðlagatónlist en ofan á er hlaðið strengjum, brassi, rokki, áslætti og því sem hendi er næst að því er virðist. Framreiðslan er þá stórkarlaleg; líkt og þú sért að horfa á epíska kvikmynd. Nýstárlegar blöndur eins og þessar gera hljómsveitir jafnan hornreka en í tilfelli Bellowhead er það þvert á móti. Sem tónleikasveit er hún t.a.m. ægivinsæl og fer vegur hennar vaxandi í þeim efnum. Þannig hefur hún fimm sinnum verið valin besta tónleikasveitin á þjóðlagatónlistarverðlaunum BBC. Fjórar breiðskífur hennar til þessa hafa líka allar sem ein verið hlaðnar lofi og gengu sum blöðin svo langt að líkja uppátækjasemi Bellowhed við tímamótatónlist Fairport Convention frá sjöunda áratugnum, þegar þjóðlagatónlistin var nútímavædd á hinni ótrúlegu Liege & Lief.

 

Tíska

 

Ég spjallaði stuttlega við Boden í fyrra vegna námsritgerðar og hann sagði mér að Bellowhead leitaðist við að finna nýjar nálganir á þjóðlagatónlist (eða „traditional music“ eins og hann kallaði það) en markmiðið sé ekki endilega að uppfæra hana eða gera hana nútímalega. „Ég óttast það alltaf að vera móðins því að þá ferðu um leið mjög fljótt úr tísku,“ sagði hann.
Kannski er hann að undirstrika þessa skoðun sína með nýjustu plötunni, sem kallast Revival, en þar er m.a. að finna ábreiðu á lagið „I Want To See The Bright Lights Tonight“ sem Richard og Linda Thompson gáfu út árið 1974. Óvenjulegt fyrir Bellowhead en kannski seint svalt. Eða hvað? Boden ræður auðvitað engu um það hvort hann „lendi“ í tísku eða ekki en hann vandar sig þó við að vinna með vísanir út og suður; breiðir yfir lag með sínum hætti sem var fyrir það fyrsta unnið af fólki sem tilheyrði fyrstu bylgju þjóðlagarokksins og Revival kemur einnig út á Island, sem fóstraði þjóðlagabyltingu Fairport Convention og félaga á sínum tíma. Úff, þetta er eiginlega of póstmódernískt svona í morgunsárið…en tékkið á þessu fyrir alla muni. Þetta er hörku stöff!

 

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: