TheClashLondonCallingalbumcover

Stundum er maður í ríkri tjáningarþörf.

Ég hef verið að hlusta mikið á London Calling með Clash að undanförnu. Þetta er nokkuð sem ég kalla “djúphlustun”. Er svo komið að ég get ekki hætt að hlusta á þessa plötu. Hún rúllar endalaust í eyrunum. Já, svo ég komi því frá strax, hún stendur algerlega undir orðsporinu. Þetta er frábær plata. Meistaraverk. Tímamótaverk.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég “hlusta” á þessa plötu. Sem mér finnst dálítið merkilegt. Ég var greinilega ekki tilbúinn fyrr en nú.Og ég skal segja ykkur ástæðuna. Á sínum tíma vildi ég nefnilega heyra pönk. Og það var í mínum huga hratt og hrátt. Og Clash var jú pönkhljómsveit? Mér áskotnaðist platan á forláta vínyl, falleg og flott, geðveikt umslag og allt rétt einhvern veginn. Og ég þekkti sögu plötunnar sæmilega, vissi að ég væri með eina merkustu plötu rokksögunnar í höndunum. Titillagið hafði ég heyrt í útvarpinu reglulega, það þótti mér magnað og aðeins Kinks sem hafa fangað anda London betur í lagi (“Waterloo Sunset”). Skuggalegt lag og mikilúðlegt, dramatískt og ég stoppa alltaf þegar ég heyri inngangstónanna. Þrælmagnað, eins og ég segi. En svo komu “Brand New Cadillac” og “Jimmy Jazz”. Hvað var þetta? Þetta er ekki pönk!? Ég gafst því alltaf upp, fannst þetta vera vörusvik. Vildi lög í anda “London Calling” lagsins eða hrátt pönk í anda “White Riot” og “Complete Control”.

En nú kemur semsagt uppfærsla tuttugu árum síðar. Strákurinn búinn að þroskast. Það er galdur í þessari plötu sem ég á erfitt með að koma í orð en ég ætla samt að reyna. Það er ástæða fyrir því að ég get ekki hætt að hlusta og ég var t.d. mun fljótari að strauja yfir fyrstu tvær plöturnar fyrir stuttu. Frumburðurinn er tilkomumikill en mönnum þó mislagðar hendur í lagasmíðadeildinni, slatti af hálfkláruðum lögum og uppfyllingarefni. Ferskleikinn og ástríðan sem leikur um allt keyrir þó yfir allar misfellur þar. Önnur platan, Give ‘Em Enough Rope, er með stóran, amerískan groddahljóm í gíturunum, lögin jafnari og betri heilt yfir en samt, hún nær ekki alveg landi.

London Calling er hins vegar eitthvað undur og alls ólík því sem á undan fór. Þróunin er slík að ekki er annað hægt en að tala um stökk að því leytinu til. Og já, þetta er ekki pönk lengur, þetta er rokk. En einstakt rokk sem er algerlega sveitarinnar. Stílaflöktið, sem fældi ungan sveininn frá á sínum tíma, er mikið og ótrúlegt hvernig sveitin tæklar mismunandi stefnur af nákvæmlega sama öryggi og ástríðu. Rokk og pönk er þarna en einnig reggí, rokkabillí, djass, ska og er þá ekki allt upptalið. “Brand New Cadillac” hagar sér eins og vignetta; stutt, meira eins og skets, kemur og fer og svo er það “Jimmy Jazz” sem er líka eins og smásaga, Strummer leikrænn í söng og sýnir mikil tilþrif. Og svo má telja, ég nefni þetta bara sem dæmi. Hljómur plötunnar er þá opinn, mjúkur og nálægt þér einhvern veginn, þú heyrir vel í öllum hljóðfærum. Þrátt fyrir ólíkindin í stílbrögðum er rauður þráður í gegnum alla plötuna, sem er bandið sjálft. Ungir, öruggir, áhugasamir og með blússandi sjálfstraust. “Það er ekkert sem við getum ekki gert,” er línan og í þessu tilfelli er það satt. Á London Calling gátu Clash allt.

Mér verður allt í einu hugsað til annarra platna sem eru heildstæðar þrátt fyrir ólíka stíla. Samnefnd plata Manassas og Check your Head með Beastie Boys koma upp í hugann.

Það þarf líklega ekki að taka það fram að það er ekki slæmt lag hérna, þótt þau telji nítján stykki. Eins og er, finnst mér þó “Guns of Brixton” bera af. Paul Simonon er svo yndislega óöruggur og til baka í söngnum eitthvað, en svo hrikalega sannur um leið – að það er hreinlega smitandi. Stórkostlegt lag. “Death or Glory” er alger gæsahúð og ég nefni líka “Spanish Bombs”, “Clampdown”, “Lover’s Rock” og “Train in Vain”, sem komst víst varla inn á plötuna.

London Calling er “cinematísk” (voðalega er “kvikmyndaleg” eitthvað stirðbusalegt) og ég nefni hér að lokum – innblásinn af fjölmenningarumræðunni heima – að platan hefði aldrei getað orðið til annars staðar en í London. Strummer og félagar vinna þannig glæsilega úr alls konar tónlist sem þrífst í þessari galopnu borg þar sem alls kyns menningarstraumar renna hver um annan þveran. Og allir græða.

Skelltu London Calling á fóninn. Það er aldrei of seint!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: