Bruce Dickinson

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 12. september, 2015

Að duga eða drepast

• Iron Maiden gefur út sextándu breiðskífuna, The Book of Souls
• Bruce Dickinson, söngvari sveitarinnar, barðist við krabbamein – og hafði betur

Söngvari, flugmaður, sagnfræðingur, skylmingakappi, útvarpsmaður, sjónvarpsmaður, rithöfundur, tungumálamaður og alveg örugglega eitthvað meira til. Bruce Dickinson, söngvari bresku þungarokkssveitarinnar Iron Maiden, er maður eigi einhamur og er oft teflt fram sem lifandi dæmi um hina svokölluðu fjölfræðinga („polymath“), stétt sem hefur átt undir högg að sækja á öld sérhæfingarinnar. Dickinson er fjölhæfur skolli, þrautseigur vinnuþjarkur sem tókst á við erfiðustu áskorun lífs síns fyrir stuttu – þegar krabbamein gróf um sig í tungu hans af öllum stöðum.

Fjölsnærðir

Þrátt fyrir fjölsnærða hæfileika Dickinson er tungan óneitanlega það sem hefur komið honum hvað lengst og fréttin því ískyggilegri en ella. Krabbameinið fannst í reglubundinni læknisheimsókn rétt fyrir jólin 2014 og fór Dickinson óðar í tæplega tveggja mánaða meðferð þar sem lyfjum og geislum var beitt. Hálfu ári síðar var tilkynning birt á opinberri síðu Iron Maiden og hafði meðferðin þá lukkast fullkomlega. Um leið var frá því sagt að nú myndi Dickinson taka sér hvíld og sveitin myndi ekki leggja í tónleikaferðalag fyrr en á næsta ári (það mun hefjast í febrúar). Dickinson hefði lítinn hug á að hefja störf fyrr en hann væri kominn bókstaflega á flug (sjá mynd). Þrátt fyrir þessar raunir allar var upptökum á nýrri plötu Iron Maiden, sem kallast The Book Of Souls, lokið er fréttin mikla barst og hún kom út nú fyrir stuttu.

Mikilúðlegt

Á síðustu árum hefur Maiden lagt sig þónokkuð eftir löngum, epískum lögum fremur en snörpum, grípandi og melódískum slögurum. Í raun má segja að hlutfallið hafi snúist við. Á fyrri plötum var kannski endað á einu löngu lagi en nú finnur maður að menn eiginlega neyðast til að semja eitt stutt lag til að hafa a.m.k. eitthvað fyrir útvarpið („stuttu lögin“ eru þó ca fimm mínútur) en svo er restin mikilúðlegir ópusar þar sem allt er undir. Á Book of Souls fara okkar menn með þetta út í æsar ystu, platan er níutíu mínútur og kemur út á tvöföldum geisladisk eður þrefaldri vínylplötu. Síðasta lagið, sem er eftir Dickinson, er lengsta lag Maiden frá upphafi, rúmar átján mínútur (og leikur hann sjálfur á píanó í innganginum!). Og það er til marks um fádæma vinsældir þessara glæstu stríðshrossa að allt upplagið af vínylnum sem barst til lands og elds og ísa seldist upp fyrir hádegi í Smekkleysubúðinni.

Dauðleiki

Platan var tekin upp í Frakklandi, í sama hljóðveri og hin prýðilega Brave New World (2000) var unnin en það var fyrsta hljóðversplata Maiden eftir að Dickinson hafði snúið aftur í hennar raðir. Upptökuferlið í þetta sinnið var losaralegt og mikið af tónlistinni var samið á staðnum en sveitin hefur venjulega eytt nokkrum vikum í að semja áður en haldið er í hljóðver. Steve Harris, hinn eiginlegi leiðtogi sveitarinnar, hefur þá iðulega átt eitthvað í flestum lögum en í þetta sinnið sömdu flestir jöfnum höndum þar sem Harris var frá í talsverðan tíma vegna dauðsfalla í fjölskyldunni. Pælingar um lífið og endanleika þess skjóta nokkuð reglulega upp kolli í textunum og Harris segir slíkt einfaldlega koma með aldrinum. Eftir því sem þeir eldist, sæki slíkar hugsanir fastar að. Það virðist þó eins og ansi margt þurfi að koma til eigi Járnfrúin að falla örend.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: