blonde redhead gamla bioLjósmynd/Arnar Eggert Thoroddsen

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 5. september, 2015

Draumflæði í tónum

 

Skúli Sverrisson Sería og Blonde Redhead í Gamla bíói. Miðvikudaginn 2. september, 2015. 

 

Nú er ég búinn að vera í mánuð á Íslandi upp á dag og hef heilsað manni og öðrum en aldrei eins og á miðvikudaginn. Vinir og félagar úr íslenska tónlistarbransanum – og víðar – fylltu Gamla bíó og vel það og þetta var líkara árshátíð. Tilefnið enda ærið, ekki á hverjum degi sem boðið er upp á stórfenglega tónlist sem kemur beinustu leið úr kjarnanum og það frá tveimur tónlistarhópum. Besta tveir fyrir einn tilboð sem ég hef gengið að lengi.

Svakalegur

Skúla Sverrisson þarf vart að kynna, ferill hans er orðinn allsvakalegur hvar hann hefur unnið náið með tónlistarmönnum, erlendum sem innlendum, sem koma jöfnum höndum úr hörðustu tilraunatónlist, framúrstefnudjassi eða rokki. Yfirreiðin er tilkomumikil en þetta kvöld einbeitti hann sér að Seríu-verkefni sínu sem er bæði tónlistarhópur og plötur en tvö lofuð verk hafa komið út á hans vegum. Með Skúla léku þau Arnljótur Sigurðsson, Guðmundur Vignir Karlsson (Kippi Kaninus), Kristín Anna Valtýsdóttir (Kria Brekkan), Ólafur Björn Ólafsson (ÓBÓ) og Ólöf Arnalds. Sérstakur gestur var Amadeo Pace úr Blonde Redhead en mikil vinátta er með Skúla og þeirri sveit og var hann meðlimur í henni á upphafsárum hennar (og græjaði hingaðkomu hennar einnig).
Það er einfaldast að lýsa tónlist Skúla sem fallegri því það er hún svo sannarlega. Það er eitthvað „hreint“ við hana, hvernig hún flæddi óheft og – mér er næst að segja auðmjúk – frá hópnum sem hana flutti. Ég lygndi aftur augunum og komst í „ástand“, sveif úr líkamanum og naut núvitundarinnar sem tónlistin undirstakk svo ég noti móðins hugtak. Algerlega stórkostlegt stöff. Íslands- og Skúlavinirnir Blonde Redhead voru næst á svið. Ég velti því upp í Víðsjárþætti á dögunum að einn af kostum Blonde Redhead væri ákveðin óvissa, stundum næðu þau háflugi en það kæmi fyrir að það næðist alls ekki, eitthvað sem einkennir sanna, viðkvæma listamenn (kenning í mótun: alvöru listamenn eru alltaf viðkvæmir). Í þetta sinnið var hið fyrra uppi á teningnum. Þau tóku við kefli Skúla og félaga og rúlluðu kvöldinu upp af þvílíku fádæma öryggi að annað eins hefur ekki sést né heyrst hér lengi vel. Tríóið komst í ham og allt hreinlega small. Eitt af því sem er unaður að fylgjast með hvað Blonde Redhead varðar er sviðsframkoman. Þau Amadeo og Kazu Makino, gítarleikarar og söngvarar, líða iðulega þokkafull um sviðið og láta vel hvort að öðru í návígi, nuddandi gíturum hvort annars saman. Það er eitthvað ertandi við þessa sjón, ég segi ekki meir. En, algerlega stórkostlegt stöff einnig. Salurinn var fullkomlega upptendraður í lokin.

Vegur og vandi

Það var Mengi, listhús, hópur, útgáfa og ábyggilega eitthvað fleira sem hafði veg og vanda af þessum lofsverðu tónleikum. Mengi er til húsa að Óðinsgötu og þar fer fram mikil og tíð starfsemi þar sem framsækin og jaðarbundin list er einatt í forgrunni. Ég hef verið að fylgjast með á hliðarlínunni undanfarin ár enda fluttist ég út um það leyti er Mengi var opnað og það er hreinlega styrkjandi þegar maður sér að það er hægt að keyra svona starfsemi svo vel sé. Regluleg, vikuleg dagskrá heldur listalífinu í æfingu ef við getum sagt sem svo og hefur jafnvel þjálfað upp og leiðsagt ungu og upprennandi listafólki um leið. Er þetta allt saman vel. Á þessum ávarpslegu, ráðherralegu, nótum lýk ég pistlinum. Góðar stundir.

 

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: