zzzzzzzzzzzzzzzzz

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. desember, 2014

„…mátti heyra saumnál detta“

• John Grant lék ásamt sinfóníuhljómsveit í Edinborg um liðna helgi
• Merkileg samsuða viðkvæmnislegra innilegheita og alltumlykjandi epíkur

John Grant stendur fremst á sviðinu í hinni glæsilegu tónleikahöll Usher Hall í Edinborg. Uppselt var á tónleikana og áhorfendur rísa úr sætum er hið glæsta „Glacier“ deyr út. Hann er umkringdur tugum liðsmanna úr Royal Northern Sinfonia og eigin sveit, sem telur nokkra Íslendinga (og einn Englending). John er búinn að vera að hella úr hjartanu, eins og hann á skap til, í röska tvo tíma og hann á salinn með húð og hári. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan við stóðum tveir á Hlemmi haustið 2011…

Ísland heillaði

…og var þá förinni heitið út í Hörpu þar sem John var að fara að hljóðprufa vegna tónleika á Iceland Airwaves. Ég hafði tekið við hann símaviðtal í aðdraganda hátíðar og svo vel fór á með okkur í því tuttugu mínútna símtali að við ákváðum þá og þar að hittast er hann kæmi til landsins. Höfum við haldið sambandi síðan.
Það er búið að vera mjög svo athyglisvert að sjá hvernig mál þróuðust hjá okkar manni frá og með þessari Airwaves-hátíð. Grant sló í gegn með tónleika sína á Airwaves og í þessa daga sem hann dvaldi hér kolféll hann fyrir landi og þjóð og var kominn með dágott tengslanet er hann hélt af landi brott. Ekki þótti honum því stætt á öðru en að snúa aftur og dvaldi hann á Íslandi í janúar og febrúar og sinnti tónsköpun. Það var þá sem hann tók ákvörðun um að flytja endanlega til Íslands og ekki nóg með það, næsta plata hans yrði tekin upp hér í samstarfi við Bigga Veiru (GusGus). Áformum um að taka hana upp með Midlake, eins og raunin hafði verið með fyrri plötu hans, Queen of Denmark, var slaufað. Platan, Pale Green Ghosts, kom svo út í mars 2013 og hefur hún aukið enn frekar á veg og virðingu þessa hæfileikaríka manns.

Andaktin rosaleg

Hann og íslensk sveit hans hafa síðan verið að fylgja plötunni eftir um veröld víða og lauk þeirri vegferð í London síðasta sunnudag en Edinborgartónleikarnir voru á laugardeginum. Eðlilega fylgdist maður stoltur með í salnum og íslenska hjartað sló aðeins fastar þegar landar mínir tóku sér stöðu á sviðinu, þeir Pétur Hallgrímsson (gítar), Kristinn Snær Agnarsson (trommur), Aron Þór Arnarsson (rafhljóð og slagverk) og Jakob Smári Magnússon (bassi). Og til að halda öllu til haga, Englendingurinn Chris Pemberton spilar auk þess mikilvæga rullu í sveitinni, leikur á píanó og hljómborð og bakraddar af stöku listfengi. Lagasmíðar Grants eru þess eðlis að þær falla mjög náttúrulega inn í þennan mikilúðlega ramma sem fylgir sinfóníusveitum. Allar þessar stingandi melódíur, innilegu og einlægu textar og djúpur baritónn flytjandans fóru upp í annað veldi. Skemmst frá að segja voru áhrifin ansi mögnuð og þegar andaktin var sem rosalegust mátti heyra saumnál detta.
Næsta plata ku koma út á næsta ári (og við fengum að heyra nokkur lög af henni ). Svo ég vitni í lagatitil eftir Grant, og nú snara ég honum lauslega, megi þessum „rosalegasta manndjöfli“ sem við eigum nokkurn tíma eftir að hitta farnast vel í því ati.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: