PerfumeGenius

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 29. nóvember, 2014

Að gefa af sér

• Perfume Genius heillaði áhorfendur í Edinborg
• Tilfinningaþrungnar rafballöður sem fara inn að beini

Áhrifin sem tónlist getur haft þegar hún er flutt á tónleikum getur verið rosaleg. Eitthvað sem hreyfði kannski lítt við þér af plötu eða í útvarpi, eitthvað sem týndist innan um allt hitt, verður allt í einu ljóslifandi og máttugt og togar í alla þína hjartastrengi. Þannig var upplifunin síðasta sunnudagskvöld hér í Edinborg er bandaríski tónlistarmaðurinn Perfume Genius tróð upp á tónleikastaðnum The Caves. Ég kannaðist við nafnið, hafði mögulega heyrt eitthvað (mig minnti að ég hefði rúllað einhverri plötu í gegn á Spotify einhvern tíma) en núna er þessi listamaðurinn innbrenndur í hausinn.

Stingandi

Áður en ég held inn í Hellinn verð ég samt að setja listamanninn í örlítið samhengi. Mike Hadreas er sá er stendur á bakvið nafnið, Seattle-búi sem gerir út frá New York. Hann er eitthvað yfir þrítugu þó hann líti út fyrir að vera rétt yfir tvítugt. Hadreas er samkynhneigður, eitthvað sem hann umfaðmar, undirstrikar og tekst á við með tónlistinni á einkar glæstan hátt. Samtímalistamenn eins og John Grant og Antony Hegarty koma upp í hugann í þessu samhengi, afstaða þeirra er áþekk en einnig er tónlist þeirra stingandi melódísk eins og í tilfelli Hadreas. Billy MacKenzie úr The Associates skýtur einnig upp kollinum þegar ég hugsa um Perfume Genius og einnig annar New York búi, Arthur Russell. Þeir tveir síðastnefndu bjuggu því miður við rætna fordóma í garð samkynhneigðra er þeir stunduðu sína list og ég velti stundum fyrir mér, hvað ef þeir hefðu verið uppi tuttugu árum síðar? Glíman við þessa fordóma stendur auðvitað yfir ennþá og hetjuleg framlög manna á borð við Hadreas þoka okkur sannarlega í rétta átt. Ef einhver óframfærinn sálarbróðir hans var í salnum, veltandi fyrir sér hvort hann ætti að gera eitthvað í tónlistardraumum sínum, var Perfume Genius sem lifandi innblástur.

Hvítkalkaður

Hann gekk inn á svið, hvítkalkaður í andliti og með eldrauðan varalit (og viðlíka naglalakk). Einstaklingurinn sem stóð þarna, fölur og feiminn, virtist ekki líklegur til stórræða. Hann starði út í salinn eins og hann væri að hugsa „ég vil ekki vera hérna“. En, eins og átti eftir að koma í ljós, hann getur ekki annað. Hann verður að gera þetta og rómantíska hugmyndin um listamanninn sem er dæmdur til að þjóna listinni átti svo fullkomlega við. Hann fór að syngja; innilega, hátt, reiðilega, angurvært, allur skalinn var þarna. Hann lék á hljómborð og naut fulltingis hljómsveitar; trymbill, hljómborðsleikari og bassa/gítarleikari sem rödduðu líka reglulega. Þétt band sem studdi við sinn mann á fallegan hátt, ég get ekki orðað það öðruvísi, og allt flæði var öruggt og umlykjandi. Þetta varð bara betra eftir því sem á leið, salurinn var með frá fyrsta tóni og á andríkustu augnablikum mátti heyra saumnál detta.
Þriðja hljóðsversplata Perfume Genius, Too Bright, kom út núna í haust og hún er frábær. Og allir fjölmiðlar og amma þín líka keppast við að hlaða hana lofi. En ef þið eigið færi, reynið að grípa drenginn á tónleikum. Ef hann veldur ykkur vonbrigðum skal ég kaupa mér hatt og éta hann!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: