mark kozelek

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 22. nóvember, 2014

Við kveikjum kertaljós

• Sun Kil Moon spilar í Fríkirkjunni næsta föstudag
• Mark Kozelek stendur á bak við sveitina

Ég man þegar ég pikkaði upp fyrstu Red House Painters-plötuna, Down Colourful Hill, á geisladiski fyrir 499 krónur á útsölu í Kringlunni. Þetta var einhverjum misserum eftir útgáfuna líkast til, 1993 ef ég man rétt, og ég hafði mikið verið að rekast á lofsamleg ummæli um sveitina, helst í Melody Maker. Í gegnum skrifin varð ég að giska á tónmálið enda heimurinn netlaus á þessum árum. Platan olli hins vegar alls engum vonbrigðum, mér fannst hún satt að segja rosaleg og sérstaklega var ég hrifinn af laginu „Medicine Bottle“, tæplega tíu mínútna stórvirki sem gerði mann orðlausan er hlustað var, slík var andaktin.

Harðsnúnir

Þetta voru fyrstu kynnin af hljóðheimi Marks Kozelek, en hann fór fyrir sveitinni. Tónlist þessa manns; hvort sem hún er flutt af Red House Painters, af honum sem sólólistamanni eða Sun Kil Moon, er mögnuð og í gegnum tíðina hefur hann dregið að sér hóp harðsnúinna aðdáenda sem tilbiðja við fótskör meistarans. Í upphafi ferils átti Kozelek hreint ótrúlega spretti með RHP, tónsmíðarnar mikilúðlegar og angistin á köflum merjandi. Yfirbragðið gotneskt mætti segja, epískt svo sannarlega en allur flutningur samt angurvær og „inn í sig“. Engilblíður viðkvæmnislegur baritónn Kozeleks sveif svo yfir framvindunni og áhrifin því gæsahúðarmyndandi eins og þið getið rétt ímyndað ykkur. Eftir að RHP lagðist af hleypti Kozelek gráglettni að, m.a. í vali sínu á tökulögum en hann hefur breitt yfir ótal lög eftir aðra, m.a. lög Genesis, Godflesh, Kiss og AC/DC og fer hann nokkuð ótroðnar slóðir í efnisvali svo ekki sé meira sagt.

Kjörgripur

Sun Kil Moon stofnaði hann svo 2002. Fyrsta platan, Ghosts of the Great Highway, kom út 2003 og var lofuð mjög enda mikið öndvegisverk. Næsta plata var svo dásamlegur vottur um sérlyndi Kozeleks en Tiny Cities (2005) innihélt eingöngu ábreiður yfir lög Modest Mouse. Fleiri plötur fylgdu og sú nýjasta, Benji, kom út á þessu ári. Hún hefur fengið gríðarlega góða dóma, mætti jafnvel segja að Kozelek hefði aldrei verið lofaður í jafnmikinn hástert. Kemur það m.a. til vegna textanna, sem eru afskaplega berorðir, líkt og Kozelek sé að létta á sér við sálfræðing eður trúnaðarvin. Óður hans til föður síns, sem kallast einfaldlega „I love my Dad“, fær tilfinningalega meðvituðustu nútímamenn til að roðna – jafnvel beygja af. Nýjasta útgáfa sólólistamannsins Kozeleks er hins vegar jólaplata. Mark Kozelek Sings Christmas Carols nefnist sá kjörgripur og ég get staðfest að hún hljómar nákvæmlega eins og maður bjóst við. Guðdómlega þ.e.
Ég hef ekki verið að minnast á kjánalegt stríð Marks Kozeleks við hina eðlu sveit The War on Drugs í þessum pistli, enda tæki það „gulpressufóður“ upp allt plássið. Þið getið flett því upp á lýðnetinu. Eða ekki. Vonum alltént að Ísland vermi Kozelek næsta föstudag og kannski – ef við erum heppin – hleður hann í eitt, tvö jólalög. Það væri eitthvað rétt við það.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: