Robert Wyatt Image

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 15. nóvember, 2014

Farinn, búinn, bless…

• Þjóðargersemin Robert Wyatt kveður tónlistarferilinn
• Gjörvuleg safnplata og mögnuð ævisaga komin út

Það er vel hægt að slá því fram að Robert Wyatt hafi verið einn af risum enskrar dægurtónlistar. Sífellt var hann leitandi (ég útskýri notkunina á þátíðinni eftir smástund), hvort heldur sem meðlimur í Soft Machine – einnar framsæknustu sveitar landsins við enda sjöunda áratugarins og í upphafi þess áttunda – eða í gegnum sólóefni sitt, sem ferðaðist gjarnan um ókunna stigu. Wyatt er þjóðargersemi í tónlistarlegu tilliti og í miklum hávegum hafður af jaðartónlistarmönnum af öllum kynslóðum. Listinn yfir samstarfsfólk í gegnum tíðina er enda tilkomumikill; Björk, Nick Mason, Brian Eno, John Cage, Elvis Costello, Phil Manzanera, Fred Frith, Scritti Politti, Ryuichi Sakamoto og svo má endalaust telja. Er því nema von að kveðið hafi við hátt harmakvein úr þessum ranni er Wyatt upplýsti nýverið að hann væri hættur í tónlist, 69 ára að aldri. „Ég og Alfie (kona hans) erum bara að reyna að komast í gegnum daginn,“ tilkynnti hann í nýjasta hefti Uncut. Hann bætti því þá við að pólitíkin, en Wyatt er gallharður sósíalisti, væri mun plássfrekari en tónlistin í dag, hún teikaði nú bara aftan í.

Erfitt líf

Þessar yfirlýsingar koma á sama tíma og ævisaga hans Different Every Time, rituð af Marcus O‘ Dair, lítur dagsins ljós og einnig er komin út safnplata með sama nafni sem inniheldur m.a. sjaldgæft efni og lög sem hann hefur unnið með öðrum listamönnum. Platan er hin gjörvulegasta, tvær tvöfaldar vínylplötur eða tvöfaldur geisladiskur, fyrra bindið nokkurs konar kynning á Wyatt og tónlist hans í gegnum tíðina, allt frá Soft Machine og fram að deginum í dag og svo er annað bindið sýnisrit um samstarfsverkefnin sem hann hefur átt í og margir þeirra sem ég taldi upp prýða það.
Ævisagan er mögnuð. Eins og segir í dómi Mojo (fimm stjörnur/fullt hús) hefur Wyatt yfirbragð hins stóíska, æðrulausa vitrings en það er ekkert í ævi hans sem hefur stuðlað að slíku og þetta yfirbragð blekkir. Skeggið er voldugt og brosið innilegt en á bakvið er yfirmáta viðkvæmur einstaklingur, svo viðkvæmur reyndar að kona hans lýsti því sem svo að það væri eins og það vantaði á hann ysta húðarlagið. Wyatt var alinn upp við kjöraðstæður í Suður-Englandi, afburða snjall piltur sem reyndi að fremja sjálfsmorð sextán ára vegna mölbrotins sjálfstrausts og lamandi fullkomnunaráráttu. Önnur tilraun átti eftir að fylgja og 28 ára gamall, árið 1973, féll hann blindfullur út um glugga á fjórðu hæð þar sem hann var staddur í gleðskap. Hann hefur verið bundinn við hjólastól allar götur síðan. Wyatt hefur barist við áfengissýki og þunglyndi allt sitt líf en síðast þegar ég vissi heldur hann hinu fyrrgreinda niðri. Wyatt hefur því einfaldlega komist af, mætti segja, en bókin er langt í frá einhver barlómur, þrátt fyrir hryssingslegu lýsingarnar hér að ofan.

Friður?

Maður vill eðlilega trúa því að nú hafi Wyatt loks fundið frið en það er samt ómögulegt að segja til um það, þó að vísbendingum um slíkt sé laumað inn. Maður finnur hins vegar að það er fyrst og síðast tónlistin sem hefur þrælað Wyatt áfram í gegnum myrkrið, glætt líf hans merkingu og gefið því tilgang. Þannig snýr þetta a.m.k. að okkur og hann veit þetta líka, þó hann reyni að spila þetta allt saman niður með þessari einstöku, alensku uppgerðarhógværð. Wyatt lifi … og leiki tónlist jafnvel líka?

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: