Kate-Tempest-GQ_09Sep14_pa_b_813x494

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 8. nóvember, 2014

„Orð“-viðrið

• Kate Tempest er orðlistamaður frekar en hljómlistarmaður
• Kynngi hennar á því sviði hefur vakið verðskuldaða athygli

Fyrirsögn mín þessa vikuna er stórkostleg tilraun til orðaleiks og vísa ég í sjálft Ofviðri Shakespears enda ber viðfang okkar sama eftirnafn og þetta síðari tíma þrekvirki stórskáldsins. Kate Tempest; rappari, tónlistarmaður, leikritaskáld og eitt umtalaðasta „ungskáld“ Breta í dag er reyndar með fleiri tengingar við William gamla. Fyrir utan að vera tungulipur með eindæmum, hæfileiki sem hún notar til að fjalla á ljóðrænan, stingandi og eftirminnilegan hátt um hið mannlega ástand (líkt og Shakespeare átti gott með) þá var hún ráðin af Konunglega Shakespeare félaginu til að flytja verk fyrir stafræna útrás þess og skilaði hún inn stuðandi verki þar sem hún jafnhattaði Kaupmanninn í Feneyjum. Áttu menningarrýnar hér á Bretlandseyjum ekki til orð yfir snilldina – frekar en annað sem hún hefur verið að dæla út.

London

Já, Tempest er sjóðandi heit, eða á ég kannski frekar að segja að það gusti um hana? Fleiri viðurkenningum hefur þá verið hlaðið á hana (t.a.m. hinum virtu Ted Hughes-verðlaunum sem hún fékk fyrir nýsköpun í ljóðlist) og hún var ein þeirra sem var tilnefnd til Mercury-verðlaunanna sem afhent voru í síðustu viku (og var það Edinborgartríóið Young Fathers sem hreppti hnossið í þetta sinnið). Margir veðjuðu á Tempest hins vegar en plata hennar, Everybody Down, hefur verið ein af þeim umtalaðri á árinu. Plötuna vann hún með Dan Carey (sem hefur m.a. unnið náið með Emilíönu Torrini) og þar fylgir hún þremur vinum í gegnum ömurðina og átökin sem stórborgin bíður gjarnan upp á. Tempest ólst upp í suðausturhluta London, ein af fimm systkinum, og listferilinn hóf hún með þátttöku í rapprimmum og opnum hljóðnema-kvöldum. Síðustu tvö ár eða svo hafa verið afar erilsöm og hún er með puttana/röddina í mörgum hlutum sem flæða þó hvor inn í annan á ólíka vegu. Fyrir tveimur árum frumsýndi hún ljóðaleikrit sitt Brand New Ancients, sama ár kom fyrsta ljóðabók hennar Everything Speaks in its Own Way út og fyrsta leikritið, Wasted, stuttu síðar. Orkan flæðir endalaust virðist vera því að ásamt því að gefa út téða plötu gaf hún og út bók, Hold Your Own. Þar er m.a. að finna ljóðið „Sigh“ með þessum snilldarlínum: „I saw the best minds of my generation destroyed by payment plans“. Ginsberg heitinn hlýtur að vera sáttur með svona lagað.

Í núinu

Næst á dagskrá er skáldsaga, byggð á plötunni, en þar munu ólíkar persónur úr upptöldum verkum hennar m.a. hittast. Þannig þræðir hún saman allar þessar ólíku listrænu nálganir sínar í eina heild. Tempest er eins „módernískur“ listamaður og þeir gerast, hún er að túlka og takast á við það sem er að gerast í kringum hana núna og raunsæishyggja litar verk hennar. Svo að tónlistarkvarðanum sé beitt á hana stígur hún inn í albreska hefð sem Mike Skinner, Billy Bragg, Paul Weller og jafnvel Poly Styrene tilheyra, talsmenn „okkar“ sem búa yfir þeirri náðargáfu að geta klætt samfélagið sem stuðar bæði og nærir í listrænan búning. Og það virðist ætla nauða hressilega um Tempest að því leytinu til næstu misserin.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: