[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 10. nóvember]

Hún er sírena sem seiðir…

• Hin ástralska Kylie Minogue fer fimum fingrum um lagabálk sinn í Abbey Road
• Umskipti urðu á ferli hennar eftir að hún háði baráttu við krabbamein
• Fagnar 25 ára popplistamannsafmæli

Það er eitthvað við Kylie Minogue sem hefur hana upp fyrir meðalmennskuna í poppheimum. Hún hefur það sem kallast „klassi“, einhvern blæ ósnertanleika og svalheita sem hefur verið að aukast með árunum. Hún hefur líka sýnt eftirtektarvert þolgæði og hæfileika í að laga sig að örum sveiflum þeim sem einkenna popplandið, ekki ósvipað því sem Madonna hefur mundað, þó að ástralska drottningin komist ekki nálægt þeirri amerísku í þeim fræðunum (og það gerir sosum enginn). Framan af ferli sýndi hún glæsilega fram á þetta, byrjaði í hreinu tyggjókúlupoppi, fór yfir í kynþokkafullt dívupopp, dýfði tánum í framhaldinu í einskonar gáfumannapopprokk (platan Kylie Minogue frá 1994), þaðan í dansvænt rafpopp. Og já, bara í það sem henta þótti hverju sinni. Dúett með Nick Cave? Ekki vandamálið…

Kvartöld fagnað

En þrautseigjan kom fyrst í ljós af einhverri alvöru þegar Minogue greindist með brjóstakrabbamein árið 2005. Baráttuandinn svall í henni og þó hún væri á miðju tónleikaferðalagi, Showgirl: The Greatest Hits Tour, hélt hún ótrauð áfram. Platan X kom út 2007 og 2010 var það Aphrodite en tónleikaferðalagið í kjölfar hennar var það farsælasta á ferli Minogue til þessa. Á þessum árum var eins og staða hennar sem ósnertanlegrar poppdívu ykist jafnt og þétt, alls kyns viðurkenningar og verðlaun og í heimalandinu, Ástralíu, er hún með stöðu nokkurs konar gyðju, Eivör Pálsdóttir þeirra Ástrala svo ég noti skemmtilega líkingu.
Þetta ár allt hefur svo farið í að fagna kvartaldarafmæli Minogue sem popplistamanns. K25 er það kallað og hófst það með nokkuð skringilegu útspili, Anti Tour, þar sem Minogue söng sjaldgæf og sjaldheyrð lög af ferli sínum fyrir ofuraðdáandann eins og það var kallað. Varð henni ekki skotaskuld úr því að trekkja tugþúsundir aðdáenda inn á þessa tónleika sem fengu góða dóma. Safnplata kom svo út í sumar saman með forláta smáskífuöskju, K25 Time Capsule.

Niðurstrípað

Og nú fyrir stuttu kom svo platan The Abbey Road Sessions út, þar sem hin ýmsu lög frá ferlinum eru sett í yfirhalningu, m.a. er stuðst við sinfóníuhljómsveit í nokkrum laganna. EMI, útgefandi Minogue, nýtti sér Parlophone-merkið fræga til að gefa út plötuna (sem gaf út Bítlana á sínum tíma), svona til að undirstrika tenginguna við þetta sögufræga hljóðver. Hugmyndin var að strípa niður lögin, leggja meiri áherslu á laglínur og söng. Dæmið gengur upp meira og minna og forvitnilegt að heyra hvernig rafpoppsslagarar eins og „Slow“ (sem Emilíana okkar Torrini átti þátt í) og risasmellurinn „Cant get you out of my head“ taka á sig allt annað form. Útsetjararnir fá feitt prik í kladdann, t.d. verður froðan „I should be so lucky“, lagið sem kom Minogue á kortið á sínum tíma, nær óþekkjanlegt; orðið að dramatískri og myrkri ballöðu. Gaman líka að heyra í landa hennar, Nick Cave, sem kíkir í heimsókn á „Where the Wild Roses Grow“, lag sem gerði mikið fyrir feril beggja aðila á sínum tíma.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: