[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 3. nóvember

Jafnvel skrítnari en Radiohead

• Alt-J hreppti Mercury-verðlaunin
• Framsækið, listrænt og temmilega tormelt, vísir að þróun næstu ára?

Mercuryverðlaunin bresku í dægurtónlist eða Barclaycard Mercury Prize eins og þau heita víst núna þykja mikið hnoss og gildisskapandi fyrir þá sem eru sæmdir þeim. Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi plötur, við getum jafnvel talað um „verk“ í þessu samhengi, fremur en eitthvað vinsælt og nafntogað. Upprunalegur tilgangur þeirra var semsagt sá að beina sjónum að listinni fremur en markaðnum og hafa sigurvegarar síðustu ára verið listamenn á borð við The xx, Elbow, Klaxons, Franz Ferdinand, Dizzee Rascal, Gomez og Portishead. Fyrsta platan sem var sæmd verðlaununum var Screamadelica eftir Primal Scream (árið 1992, útgefin 1991). Alla jafna fer ferill viðkomandi á flug vegna verðlaunanna en það er þó ekki algilt
En það var semsagt breska sveitin Alt-J (takkasamsetningin Alt og J er notuð til að framkalla gríska bókstafinn delta á Apple-tölvum). Verðlaunin fékk sveitin fyrir frumburð sinn, An Awesome Wave, sem kom út í maí á þessu ári. Sveitin var stofnuð fyrir fimm árum í háskólanum í Leeds og bakgrunnur meðlima er í lista- og háskólum, ekki ósvipað og í tilfelli Radiohead sem Alt-J hefur verið borin saman við. Meðlimir fara heldur ekkert í grafgötur með þennan bakgrunn, tala um stærðfræði og fara í heimspekilegar vangaveltur um eðli breytinga kinnroðalaust.

Tónlist er vel sýrð og ágeng, en hæfilega áhlýðileg um leið. Auk Radiohead kemur líka hin eðla sveit Wild Beasts upp í hugann. Sumpart er tónlist Alt-J nokkuð skýr birtingarmynd um tónlistarvinnslu á nýrri öld, meðlimir, aldir upp á hraða tæknialdar, demba alls kyns áhrifum í blönduna án þess að pæla mikið í því að því er virðist. Popp, rokk, döbb, þjóðlagatónlist, hipp-hopp, „ambient“, jaðarskotin raftónlist, teknó… allt er þetta þarna í einhverjum mæli.

Pælingar

Það hefur, einhverra hluta vegna, verið mikið „suð“ í kringum sveitina undanfarna mánuði. Erfitt er að tilgreina ástæður. Þreyta á skyndipoppi; þrá eftir proggaðri, úthugsaðri, nördískri og grafalvarlegri rokktónlist? Þegar ég skoða aðra tilnefnda fæ ég ekki þessa „þessi hefði átt að vinna!“-tilfinningu og listinn er dálítið slakur verður að segjast. Michael Kiwanuka og Ben Howard eru að leika sér með þrælöruggt og leiðinlegt „Blunt“-popp, Jessie Ware er ekki að gera sig og nýjasta plata hinnar annars frábæru Field Music er dálítil endurtekning á fyrri afrekum. Helst hefði ég verið sáttur ef Django Django hefðu tekið þetta, enda frá Edinborg! Að gríni slepptu er uppfært, sýrulegið trukk þeirra í gegnum sólstrandarpopp afskaplega vel útfært þó að áhrifin frá Beta Band séu vel greinanleg (yngri bróðir Johns MacLeans er í bandinu). Annað er eftir þessu þannig að Alt-J átti þetta skilið eins og hver annar.
Semsagt, útvarpstækin hérna á Bretlandi – og víðar – verða í herkví framsækins, nördalegs háskólarokkpopps næstu misseri. Bölvun – eða blessun?

 

MERCURY 2012: Tilnefnd verk

-Alt-J – An Awesome Wave

-Ben Howard – Every Kingdom

-Django Django – Django Django

-Field Music – Plumb

-Jessie Ware – Devotion

-Lianne La Havas – Is Your Love Big Enough?

-Michael Kiwanuka – Home Again

-Plan B – iLL Manors

-Richard Hawley – Standing at the Sky’s Edge

-Roller Trio – Roller Trio

-Sam Lee – Ground of its Own

-The Maccabees – Given to the Wild

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: