Kær vinur minn Jóhann Ágúst Jóhannsson var að ýta við mér hvað þessa tónleika varðar í 12 Tónum. Um að gera impra á þeim og ljúflinginum Ryan Karazija sem stendur á bakvið verkefnið. Hér koma upplýsingar um tónleikana og svo aðeins nánari umfjöllun um Karazija og list hans.

Föstudaginn 1. júní heldur Low Roar síðdegistónleika í verslun 12 Tóna við Skólavörðustíg.

Low Roar er hugarfóstur Ryan Karazija, en hann hefur verið búsettur á Íslandi um nokkurt skeið. Tónlist Ryans má lýsa sem lágstemmdu rafpoppi eða “fallegri og dulmagnaðri mynd af íslenskum vetri” eins og segir í fréttatilkynningu frá útgáfufyrirtækinu Tonequake Records, sem gaf út afbragðsplötu LowRoar í fyrra.

Tónleikarnir hefjast kl. 17.30 og eru allir velkomnir. 

Fyrsta plata Low Roar (samnefnd sveitinni) hófst sem
einstaklingsverkefni Ryan Karazija. Platan kom út þann 1. nóvember
2011 en Ryan hefur verið búsettur hér á landi í nær tvö ár og er
giftur íslenskri konu.

Plötuna tók Ryan upp að mestu heima í stofu síðastliðinn vetur í nýju
landi, í nýrri borg. Segja má að þessi fallega en ljúfsára plata
endurspegli að miklu leiti tilfinningar höfundar á þessum tímamótum
sínum hér í Reykjavík en það voru vissulega viðbrigði að flytja til
Íslands frá hinni sólríku Kaliforníu.

Tónlist Low Roar er lágstemmd, sveimandi og afar tilfinningarík. Ryan
býr yfir mjög fallegri rödd sem setur mikinn blæ á tónlistina sem
minnir stundum á Thom Yorke eða Rufus Wainwright svo eitthvað sé
nefnt. Ryan hefur leikið á fjölmörgum tónleikum í Reykjavík síðustu
mánuði auk þess að fara í stutta tónleikaferð um Kaliforníu en ýmsir
íslenskir tónlistarmenn hafa komið að verkefninu og spilað með Low
Roar af og til.

Low Roar hefur notið mikilla vinsælda á tónlistarsíðunni gogoyoko en
samnefnd plata sveitarinnar hefur verið með mest seldu plötum þar á bæ
síðan í byrjun desember og var valin á lista yfir 30 bestu plötur
ársins 2011 hjá gogoyoko. Þar að auki valdi breska tónlistartímaritið
NME Low Roar nýlega á lista sveita sem vert er að fylgjast með á
komandi ári.

Plata Low Roar hefur líka verið að fá mjög góða dóma hér heima en bæði
Trausti Júlíusson á Fréttablaðinu og Dr. Gunni sem skrifar um tónlist
í Fréttatímann hafa gefið plötunni 4 stjörnur af 5.

Um útgáfu plötunnar hér á Íslandi sér Low Roar en Tonequake gefur út
í hinum stóra heimi. Tonequake er í eigu Andrew Scheps sem hefur unnið
við hljóðblöndun og tónjöfnun fyrir fjölmarga listamenn á borð við
Metallica, U2, Red Hot Chili Peppers, Weezer, Green Day og fleiri.
Scheps hefur einnig unnið með Rick Rubin, Johnny Cash, Neil Diamond og
Iggy Pop við plötur þeirra. Andrew lítur á Tonequake Records sem
heimili fyrir næstu kynslóð af framúrskarandi tónlistarfólki en hann
sá einnig um að hljóðblanda Low Roar.


 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: