2018-03-25 01.12.38.jpg
Músíktilraunir 2018

Eftir sex ára hlé frá dómnefndarstörfum í Músíktilraunum sat ég yfir þessum. Það er nú einu sinni svo, að þegar maður hverfur frá hlutum í einhvern tíma, kemur maður iðulega til baka ferskur og með skýrari fókus. Maður sér betur breytingar sem orðið hafa og samhengið er augljósara. Ég geng frá þessari keppni, enn sannfærður um að þessi keppni er einn sá allra mikilvægasti vaxtarbroddur sem íslensk tónlistarmenning býr yfir.

 
Músíktilraunir hafa ávallt endurspeglað það sem er í gangi hjá ungmennum sem eru að byrja að fást við eigin tónlistarsköpun og þær fylgja eðlilega tískustraumum. Í gegnum tíðina hefur gleðipopp, dauðarokk og drum’n’bass m.a. tröllriðið Tilraununum. Athyglisverðast fannst mér að þungarokk var víðs fjarri í ár, en keppnin hefur lengi vel verið mikið skjól fyrir þá stefnu.
 
Ég fékk þá í fyrsta sinn að sjá og heyra að stúlkur eru farnar að taka þátt í ríkari mæli og það gleður mig ósegjanlega. Virkar, beinar aðgerðir, ætlaðar þeim til hvatningar (Stelpur rokka t.d.) virðast vera að skila sér og færir heim sanninn um það að það er ekki hægt að hugsa sig út úr þeim halla sem hefur verið í garð kvenna í keppninni nærfellt allan þann tíma sem hún hefur verið haldin. Tímarnir eru að breytast, og það til hins betra.
 
Hljómsveitin Ljósfari hafnaði í þriðja sæti og var vel að verðlaunasæti komin. Fölskvalaust danspopp sem minnti þess vegna á gleðipoppsbylgjuna á níunda áratugnum. Greifarnir, Stuðkompaníið og fleira. Vel spilandi og þétt band og söngvarinn sjarmör. Þetta tengist líka inn í hálfgildings senu sveita í dag (Kiriyama Family, Boogie Trouble) sem gera út á vel spilaða stuðtónlist. Fleiri sveitir af svipuðum meiði tóku þátt í Tilraununum í ár.
 
Mókrókar höfnuðu þá í öðru sæti og voru sömuleiðis vel að því komnir. Frábærlega spilandi band, trommuleikarinn í sérflokki og gítarleikarinn sömuleiðis. Allir meðlimir með einkar gott vald á því sem þeir voru að gera.
 
Sigursveitin, Ateria, var þá framúrskarandi. Kornungar stúlkur með tónlist sem hljómaði eins og Faith með Cure, filteruð í gegnum þjóðlagastemmur Þursa. Kryddað smekklega með unglingasalti. Lögin voru drungaleg, einföld og hæg en héldu athygli allan tímann. Alveg séríslensk „Hættu að gráta Hringaná“ stemning yfir. Stúlkurnar léku á ýmis hljóðfæri og sýndu metnað, dug og þor, voru skapandi og prófuðu sig óhikað áfram. Annað lagið gekk ekki sem skyldi og þær sýndu mikinn karakter þegar þær stöðvuðu það og byrjuðu aftur – eins og ekkert væri. Þetta kallast að vera með bein í nefinu. Maður fann það að þessi sveit á aðeins eftir að vaxa. Efniviðurinn er þarna.
 
Persónulega verð ég líka að nefna Umbru, en þær stöllur stóðu sig eins og hetjur. Nútímatónlist í ætt við Báru Gísla og Hafdísi Bjarna. Tilraunakennt, frjótt, einlægt og heiðarlegt. Hrein unun að fylgjast með þeim.
 
Úrslitakvöldið var þá einstaklega fjölbreytt, í bland við þetta mátti heyra rapp, hreinræktað flipp og nokkurs konar gúanóvalsa.
 
Músíktilraunir lengi lifi. Þarna er verið að vinna starf sem er með öllu ómetanlegt.
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: