Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 24. mars, 2018

Eldsálin Kristian Blak

Kristian Blak er forsvarsmaður færeysku plötuútgáfunnar Tutl og algert gúrú hvað viðkemur tónlistarlífi í eyjunum. Höfundur sótti hann heim fyrir stuttu.

Fyrir viku skrifaði ég pistil um ferð mína á Færeysku tónlistarverðlaunahátíðina. Helgardvölin varð hin besta og mikið af ánægjulegum uppákomum. Kristian Blak, mikilhæfasti tónlistar-aðgerðasinni eyjanna, var eins og grár köttur í kringum okkur gestina og var það vel! Sótti okkur m.a. á flugvöllinn og keyrði okkur þaðan til Þórshafnar. Ég sat fram í með meistaranum og eðli málsins samkvæmt skröfuðum við um færeyskt tónlistarlíf og starf hans þar. Blak er ekkert minna en ótrúlegur maður, „eldsál“ fyrir allan peninginn (orð sem Færeyingar nota yfir innblásið og starfsamt fólk) og rekur hann útgáfu sína Tutl af mikilli festu, með hárnákvæman fókus á hvað beri að gera til að hámarka sýnileika og dreifingu (tutl er orð yfir öldugjálfur). Merkilegast er þó, og að því komst ég með því að tala við menn honum tengda, að hann er ekki með höfuðið í skýjunum eða í óraunhæfum dagdraumum. Áratugalangt og ósérhlífið starf hans skilar nefnilega áþreifanlegum árangri. Hann stendur t.d. að tveimur tónlistarhátíðum (Summartónar og Winter Jazz) sem fara fram um allar eyjarnar og er nokkurs konar eins manns her þar eins og einhver nefndi.

Tutl er þó ekki hefðbundið útgáfufyrirtæki, frekar mætti kalla það útgáfusamlag. Blak stendur í fjárútlátum saman með tónlistarmönnum en í 21 árs gömlu viðtali við Árna Matthíasson í blaði þessu sagði hann m.a., og er það merkilegt miðað við hvernig mál hafa þróast síðan þá: „Enginn lifir af því að leika á hljóðfæri. Það eru starfandi fjölmargir tónlistarkennarar, en enginn hljóðfæraleikari, þeir fá ekki nóg að gera heima fyrir og allir þeir bestu setjast að í útlöndum þar sem nóg er við að vera. Það gefur augaleið hvað það skipti miklu máli fyrir færeyskt listalíf ef þar byggju starfandi tónlistarmenn, sem gætu eins ferðast um heiminn til tónleikahalds, en myndu auðga listalíf ómælt með búsetu sinni heima.“

Hér hefur Blak náð að spá vel fyrir framtíðinni eða öllu heldur hefur ósk hans ræst. Færeyjar búa í dag yfir mörgum öflugum tónlistarmönnum sem einmitt gera út frá eyjunum, ferðast um allan heim, en eiga höfuðvígi þar og auðga eyjarnar svo sannarlega. Eivör Pálsdóttir er vitaskuld besta dæmið þar um. Starfandi tónlistarmönnum í eyjunum hefur m.ö.o. fjölgað en þróun tónlistarlífs í eyjunum síðustu tvo áratugi hefur verið með makalausum hætti.

Ég og Blak ræddum m.a. um dreifingu á efni Tutl og ég hef aldrei heyrt mann tala jafn vel um Spotify og viðlíka streymisveitur. Að sjálfsögðu heldur hann firnavel um reiðtygin þar og sagði hann mér að tekjur Tutl hefðu margfaldast eftir að hann keyrði vörur útgáfunnar inn á veiturnar. Hann væri í sambandi við dreifiaðila víða um heim sem þjónustuðu hann hvað stafræna þáttinn varðaði. Þetta sagði hann mér, mildur í fasi, en utangátta prófessors-áran sem leikur um hann er vel blekkjandi.

Blak otaði svo að mér nokkrum plötum þegar ég heimsótti hann í Tutl plötubúðina en vínylútgáfa hefur nú aukist hjá honum eins og öðrum. Hann benti mér á nokkrar pappapakkningar utan um nýjustu plötu Hamferðar, sem voru víst á leiðinni út í heim. Svei mér þá, hann hefur ábyggilega pakkað þeim inn sjálfur.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: