Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 14. apríl, 2018

Algjör Götustrákur

Sólarn Sólmunde hefur lengi verið ein helsta eldsál Færeyja hvað viðkemur viðhaldi og framþróun tónlistarmenningar í eyjunum.

Í vel heppnaðri ferð til Færeyja á dögunum, þar sem ég fylgdist m.a. með afhendingu færeysku tónlistarverðlaunanna, náði ég og að hitta mann og annan og glæða þann áhuga og þá innsýn sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina hvað færeyskt tónlistarlíf varðar. Einn af þeim sem ég hef haldið stöðugu sambandi við undanfarin fimmtán ár heitir Sólarn Sólmunde, borinn og barnfæddur í 1.000 manna þorpinu Götu, hvar G! tónlistarhátíðin fer fram og bærinn er aukinheldur heimabær Eivarar Pálsdóttur.

Það var um og upp úr aldamótunum síðustu að Færeyjar gengu í gegnum minniháttar tónlistarbyltingu og var Gata í brennidepli þeirra breytinga. Ekki hvað síst fyrir tilstilli hljómsveitarinnar Clickhaze sem hafði á að skipa áðurnefndri Eivöru m.a. en sú sveit var boðberi nýrra hugmynda hvað þróun og þroska færeyskrar tónlistar áhrærði. Í Götu var og að finna tónlistarsamtökin Grjót eða „Tónleikasamtakið Grót“ en til þeirra hafði verið stofnað árið 1998 í þeim tilgangi að ýta undir og styðja við færeyskt tónlistarlíf. Gata var eins og Keflavík sjöunda áratugarins, mikil virkni og mikið af sveitum sem þar störfuðu og tónleikar voru haldnir reglulega í Losjunni, samkomuhúsi í þorpinu.

Grót er enn starfandi og er Sólarn þar formaður, sá eini af upprunalegu stofnendunum. Á Fésbókarsíðu samtakanna segir að tilgangurinn með þeim sé þríþættur, að 1) styðja við tónlistarlegt nærumhverfi, 2) að hvetja fólk til að sinna tónlist með einhverjum hætti og 3) að búa til vettvang þar sem þetta fólk getur hist og iðkað sína list.

Losjan er ekki nýtt undir þetta lengur en hins vegar er búið að opna nýjan stað, Töting, og tók Sólarn mig í kynnisferð um staðinn og sagði mér frá starfseminni. Sólarn sinnir Grót einvörðungu sem áhugamáli í dag og segist ekki hafa minnsta áhuga á að fjármagnstengja sína aðkomu að starfinu, það myndi spilla tilganginum. Sólarn er niðri á jörðinni með þetta allt saman, á heilnæman hátt. Hann er nú fjölskyldumaður og segir að viðburðir séu kannski einu sinni til tvisvar í mánuði, enda hafi hann hreinlega ekki tíma í meira. Með honum í þessu eru kátir kappar og meyjar og Töting hinn vænlegasti staður. Búið er að innrétta þessa gömlu ullarverksmiðju með huggulegum sófasettum og stólum, fyrirtaks hljóðkerfi og sviði auk þess sem hægt er að hafa þar veitingasölu. Staðurinn er furðu stór reyndar og hæglega hægt að koma þar 300-400 manns fyrir. Hljómsveitir hafa þá líka aðgang að staðnum og geta æft þar. Sólarn var sæll og sáttur þegar hann sagði mér frá þessu öllu, hann og vinir hans voru á þeim buxunum að sigra heiminn fyrir fimmtán árum, eins og maður gerir á yngri árum, en í dag er það reynslan sem talar í bland við praktíkina. Eldurinn brennur hins vegar jafn glatt og fyrr, tónlistin á hjarta Sólarns nú sem áður og Götubúar og Færeyjar allar græða á slíkum hugsjónamönnum.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: