Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 7. apríl, 2018

 

Argandi, gargandi ástríða

 

Nýjasta plata Dauðyflanna er Ofbeldi, sem kom út á forláta vínyl, en sveitin heldur uppi merki grasrótarpönks á Íslandi með glæsilegum hætti.

Það eru þau Alexandra Ingvarsdóttir (söngur), Fannar Örn Karlsson (trommur), Herdís Ingibjörg Auðar Svansdóttir (bassi) og Júlíana Kristín Jóhannsdóttir (gítar) sem skipa Dauðyflin. Allir þessir aðilar hafa verið áberandi í íslensku grasrótarpönki um langa hríð í gegnum hin og þessi verkefni og Dauðyflin hafa gert sérstaklega vel að undanförnu, m.a. í útgáfustarfseminni eins og verður tíundað hér.

Útgáfuferill Dauðyfla byrjaði með fimm laga prufuplötu eða „demo-i“ sem kom út í janúar 2016 og seinna á því ári kom út formleg plata, Drepa drepa, bæði sem sjötomma og streymi. Þýska útgáfan Erste Theke Tonträger gaf vínylinn út. Tónlistin er hörð, miskunnarlaus en um leið andrík og ástríðufull og lagatitlar eins og „Drukknið í skít“, „Rusl“, „Drepum allt“ og „Túrblettir“ segja sitt. Almenn andstaða við kerfið nema hvað en meira munar kannski um glúrna og kröftuga, feminíska texta sem setja kvenpólitísk málefni samtímans undir smásjá.

Á síðasta ári kom  út ellefu laga breiðskífa, Ofbeldi, sem streymi (Bandcamp) og í vínylútgáfu en það er hin virta Iron Lung Records sem gefur út. Það var þá hinn mikilvirki Will Killingsworth hjá Dead Air Studios sem sá um að hljómjafna. Dauðyflin halda uppteknum hætti á Ofbeldi, keyrslan er grimm og berstrípuð og lagatitlar, nú sem áður, mikil snilld („Óvinir“, „Meðvirkni“, „Útlendingastofnun“, „Ljótir kommúnistar“ og „Níðstöng“ m.a.).

Og fleira er hægt að telja fram í útgáfuvirkninni. Síðasta sumar kom út deili-snælda sem sveitin gerði ásamt Xylitol en sveitirnar fóru saman í heljarinnar Ameríkureisu. Þá er væntanlega sjötomma á Iron Lung í enda þessa mánaðar. Lögin eru sex og má streyma einu þeirra, „Skófla skófla“, í gegnum Bandcamp-síðu Iron Lung. Upplagsfjöldi er 500, 350 svartar plötur og 150 í marmaragrænu og ég veit að þetta eru mjög mikilvægar upplýsingar fyrir okkur vínylsafnarana! Umslagið er vandað og vel umbúið og sem fyrr sá Will Killingsworth um hljómjöfnunina.

Maximum RocknRoll, þekktasta og virtasta neðanjarðarrokkblað heims, skrifaði um Drepa drepa á sínum tíma og hafði þetta að segja: „Lögin eru merkilega grípandi en um leið sérstök… stórkostlegt stöff hvernig sem á það er litið!“ Því ber þá að fagna að sveitin hafi náð að opna þennan glugga út, gefandi út hjá merki sem er í Seattle, starfandi með hljóðmeistara í vesturhluta Massachussets og farandi í tónleikaferðalög um Ameríku og Evrópu. Tengslanet sveitarinnar hefur auk þess auðgað senuna hér heima og virknin er mikil, þrátt fyrir að hún sé almenningi hulin. Þetta er enda ekki kallað neðanjarðartónlist fyrir ekki neitt.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: