Pet Shop Boys - band

 

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 13. júlí, 2013]

Eitthvað svo enskir

• Electric er tólfta hljóðversplata rafpoppdúettsins Pet Shop Boys
• Skipt um útgáfufyrirtæki en ekki gæðastaðal

Þó að það hafi svo sem ekki þurft að undirstrika það sérstaklega þá var Pet Shop Boys endanlega viðurkennd sem bresk/ensk stofnun er sveitin (eða dúettinn öllu heldur) kom fram á lokaathöfn Ólympíuleikana í London í fyrrasumar. Maður finnur fyrir því hversu djúpt hann hefur náð að sökkva sér í enska þjóðarsál þegar maður talar við þarlenda úti á götu eða flettir í greinaskrifum um hann. Þeir félagar, Neil Tennant og Chris Lowe, eru á svipuðum stalli og Ray Davies, þykja öðrum fremur ná að hitta á sérenska háttu, hvort heldur í textagerð, tónlist eða ímynd sem nær á einhvern undurfurðulegan hátt að sameina sérvitringslegan fíflagang að hætti Monty Python og fágun hins enska aðalsmanns. Pet Shop Boys stendur í raun réttri fyrir gáfumannapopp án grafalvarlegheitanna – tónlistin er ægigrípandi en maður finnur fyrir því að á bak við alvarlega grímuna (og þá sérstaklega hjá Lowe) er að finna glott þess sem veit upp á hár hvað það er sem hann vill ná fram.

Naumhyggja

Tilefni þessara skrifa er tólfta hljóðversplata Pet Shop Boys sem kallast hinu einfalda og vel lýsandi nafni Electric. Umslagið er snilld – eins og venjulega – en módernisminn og naumhyggjan sem hefur einkennt þann þátt sveitarinnar frá upphafi vega er góður vitnisburður um listræna vigt sveitarinnar. Í raun finnst manni dálítið einkennilegt að þessi sveit hafi náð svona mikilli almannahylli, þegar öll þessi skringilegheit eru tekin með í reikninginn. En það er líklega eitthvað sérenskt. Hvernig væri annars hægt að útskýra almennar vinsældir manna eins og Monty Python? Ef þeir hefðu gert út á grínmiðin í einhverju öðru landi en Englandi er hætta á að gysið hefði fallið flatt.
Þó að platan komi ekki út fyrr en eftir helgi eru flestir miðlar enskir búnir að fella sinn dóm og flestir eru þeir einkar jákvæðir. Fyrir tæpu ári kom nefnilega ellefta plata dúettsins, Elysium, út og þar mátti greina þreytumerki, líkt og Tennant og Lowe væru í nokkurs konar sjálfvirkum gír, jafnvel kærulausir. Electric þykir hins vegar bera með sér nýjan kraft og ferskleika, menn auðheyrilega vaknaðir og búnir að teygja rækilega úr sér.

Eigin slóð

Kannski er ein ástæðan sú að nú gefur Pet Shop Boys út sjálf en allar plötur fram að þessu hafa komið út undir merkjum Parlophone. Útgáfa sveitarinnar kallast x2 og það er Kobalt Label Services sem dreifir. Með þessu er Pet Shop Boys að stíga inn á slóð sem margir vinsælustu tónlistarmenn heims í dag eru farnir að feta, að taka málin í eigin hendur og stýra eigin útgáfum og starfsemi.
Það er eitthvað sérkennilegt við það að tveir menn á sextugsaldri séu að pumpa út dansvænu teknópoppi eins og enginn sé morgundagurinn – og það með giska góðum árangri. Gagnrýnandi Telegraph, Neil McCormick, orðar þetta vel þegar hann segir að sveitin hafi alltaf meðhöndlað „ruslpopp“ sem sanna list og að í textum sínum gangi Tennant línudans á milli meðvitaðrar kaldhæðni og djúprar einlægni. Ég held að þessi tvískinnungur ef svo mætti kalla, þessi meðvitund um eigið ágæti – og takmarkanir um leið – séu að mörgu leyti lykillinn að farsæld sveitarinnar. Svo ég vitni í popplagið og taki mér um leið skáldaleyfi: „Sjarmi, elegans, stiginn kaldhæðinn dans… “

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: