majical_cloudz1

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 20. júlí, 2013]

Fegurðin er ljúfsár (í dag)

 

• Margar nýlegar plötur veltast um í fagurgrónum drunga
• Majical Cloudz, The Haxan Cloak og Anna Von Hausswolff á meðal helstu nafna
• Er einhver skýring á þessu „athæfi“?
Ég fór að velta þessum „drunga-kerum“ fyrir mér þegar ég hlýddi á magnaða plötu dúettsins Majical Cloudz, Impersonator, fyrir stuttu.
Þar má heyra tilfinningaþrunginn söng Devon Welsh yfir nöktum, naumhyggjulegum og já, drungalegum raftónum. Takturinn streymir letilega undir og yfir öllu er tilfinnanleg reisn; textar Welsh (sem stýrði Majical Cloudz upp á eigin spýtur í upphafi) eru einlægir og hreinskiptnir og útkoman því, eins og lesendur hafa kannski getið sér til, melankólísk mjög en þó meira ljúfsár. „Þægileg og sár í senn“ eins og segir í orðabók. Listamenn eins og Antony and the Johnsons og James Blake (fyrsta breiðskífan hans) koma upp í hugann þegar á er hlýtt, en einnig lágstemmdari lög Talk Talk og Mark Hollis og jafnvel verk eins og Faith með The Cure, þessi nístingsköldu en ægifögru lög eins og „All Cats are Grey“ svo dæmi sé tekið.

Jarðarfararlegt

En ástæðan fyrir því að ég fór að velta þessum þætti í tónlist Majical Cloudz fyrir mér, þessum „ný-gotnesku“ blæbrigðum ef svo mætti kalla er að það er eins og eitthvert melankólískt „æði“ sé í gangi, ungir tónlistarmenn séu fremur að leita í svartagallsraus en sveitt fjör og græskulaust gaman. Ef við horfum bara til raftónlistargeirans, andlegra systkina Majical Cloudz í dag má t.d. nefna The Haxan Cloak, sem gaf út hina jarðarfararlegu Excavation í apríl síðastliðnum og Jon Hopkins (sem hefur unnið með þungavigtarmönnum eins og Coldplay og Brian Eno) sem gaf út hina oft og tíðum innhverfu Immunity á dögunum.
Rótina að þessu öllu má þá hugsanlega rekja til döbb-step listamannsins Burial sem gaf út lofaða, samnefnda plötu árið 2006 þar sem melankólískt, drungalegt flæði batt alla framvindu saman. Áðurnefndur James Blake fór þá með þennan hljóm upp á yfirborðið með samnefndri plötu árið 2011. Þessi myrka dula liggur þá ekki bara yfir raftónlistinni, ég nefni t.a.m. ótrúlega plötu hinnar sænsku Önnu Von Hausswolff í þessu samhengi, Ceremony, sem út kom í fyrra. Hausswolff kemur úr söngvaskáldaranni en Ceremony lætur Closer Joy Division hljóma eins og „Deeply Dippy“ með Right Said Fred.

Samtímasálmar

Það er erfitt að negla niður eitthvert orsakasamhengi hvað þessar hræringar varðar. Þó að raftónlistarmennirnir viti eflaust hver af öðrum er hæpið að Hausswolff hafi samið Ceremony með Burial í huga þó það sé auðvitað aldrei að vita. Það er því ekki hægt að tala um senu (a.m.k. hafa blöðin ekki enn búið hana til) en ég velti samt fyrir mér af hverju plötur í þessum anda virðast æ tíðari í umfjöllunum erlendra miðla og nánast án undantekninga fá þær lofsamlega dóma. Er þetta bara tíðarandinn, allt að fara til helvítis og fólk á aldursbilinu tuttugu til þrjátíu finnur sig hreinlega knúið til að semja samtímasálma um alltumlykjandi firringuna og vonina sem er þó þarna einhvers staðar líka? Ég hvet ykkur alltént til að tékka á þessu efni og fullnýta „similar artists“ þjónustu þeirra vefsíðna sem upp á slíkt bjóða. Það er nefnilega merkilegt hvað þetta sorglega, ljóta getur verið fallegt og upplífgandi ef vel er skáldað með það.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: