Eining Félagarnir í ADHD spila sem einn maður á plötunni nýju sem er sú áttunda með hljómsveitinni.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 15. október, 2022.

Ferð án enda

Ný plata ADHD er þeirra áttunda en þar halda virtúósarnir fjórir sem bandið skipa áfram ferðalagi sínu um óma og hljóma. Grjótharðir sem endranær en silkimjúkir um leið.

Ég held, nei ég veit að ég hef aldrei „dæmt“ plötu eftir ADHD. Af hverju? Jú, þetta er djass, og þar er ég enginn sérfræðingur. Eiginlega alls ekki. En á litlu landi þar sem það þarf einfaldlega að halda hjólunum gangandi og afgreiða hluti út af borðinu hefur glettilega mikið af slíku efni lent í kjöltu minni og hefur reyndar gert alla tíð. Og það hefur heldur aukist á seinustu mánuðum, einhverra hluta vegna (leiðrétt: Ég skrifaði dóm/grein um ADHD6 !). Vernharður Linnet, sá mikli djassmágus, reit um fyrri plötur ADHD og ég sé í uppflettingu að hann dæmdi fyrstu plötuna á meðan ég sá um viðtalið. Þetta er táknrænt fyrir sveitina því að hún stendur eiginlega traustum fótum í tveimur heimum; kunna djassinn upp á tíu en vaða um leið óhræddir út í eitthvað sem þeir vita ekki almennilega hvað er. Blessunarlega.

Hljómsveitin var þá skipuð Magnúsi Trygvasyni Elíassen, bræðrunum Ómari og Óskari Guðjónssyni og Davíð Þór Jónssyni. Tómas Jónsson leysti Davíð síðar af. Allir þessir hljóðfæraleikarar tóku þátt í að færa inn nýja hugsun í íslenskan djass um og upp úr 2000, í gegnum hljóðrit og tónleika sem færðu til mörk, stundum á gáskafullan hátt, stundum af spennuþrunginni alvöru hins leitandi listamanns (utan Tómas náttúrulega sem var ekki orðinn tíu ára þá). Samþætting, blöndun og uppstokkun var dagskipunin. Allt mátti, út með reglubókina!

Fyrsta plata ADHD kom út fyrir þrettán árum, 2009, en sveitin var stofnuð í kringum Blúshátíð á Höfn í Hornafirði tveimur árum fyrr. Fyrir þessa nýjustu afurð sína heimsóttu þeir félagar þann ágæta bæ á nýjan leik, plöntuðu sér inni í Hafnarkirkju í ágúst 2020 og með í för var Ívar Ragnarsson, upptökustjóri og hljóðblandari. Útgáfutónleikar vegna plötunnar voru á Húrra liðinn fimmtudag og efalaust fleiri hljómleikar í kjölfarið, hér heima og erlendis, en ADHD er vel þokkuð sveit – eðlilega – og hefur spilað um velli víða allt síðan hún var stofnuð.

En hvernig er platan svo? Kannski best að nefna það strax að þessi hljómsveit er í algerum sérflokki, hver og einn spilari algert úrvalsefni og útkoman eftir því. Þétt en algerlega áreynslulaust flæði einkennir þessa músík en markaþensla og tilraunastarfsemi ávallt ofarlega á blaði. Eðlilegar eða auðveldar leiðir eru aldrei farnar. Sem betur fer.

„Hugarheilsa“ opnar, trommur Magnúsar fara af stað og svo gítar Ómars, rifinn og skældur. Óskar og Tómas fylgja svo fljótt á eftir og upp magnast dásemdarseiður, pínu proggaður jafnvel á köflum (eða í smástund a.m.k.!). Þeir félagar skiptast svo á að bera lögin ef svo mætti segja, „Priko“ fer af stað með hrynþéttum bassa og surgandi gítar á meðan Óskar blæs yfir. Eftir hálfgildings inngang fer allt af stað, trommur og orgel á mikið hlemmiskeið áður en lagið „dettur“ aftur niður. „Dill“ hefst á varlegum, innilegum saxófónleik og yfir og allt í kring eru félagar Óskars, styðja við og skreyta af stakri næmni. Þetta lag er fyrirmyndardæmi um þá telepatíu eða fjarhrif sem á milli meðlima eru. Annað er eftir þessu. En ég nefni hið undurfagra „Pabbi“ sérstaklega, sjö mínútur af einskærum ADHD-galdri. Tónn Óskars, hér og almennt, er auðvitað ekkert eðlilegur, þvílíkt séní sem þessi drengur er.

Vonandi að þetta verði ferð án enda hjá þessum meisturum. Karma heimsins er að veði.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: