Skringi Íslenska svartmálmssveitin Altari fer óhikað inn á ókunna stigu á plötu sinni Kröflueldum.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 12. ágúst, 2023

Svartbikuð sýra

Kröflueldar er plata eftir íslensku svartmálmssveitina Altari sem er tiltölulega ný af nálinni. Platan kemur út hjá hinu virta finnska merki Svart Records.

Altari er skipuð Óskari Þór Guðjónssyni, söngvara og gítarleikara, og semur hann auk þess efnið. Kristinn Rafn Guðmundsson leikur á gítar, Illugi Þór Kristinsson spilar á bassa og Þórir Hólm Jónsson trommar. Venjulega ganga meðlimir íslenskra svartmálmsbanda undir dulnefnum, stökum stöfum, en ég er með sambönd!

Þeir félagar eiga sér mosfellskar rætur, voru saman í sveitinni Port og síðar Abominor, utan Illuga sem hefur leikið með Mannveiru (og rekur auk þess sólóverkefnið Kviðristu). Söngkonan Gyða Margrét ljær þá plötunni söng. Það var svo Írinn Stephen Lockhart sem meðupptökustýrði, en sá er búsettur hér og hefur m.a. staðið fyrir Ascension-hátíðinni auk þess að taka upp fjölda íslenskra sveita af svartmálmskyni.

Kröflueldar kraumuðu hjá meðlimum í heil níu ár eða í svipaðan tíma og Kröflueldarnir 1975 vörðu. Titillinn því við hæfi og var hann valinn vegna þessarar staðreyndar.

Altari er skilgetið afkvæmi hinnar mjög svo frjóu íslensku svartmálmssenu sem inniheldur bæði stemningsríkar („atmospheric“) sveitir eins og Sólstafi og Auðn en líka meira brjálæði eins og finna má hjá Misþyrmingu, Sinmara, Mannveiru, Nöðru og Almyrkva, svo ég telji nú eitthvað upp.

Kröflueldar er nokk einstakt verk, verð ég að segja. Þetta er svartmálmur, já, en eiginlega bara í grunninn. Ofan á er svo hlaðið tilraunakremi úr alls kyns áttum. Það er djass hérna, smá Joy Division og ókennilegar tilraunir. Óskar nefnir Killing Joke, Blue Öyster Cult og Interpol. Pælingin var að ferðast á milli einhvers konar hrein- og hráleika og hljómur plötunnar er hrár, jafnvel losaralegur. Þetta er svartmálmur sem svingar! Tomi Pulkki, aðalmaðurinn hjá Svart Records, lóðsaði sveitina um borð hjá sér og fagnaði „skringilegri“ nálgun Altaris við svartmálminn, eitthvað sem „er því miður ekki of algengt nú á dögum.“

Rýnum nú aðeins í plötuna atarna. Opnað er með titillaginu sem byrjar eins og djassað Can-lag, tekið upp við sólarupprás í Marokkó. Alveg satt! Lagið rúllar svo af stað í hefðbundnari rokkgír og Óskar syngur með frjálslegri öskurrödd. Eftir u.þ.b. þrjár mínútur kemur smekklegt, tandurhreint gítarsóló með sterkum áttunda áratugs keim og þarna er Öyster Cult tengingin líkast til fundin. „Djáknahrollur“ er næst og trommarinn endasendist í nokkurs konar hipphopp takt. Stórgott, og Óskar syngur með sinni lausbeisluðu rödd. Maður spennist upp því að það er ljóst að það er engan veginn hægt að vita hvað dettur inn næst. „Leðurblökufjandinn“ nikkar smekklega til Killing Joke og mikið er ég hrifinn af trommuleiknum á plötunni. Afar tilraunakenndur og opinn. Lagið er hægt og „skrítið“, gefur sig ekki, og það eru þessar óvæntu sveigjur og beygjur sem eru hugsanlega á bak við næsta horn, sem gefa þessari plötu bæði styrk og sérkenni. Þannig er „Sýrulúður“ óvæntasta útspilið en þar syngur áðurnefnd Gyða Margrét. Undirspilið drungalegt, hrollvekjukennt, líkt og Bauhaus hafi kippt Elizabeth Fraser um borð í djamm seint að kvöldi. „Hin eina sanna“ rokkar þetta upp og nú er ljósari (dekkri?) þessi síðpönkshylling sem dansar um plötuna alla. Ég heyri í Þey, Sisters of Mercy jafnvel og öllu því sem hefur verið nefnt úr þessum ranni. Þetta er svo keyrt í gegnum síu sem inniheldur dass af áttunda áratugs rokki og býsnina alla af svartmálmi. Takk fyrir! Tvö síðustu lögin sigla um svipuð mið og restin af plötunni, langir ópusar, en athugið að í hverju og einu lagi er eitthvað nýtt í gangi, einhverjar nýjar tilraunir.

Plötuumslagið stekkur þá á okkur, sýrulegið vel og er höfundur Kristinn gítarleikari. Myndin fangar ágætlega þá dásamlegu sundurleitni sem einkennir þetta mjög svo prýðilega verk. Óvenjulega er til blandað en blandan virkar. Spennandi, gefandi og heilt yfir alveg afskaplega frumleg plata.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: