Barn náttúrunnar Tónlist Högna Egilssonar við Kötlu ber
hæfileikum hans fagurt vitni. — Ljósmynd/Yael Bar Cohen.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 19. ágúst, 2023

Úr innstu kviku

Tónlist Högna Egilssonar við sjónvarpsþáttaröðina Kötlu kom út á dögunum á vínyl og í streymisformi. Dökk og magnþrungin tónlist sem tónar vel við umfjöllunarefnið.

Það er gott að þessi tónlist sé komin út að fullu og mikilvægt. Um er að ræða fimmtíu mínútur af tónlist sem streymir nú um netið en er einnig á hörðu formi (aukalög er að finna á streymisveitum). Ég segi mikilvægt því að ég hugsa t.d. um tónlist Egils Ólafssonar við Jón Odd og Jón Bjarna sem aldregi hefur komið út. Og svo mikið af dásamlegri hljómlist, stemmum bæði og stefjum í merkismyndum, sem aldrei fá að njóta sín frístandandi.

Katla var frumsýnd 2021 og var afskaplega vel tekið. Högni lýsir því að Baltasar Kormákur, leikstjóri og höfundur, hafi komið að máli við sig um tónlist og hann hafi farið að skrifa um leið. Hann hafi hins vegar ekki séð fyrir sér þá, verandi tiltölulega reynslulítill í þessum efnum að eigin sögn, hversu mikil eftirvinnsla færi svo í hönd. Þrátt fyrir þetta mat sitt hefur Högni þó samið tónlist fyrir sjónvarpsþætti, stutt- og heimildarmyndir um nokkra hríð þó að Katla sé hiklaust hans allra umfangsmesta verkefni hingað til. Tónlistin var tekin upp á ýmsum stöðum, með sinfóníusveitum, kórum og söngvurum en nánasta samstarfsfólk voru Tóti Guðnason, Inga Magnes Weisshappel, Petter Ekman, Þórunn Ósk Marínósdóttir og Sigurgeir Agnarsson. Högna segist svo frá að tónlistinni hafi svo gott sem verið dælt út úr hljóðveri hans, HEX, á löngum sumarkvöldum og vegna eðlis þáttaframleiðslunnar hafi hann og hans fólk þurft að stökkva til án umhugsunar.

Sérstakt útgáfuhóf var haldið í 12 Tónum fyrir síðustu helgi og hlotnaðist mér sá heiður að stýra samtali við Högna. Það var gott að heyra hann tjá sig um þessa tónlist og sköpunarferlið því að þetta er virkilega vel heppnað og átti ég svo sem ekki von á öðru. Búinn að fylgjast með þessum dreng síðan hann var í Hjaltalín og veit allt um hæfileikana sem bærast og krauma þarna innra með honum. Húsfyllir var og gott betur og erlendir aðdáendur m.a. mættir.

En þurfum við ekki að tala aðeins um tónlistina? Jú, það þurfum við heldur betur að gera! Högna tekst vel upp í því að fella tónmálið að þáttunum um leið og hann setur „sig“ inn í tónlistina. Eins og bestu kvikmyndatónlistarsmiðir gera. Áferðin er að langmestu leyti dökk, „molluð“ og dramabundin og ýjar að ógn og skelfingu á köflum. Opnunin, „KTLA“, er mikilúðleg. Stór og epísk en í kjölfarið fáum við „Anda þinn Guð“ sem ber með sér austur-evrópska strauma en þeir gera á köflum vart við sig í völdum stefjum. Hér er rólegra um að svipast og dulræn og grípandi fegurð stýrir framvindunni. Fríð- og hrikaleiki skiptast á, „Andardráttur myrkrahöfðingjans“ ber nafn með rentu en „Grátandi jeg þig beiði“ er annars kyns. Um margt blíðara og Eron Thor Jónsson, kórdrengur, ljær smíðinni dágóðan aukaskammt af töfrum.

Og svo má áfram telja. Tónlistin stendur alveg afskaplega vel, þetta er sannfærandi, vel útfært og Högna tekst tvennt; að þjóna efniviðnum en um leið sjálfum sér ef svo mætti segja. Handbragð hans sem tónskálds rennur á milli allra hljóðrása.

Það er Erased Tapes sem gefur vínylinn út en Netflix Music sér um streymið. Þess má þá geta að Högni sér um tónlistina í Snertingu, væntanlegri mynd Baltasars Kormáks, þar sem áðurnefndur Egill Ólafsson fer með burðarrulluna.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: