Image may contain: sky, text and outdoor
Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. október, 2018

Fall hans falið

Benni Hemm Hemm gaf út plötuna Fall fyrir stuttu, og er óhætt að segja að þar fari hann allt annað en hefðbundnar leiðir, hvort heldur í tónlist eða útgáfu.

Benni Hemm Hemm, sem er listamannsnafn Benedikts Hermanns Hermannssonar, hefur verið virkur í tónlistarmenningu landsins í nærfellt kvartöld og gefið út fjölda platna ýmist einn eða með öðrum.

Í fyrndinni var oft um að ræða melódískt nýbylgjupopp, plötur eins og Kajak, Ein í leyni, Murta St. Calunga og Skot t.d. Dvöl í Skotlandi gf sumu af efninum eins konar þjóðlagablæ líka. Fyrir tveimur árum tók hann svo nokkurs konar u-beygju með plötunni Skordýr, 22 laga plötu sem var bara fáanleg í gegnum streymisveitur. Sú plata tengdist öðrum miðlum einnig, á youtube voru skrítin og skemmtileg myndbönd við hvert og eitt lag og þá gaf hann einnig út ljóðabók með sama titli. Verklagið var nýtt fyrir Benna, sem kastaði allri óþarfa yfirlegu meðvitað út um gluggann og leyfði hlutunum að gerast óheft og frjálslega. Platan er þá afskaplega fjölbeytt að innihaldi, Syd Barrett og Incredible String Band komu upp í hugann og afstrakt bygging og sumpart óvæntar fléttur stóðu undir smíðunum. Blíðustu popplög áttu þannig til að fara óforvarandis út í hávaðaorgíu.

Fall er hins vegar tíu laga, fáanleg á youtube og Spotify, og hér er enn hert á tilraunagleðinni ef eitthvað er. „Karlsstaðaflautan“ er átta mínútna, naumhyggjulegt „ambient“-verk. „Boys“ eru tíu mínútur af óhlutbundnum nið og unninni, draugalegri rödd. „Niður fjallið“ er skríti-tölvupopp. Hot Chip á sýru. Nei, þetta fer trauðla í útvarpsspilun. En aðdáendur Throbbing Gristle fá hins vegar sitthvað fyrir sinn snúð.

„Ég var kominn með rúmlega tuttugu lög í sumar sem ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera við,“ útskýrir Benni fyrir pistilritara. „Svo ég setti allt saman í salt og nokkrum vikum síðar stóðu þessi lög upp úr, sögðust vilja hanga saman í þessari súpu og heita Fall.“

Hann segir konseptið vera myrku hliðina á bjartasta tíma ársins, „sturlunina á bakvið stuðið þegar það er bjart allan sólarhringinn og það er alltaf gaman og orkan er endalaus“. Hann segir plötuna fullkomlega handahófskennda, ekkert upptökuferli sem hægt væri að lýsa á neinn skiljanlegan hátt, lögin hafi verið tekin upp einhvern veginn og svo var gruflað í þeim þangað til þau hljómuðu vel. Benni segist þá hæstánægður með þróun útgáfumála, og gengur dálítið í berhögg við það sem maður er vanur að heyra.

„Það er svo ótrúlega gaman að gefa út núna miðað við í gamla daga,“ segir hann. „Að vera laus við að senda upptökur á einverju leynilegu formati til Tékklands og skrifast svo á við einhvern dularfullan mann um mismunandi skilgreiningar á litakóðun á umslaginu og sækja svo draslið í tollinn og borga morð fjár og biðja svo einhvern um að dreifa fyrir mann og svo fær maður ekki borgað fyrir diskana sem er búið að dreifa. Það er heill heimur af leiðindum sem er horfinn. Það er unaður að losna við þetta! Það er eitthvað rétt við að tónlist sé að hverfa úr efnisheiminum, hún á heima fyrir utan hann.“

Það má þá búast við annarri plötu frá Benna í nánustu framtíð, lögin sem enduðu á plötunni séu þau sem eru mest afstrakt og fókusera harðast á myrkrið. „Eftir standa nokkur eldhress popplög sem koma út þegar þeirra tími kemur,“ segir Benni brosandi, hamingjusamur í nýjum, efnislausum tónlistarheimi.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: