Dymbrá Óræð nútímatónlist

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 22. ágúst, 2020.

Öðruvísi mér áður brá

Ungsveitin Dymbrá gaf nýlega út fimm laga stuttskífu samnefnda sveitinni en innihaldið er nokkurs konar nútímatónlist, þótt erfitt sé að festa fingur á blöndunni.

Ég sá Dymbrá fyrst á Músíktilraunum árið 2018, en þá hétu þær Umbra. Ég setti niður hugleiðingar um úrslitakvöldið á bloggið mitt, arnareggert.is, og sagði þá: „Persónulega verð ég líka að nefna Umbru, en þær stöllur stóðu sig eins og hetjur. Nútímatónlist í ætt við Báru Gísla og Hafdísi Bjarna. Tilraunakennt, frjótt, einlægt og heiðarlegt. Hrein unun að fylgjast með þeim.“ Liðskonur voru þá þær Nína Solveig Andersen, Eir Ólafsdóttir og Eyrún Úa Þorbjörnsdóttir en Eir sigraði Músíktilraunir það árið með annarri sveit, Ateria. Ég rakst meira að segja á þær baksviðs um kvöldið, þar sem þær voru yfirmáta taugatrekktar – en svo ofsalega tilbúnar um leið. Þessi ómengaða dirfska og orka sem unglingurinn býr einatt yfir. Eir leikur á selló, Nína á fiðlu og Eyrún á flautu en mörg önnur hljóðfæri eru brúkuð, bæði á Tilraununum góðu og á þeirri plötu sem hér er til umfjöllunar. Stelpurnar eru nú, tveimur árum síðar, ekki nema sautján og átján ára en platan ber það ekki beint með sér. Dökkleit og draumkennd kammertónlist ber hana en reglulega er farið á göldrum bundið hlemmiskeið, hvort heldur með sellói, fiðlu eða flautu sem gefur framvindunni fallegan þjóðlagakenndan blæ. Eitthvað skandinavískt við þetta. Stelpurnar syngja dálítið, afstrakt hendingar og lög eru þá brotin upp óhikað með rafstemmum og öðru slíku skrauti, tilraunamennska í hávegum höfð á sama tíma og byggingu og melódíum er haldið. Blærinn er ævintýralegur á köflum, eins og í „Tíbrá“, sem hljómar eins og bakgrunnstónlist í einhverjum töfraskóginum.

Platan var tekin upp í Stúdíó 101 og voru þær með puttana í flestum þáttum plötugerðarinnar, m.a. sjálfum upptökunum. Ég spurði Eir aðeins út í áherslur plötunnar, hvaðan þessi heimur væri kominn. Og sé reyndar að hún er meira og minna sammála lýsingum mínum, miðað við þau viðtöl sem ég las í undirbúningi þessarar greinar. Hún svarar mér samt að þær eigi fremur erfitt með að skilgreina sig nákvæmlega. Áhersla hafi þó verið, fyrir þessa plötu, á að hafa söng ekki í forgrunni. Platan hafi þá verið lengi í vinnslu og ekki beint auðvelt að athafna sig, þar sem þær hafi verið að nema fullt af hlutum í fyrsta sinn við gerð hennar. Þær stöllur hafa þá viðurkennt að lögin á plötunni séu til þess að gera komin á aldur, hafi að mestu verið samin þegar þær voru að klára grunnskóla. Þær séu klárar að fara í nýjar áttir og til stóð að viðra eitthvað af því efni fyrir gesti Músíktilrauna þar sem þær voru búnar að skrá sig en keppnin sú var felld niður vegna COVID-19. Fram undan er þó vinna að tónlist fyrir stutta heimildarmynd. Bandið er því blessunarlega virkt, en þær eru allar í fullu námi í MH samhliða Dymbrá. Persónulega viðurkenni ég að ég gleðst innilega yfir því að þær hafi náð að skjalfesta þessa vegferð sína, plötuformið er enn eins og einhver mælistika á feril tónlistarmanna og nauðsynlegt að koma sköpuninni út á meðal almennings með þeim hætti.

Megi þær halda áfram að semja, spila og gefa út og ég mun fylgjast spenntur með næsta útspili.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: