Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 25. júlí, 2020.

Út á ystu nöf

Sinfonia er nýtt verk eftir Guðmund Stein Gunnarsson afstrakttónsmíð sem tekin var upp með tónlistarhópnum Fengjastrúti á síðasta ári. Það er Carrier Records í Bandaríkjunum sem gefur út.

Ég fékk tölvupóst frá Guðmundi með svofelldum haus: „Ný íslensk sinfónía (…þannig séð)“. Kersknislegur fyrirvari þarna enda er verkið með þeim hætti að hefðbundnar hugmyndir okkar um snið sinfóníuverks eiga ekki beint við þessa plötu sem Guðmundur var að gefa út, þótt hún beri nafnið Sinfonia . Ekki að það komi mér á óvart enda hefur Guðmundur lengi verið með helstu jaðartónskáldum Íslands og verk hans storka jafnan rækilega öllum þeim hugmyndum sem hægt er að hafa um byggingu og eðli tónlistar. Ef Wire -tímaritið myndi dæma verk Guðmundar færu þau í þann eðla flokk „Outer Limits“.

Guðmundur hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi um árabil og meðal annars tekið drjúgan þátt í starfsemi S.L.Á.T.U.R., samtaka íslenskra tónlistarmanna sem reyna reglulega á þanþol tónlistarinnar. Guðmundur hefur og skrifað tónverk fyrir tónlistarhópa á borð við Caput, Elju, Kammersveit Reykjavíkur, Sinfóníuhljómsveit Íslands Nordic Affect, Duo Harpverk sem og fjölda erlendra tónlistarhópa, þ.ám. skosku BBC sinfóníuhljómsveitina. Verk hans má m.a. nálgast á gudmundursteinn.bandcamp.com.

Það er Carrier Records í Bandaríkjunum sem gefur Sinfonia út. Fyrirtækið er framsækið með eindæmum og hefur og gefið út plötu með Þráni Hjálmarssyni. Sinfonia kemur út bæði á geisladisk og vínyl í handgerðum umbúðum eftir listamanninn Sam Rees, sem hefur verið búsettur á Íslandi. Um er að ræða nýlegt tónverk sem var frumflutt í mars á síðasta ári af tónlistarhópnum Fengjastrúti. Upptakan fór fram 10. mars 2019 í Masterkey-hljóðverinu á Seltjarnarnesi og var upptökustjórn í höndum Guðmundar og Jespers Pedersen. Þau sem skipuðu Fengjastrút þennan örlagaríka dag voru Björn Davíð Kristjánsson, Þórunn Björnsdóttir, Páll Ivan frá Eiðum, Andrés Þór Þorvarðarson, Gunnar Grímsson, Ásthildur Ákadóttir, Svanur Vilbergsson, Hafdís Bjarnadóttir og Hallvarður Ásgeirsson. Tónsmíðin notast við sérstilltar munnhörpur, flöskur og ýmis sérstillt hljóðfæri til að ná fram svokölluðum míkrótónum. Þá eru nóturnar ekki á pappír eins og venjulega tíðkast. Nóturnar eru myndband þ.e.a.s. tónlistarmennirnir horfa á myndband á meðan þeir spila en það er regla frekar en undantekning í verkum Guðmundar Steins. Engin jöfn bil eða beinar línur fyrirfinnast og allt er á skjön. Lítið sem ekkert getur gerst á sama tíma. Það er vissulega tilfinningin er hlustað er. Verkið er afar afstrakt og einkennist af lágværu slagverki og blæstri sem titrar óreglulega. Guðmundur nýtir sér líka þagnir á áhrifaríkan máta. Stundum er eins og detti á dúnalogn en svo læðist blástur inn eins og úr fjarska, líkt og vindgnauð sem fer eftir eigin lögmálum. Blásturinn er eins og segir varfærinn og viðkvæmnislegur og gefur það framvindunni brothættan blæ.

Það er meira en vert að benda á efnislega útgáfu plötunnar. Eintök Rees eru listaverk í sjálfu sér, bæði geisladiskarnir og vínyllinn. Hægt er að versla í gegnum bandcampsíðuna. Þess má geta að vínyllinn, sem var pressaður í tíu stykkjum, er einstakur upp á það að gera að hver og ein upptaka er sérstök. Verkið spilað tíu sinnum fyrir tíu eintök!

Guðmundur hefur þá gefið út þrjú verk á árinu til þessa. Í apríl kom Skartamannafélagið 2 út og Horpma XII-XVI kom út í sama mánuði. Í báðum verkum eru mörk og mæri þess mögulega könnuð til hlítar, verkefni sem tónlistargyðjan á fullt í fangi með að greina og skilja. Er það vel!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: