Einn Flosi Þorgeirsson fer mikinn sem einyrki á fyrstu sólóplötu sinni.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 9. apríl, 2022.

Öllu er lokið

Flosi Þorgeirsson steig í fyrsta sinn fram sem sólólistamaður í fyrrahaust á plötunni Flosi. Innihaldið er grípandi nýbylgjurokk með textum sem kanna dýpstu innviði sálarinnar.

Maður hefur fylgst með Flosa lengi vel í gegnum hin ýmsu verkefni, einkanlega HAM, en sem tónlistarmaður hefur hann snert á ansi mörgu og það af ólíkum toga. Lék á bassa með pöbbasveitinni Mikki Refur t.a.m. samfara HAM einn vetur. Og meðfram því sem leikið er með sveitum eins og Drepi, Sólstöfum og Glerakri, allt sveitir af þyngra tagi, tekur hann í bassa með sveit Sváfnis Sigurðarsonar. Ekki einhamur maður, Flosi, en auk þessa er hann liðtækur leikari og ekki skortir á sagnfræðikunnáttuna eins og hlustendur hlaðvarpsins Draugar fortíðar hafa fengið að kynnast.

En að þessari plötu hér. Flosi segir frá því á söfnunarsíðunni Karolina Fund að fyrir nokkrum árum hafi hann verið kominn með nokkur lög í hausinn sem voru orðin þaulsætin þar. Afréð hann því að hlaða í plötu og lýsir hann verkinu sem óði „til allrar þeirrar tónlistar sem hefur haft áhrif á mig í gegnum tíðina. Þarna má finna jafnt áhrif frá nýbylgjurokki níunda áratugar, pönki, þungarokki og klassísku rokki.“ Afurðin er tíu laga gítarrokkplata hvar Flosi syngur og sér um allan hljóðfæraleik (bassa og gítara) en félagi hans úr HAM, Arnar Geir Ómarsson, sér um trommuslátt. Plötuna tók svo Einar Vilberg upp í Stúdíó Hljóðverk.

Þeir sem áttu von á níðþungu öfgarokki í ætt við HAM fá ekkert slíkt hér. Jú, að einhverju leyti en engan veginn öllu. Dálæti Flosa á melódísku neðanjarðarrokki í ætt við Dinosaur Jr. og Hüsker Dü er t.d. vel ljóst í gegnum plötuna og hefst hún reyndar á hálfgerðum óði til Dinosaur Jr. „Týnd“ nánast stekkur á þig frá fyrsta tóni, hressilegt háskólarokk og söngrödd Flosa kom mér á óvart. Þarna er bassaröddinni eigi beitt, söngurinn er „venjulegur“ og viðlagið sungið í rífandi, ástríðufullum ham. „Myrkur“ er í svipuðum fasa, samsplæsing af Hüsker og Sonic Youth og söngröddin tilkomumikil, tilfinningaþrungin og sögumaður á vonarvöl. Í „Týnd“ kom setningin „Grámi umlykur oss“ fyrir og í „Myrkur“ má heyra talað um ljósleysi, náttmyrkur og að „allt sé svart“. Flosi er mikið að tala um myrkur á plötunni, myrkur sálarinnar, en hann hefur verið afar opinskár í fjölmiðlum um baráttu sína við þunglyndi. Sem hefur bæði hjálpað honum og öðrum. Hér er horft af krafti niður í hyldýpið en óhætt er að segja að sá sem hefur kynnst djúpu þunglyndi hefur í raun fengið innlit í helvíti. Að viðra þetta allt saman í texta og tónum er lofsvert bæði og hugrakkt.

Flosi passar sig þó að bjóða upp á tilbrigði við stef. Það er spennandi að sjá gítaræfingarnar hjá honum, sjá t.d. gítarlykkjurnar sem opna „Mistök“ (sem geymir þessar línur, „Lífið er tilgangslaust / fánýtt, stefnulaust…“). „Grái farþeginn“ er með HAM-legri lögum hérna, meira þungarokk en nýbylgja mætti segja. Upphafið a.m.k., svo er rúllað í dægilegasta vers áður en þyngslin taka völdin á nýjan leik. Áhugavert lag og frumlega uppbyggt.

„Sólin er köld“ er keyrt á hægu, skriðdrekalegu riffi (smá XIII í gangi) og svo má telja. Restin af plötunni sveiflast örugglega á milli grípandi nýbylgju og þyngri spretta og verkinu er lokað með „Hlekkur“ sem er vel til fundin heiðrun Link Wray til handa. Ég verð líka að geta þáttar nafna míns Ómarssonar sem ber húðir af miklum glæsileik. Og höfundareinkennið fer engan veginn fram hjá manni.

Plata sem varð að gera og hún var gerð. Vel gert! Titill greinar er vísun í einn af þekktari frösum Flosa. En má ég snúa honum aðeins á haus hér í endann og segja: Er ekki allt að byrja bara?

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: