Rökkur Þær Lilja María og Hekla kalla sig Duo Therelda.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 16. apríl, 2022.

Göróttur galdraseiður

Duo Therelda er heiti á nýrri sveit eður verkefni sem þær Hekla Magnúsdóttir og Lilja María Ásmundsdóttir standa að.

Það var í desember síðastliðnum sem þær Hekla og Lilja María frumfluttu verkið Lofthjúp í Hannesarholti en það var samið fyrr á árinu 2021. Verkið er samið fyrir þeramín, píanó og hljóðskúlptúrinn Huldu sem Lilja María hannaði. Auk þess léku þær nokkur af fyrstu rafverkunum sem samin voru á síðustu öld, verk sem eru skrifuð fyrir þeramín og píanó, en elsta verkið var samið 1929. Á efnisskránni voru meðal annars verk eftir Joseph Schillinger, Isidor Achron, Friedrich Wilkens og Isaac Silva. Þær hafa flutt þessa efnisskrá aftur eftir þetta, t.d. í Mengi í síðasta mánuði þegar þær héldu nokkurs konar útgáfutónleika en þá var hægt að kaupa nótur og forskrift að verkinu sem m.a. innihéldu niðurhalskóða að plötunni.

Hekla er kunn fyrir störf sín sem nútímatónskáld og þeramínleikari og hefur gefið út nokkrar plötur sem lofaðar hafa verið hérlendis sem erlendis. Lilja María er sömuleiðis tónskáld og leggur stund á doktorsnám í tónsmíðum í London. Verk hennar hafa snúist um að tengja tónlist, myndræna miðla og sviðslistir. Hún er þá hluti af Hlökk ásamt Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur og Ragnheiði Erlu Björnsdóttur. Plata þeirra frá 2019, Hulduljóð, var mikið lofuð og fékk m.a. Kraumsverðlaun. Lilja hefur auk þess unnið að fjöldamörgum hljóðskúlptúrum en nánar má lesa um þá hér: www.liljamaria.com.

Pistilritari setti sig í samband við Heklu og innti hana eftir því hvernig þetta samstarf hefði orðið að veruleika. „Við Lilja vorum saman í tónlistardeildinni í LHÍ og við kynntumst þar,“ svarar hún. „Okkur langaði að semja verk fyrir hljóðskúlptúra-hörpuna hennar (Huldu) og þeramín og prófa að framkalla líka öðruvísi hljóð á hljóðfærin.“

Hekla segir að í viðbót við verkið nýja, Lofthjúp, hafi þær haft gaman af því að gramsa í eldri raftónlist, þá frá þriðja áratug síðustu aldar. „Það var pínu vesen að finna nóturnar,“ segir hún og hlær. „Okkur fannst einfaldlega forvitnilegt að skoða þessa hundrað ára gömlu tónlist og gera svo nýja svoleiðis tónlist ef svo mætti segja. Einhver heilhringur. Það er líka merkilegt að þeramínið er „skrifað“ mjög hefðbundið út fyrir þessi gömlu verk, eins og það sé fyrir fiðlu eða rödd á meðan við erum með annan hátt á, ég er að „lúppa“ („lykkja“), gera ískur og svoleiðis.“

Hekla segir að „Huldan“ hennar Lilju sé líka mikið galdratæki og erfitt að temja það. Öfugt við þessa eldgömlu raftónlist sem var afar öguð og „klassísk“.

Verkið, Lofthjúpur, hangir inni á Bandcamp (https://duotherelda.bandcamp.com/releases) en Hekla leggur áherslu á að eðli verksins sé að vera mjög breytilegt og þetta verk á Bandcamp engan veginn endanleg „niðurstaða“. Fyrsta lagið þar er spilað með því að beita skopparabolta á Hulduna en þann gjörning má sjá á instagramsíðu Heklu. Verkin eru ansi mögnuð, hljóðvinna skiptir greinilega miklu; þau eru skerandi, ískrandi og köld en hleypa um leið melódíum í gegnum sig. Svona rétt svo (sjá „II“). Sum eru þá meira afstrakt og afdráttarlaus. En heyrn er sögu ríkari!

Hekla segir að lokum að hún ætli að gefa út plötu undir Heklu-nafninu í ár. „Ég verð eitthvað að spila í sumar og er svona að fara í gang aftur. Lilja er í náminu eins og stendur. En til stendur að spila aðeins meira í sumar sem Duo Therelda og kannski bæta langspili í verkið.“

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: