sig050040-various-artists-circe-cd-z
Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 14. nóvember, 2015

Þegar myndinni sleppir


Circe inniheldur tónlist við heimildarmyndina The Show of Shows, sem inniheldur myndskeið frá 100 ára sögu sirkusa og skyldra uppákoma. Leikstjóri er Benedikt Erlingsson og BBC mun sýna myndina.

Circe inniheldur tónlist við heimildarmyndina The Show of Shows, sem inniheldur myndskeið frá 100 ára sögu sirkusa og skyldra uppákoma. Leikstjóri er Benedikt Erlingsson og BBC mun sýna myndina. Tónlistina sömdu Georg Holm, Orri Páll Dýrason, Hilmar Örn Hilmarsson og Kjartan Holm. Þeir flytja einnig og stýra upptöku. Aðrir flytjendur eru Kammerkór Suðurlands (undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar), Júlía Mogensen (selló), Ásdís Hildur Runólfsdóttir (lágfiðla), Geirþrúður Ása Guðmundsdóttir (fiðla) og Helga Þóra Björgvinsdóttir (fiðla). Krunk Records gefur út.

Kvikmyndatónlistin er dálítið skrítin skepna og er óþarflega oft skipað á bás einhvers staðar úti í horni, bakgrunnshjal sem á fyrst og fremst að styðja við eitthvað merkilegra. Og vissulega er hún keyrð inn í það mót reglulega en við eigum og mýmörg dæmi um að hún öðlist nokkurs konar sjálfstæði og keyri jafnvel fram úr því sem hún átti að vera í skugganum af (sjá/heyra t.d. tónlist Ennio Morricone). Tónlistin við Star Wars er algerlega órofa partur af upplifun þeirra mynda og ég get sosum talið upp góðskáld úr þessum geira út í hið óendanlega (fyrst ég er að þessu verð ég að skjóta meistara Angelo Badalamenti að og meistaralegri tónlist hans við Twin Peaks).

Meðlimir Sigur Rósar hafa sýslað við ýmis hliðarverkefni í gegnum tíðina, Jónsi og Kjartan Sveinsson hafa helst verið þekktir fyrir þá iðju en nú stígur hrynparið fram, þeir Orri Páll og Georg Holm og svipta upp kvikmyndatónlist í samstarfi við Hilmar Örn Hilmarsson (sem vann með þeim að tónlist við Engla alheimsins m.a.) og Kjartan Holm (sem hefur séð um gítarleik á tónleikaferðalögum Sigur Rósar undanfarin ár). Skemmst frá að segja fellur þessi plata glæsilega í „sjálfstæða“ flokkinn, það er mikið að gerast og fjölbreytileikinn það mikill að hún rís upp fyrir að vera bakgrunnstónlist eingöngu. Þeir félagar virðast vera að fá ákveðna útrás fyrir hluti sem kannski var ekki hægt að prófa innan veggja Sigur Rósar, það er viss leikur í gangi þó að það sé um leið alveg ljóst hvaða hljómsveit og hljóðheimi þessir menn tilheyra. Fyrsta lagið er dramatískt; með draugkenndum áhrifshljóðum, djúpum bassa sem leiðir einfalda melódíu og svo kraftmiklum áslætti. Jú, þetta eru þeir! Stemmurnar eru jafnan nokkuð drífandi, það er hleypt á hlemmiskeið með ættbálkalegum trommum en á milli detta menn í sveimkennda parta þar sem finna má fyrir handbragði HÖH. Kjartan á þá snotrar gítarlínur sem standa vel innan um fárið í kring en leggur og til surgandi bjögun þegar svo ber undir. Nokkur lög stíga ansi skart út fyrir rammann, „Filaphilia (A Tribute to Siggi Armann)“ er mjög fallegur óður til Sigga Ármanns sem lést langt fyrir aldur fram en skildi eftir sig dásamlega tónlist sem Sigur Rósar-meðlimir aðstoðuðu hann við. „To Boris with Love“ er þá merkilegt, minnir helst á vélvæðingarrokk í anda Nine Inch Nails, brjáluð læti og glamur, líkt og um lokalag á Sigur Rósar-tónleikum sé að ræða.

Ljós og skuggar togast þannig á, í verki sem er ekkert sérstaklega sirkuslegt (ég heyrði ekki í neinni farfísu) en hallar sér meira í áttina að móðurstöð flytjenda og aðdáendur Sigur Rósar fá því sitthvað fyrir sinn snúð. Höfundarnir fjórir geta verið stoltir með afurðina og merkilegt að sjá hvernig þeir Georg og Orri stíga fram sem höfundar, sérkenni þeirra liggja yfir framvindunni – þessi naumhyggjulegi en „stóri“ bassi og öflugur trommuleikur Orra – og verkið stendur klárt og keikt þegar myndinni sleppir.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: