Tóngyðja Gyða Valtýsdóttir er með ólíkindum hæfileikarík. — Ljósmynd/Vidar Logi.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, mánudaginn 27. desember, 2021

Svartar fjaðrir

Ný hljóðsversplata Gyðu Valtýsdóttur kallast Ox en þessi magnaða listakona hlaut Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2019 sökum listfengis síns.

Þetta er önnur plata Gyðu sem inniheldur frumsamið efni en árið 2018 kom út platan Evolution. Á Epicycle (2016) og Epicycle II (2020) fékkst hún við verk annarra og MIKHEL (2018) er tónlist við samnefnda kvikmynd.

Vinna við Ox hófst í Brooklyn að vetri til en var svo kláruð að sumri til á Íslandi í samstarfi við Úlf Hansson. Aðrir samstarfsmenn og hljóðfæraleikarar eru Kjartan Sveinsson, Indre Jurgeleviciûtë, Bert Cools, Alex Sopp, Doug Wieselman, Aaron Roche, Shahzad Ismaily og Jófríður Ákadóttir.

Sem tónlistarkona er Gyða í algerum sérflokki, ein sú besta sem við höfum eignast. Sólóplötur hennar til þessa eru ótrúlegar, í þeim öllum óútskýranlegur kynngikraftur sem erfitt er að skilja eða koma í orð. Eitt er það með tónlist, að það er ekki hægt að skilja hana. Ég hef lifibrauð af því að skrifa um tónlist en einhver orð á blaði eru hjóm við hlið þess galdurs sem hægt er að magna upp fyrir hennar tilstuðlan. Hvað þetta varðar er eins og Gyða sé á einhverjum sérsamningi. Þetta er meira en tónlist. Ég labbaði einu sinni inn á tónleika hjá henni í Iðnó fyrir nokkrum árum og maður fann svo vel fyrir því að eitthvað stórkostlegt væri að hrærast á sviðinu. Áhorfendur voru frá sér numdir, frosnir, á meðan seiðurinn frá Gyðu og félögum leið um loftið. Hún er með eitthvert „x“ sem bara er, ég get eiginlega ekki útskýrt það neitt frekar.

Og þetta er vel hægt að nema á Ox. Tökum sem dæmi lagið „Miracle“. Það er hreinlega eins og tíminn stöðvist á meðan það er í gangi. Alltént hljómar það eins og það sé fjörutíu mínútur, ekki fjórar. Blíð, englabundin söngröddin flöktir á milli rása á meðan tónlistin í kring er ekkert minna en guðdómleg. Hugsið um fallegustu augnablik Talk Talk og Kate Bush svo þið getið færst nær skilningi. Lagið þar á undan, hið skemmtilega nefnda „Cute Kittens Lick Cream“, er jafnvel áhrifaríkara í einfaldleik sínum. Ósungið, og aftur þessi áhrif. Eins og það sé handan tíma og rúms, hljómi utan úr handanheimi. Ég veit að þetta hljómar afskaplega loftkennt hjá mér, jafnvel hippalega, en svona er þetta bara. Það er líkt og búið sé að varpa manni inn í þægilegan ævintýraheim og það er bara alls ekki leiðinlegt að dvelja þar! Þetta er dásamlegt!

„Prism“ líður áfram eins og það sé frákast af Selected Ambient Works II Aphex Twin með viðkomu á skrifborði Eriks Satie. Upphafslagið, „Alphabet“, er þá ógurlegt. Dramatískt, epískt, flennistórt. Ég er líka afar hrifinn af flautunum og klarínettunum sem í heyrist á plötunni, minna ekki lítið á sólóplötu Marks Hollis frá 1998 og er sú viðlíking hámarksmeðmæli!

Þessi plata er ólík Evolution um margt. Mér finnst eins og hún sé hrárri, opnari. Viðkvæmari viðkomu. Evolution kannski aðeins „poppaðri“ þó að það sé eiginlega ekki hægt að nota slíka lýsingu. Á einhvern hátt er hún líka frjálsari, Evolution rann mjög skipulega áfram og með líku lagi en þessi er ótamdari einhvern veginn, svo ég geri ámátlega tilraun til að lýsa því sem fyrir eyru ber. Sem ég get samt ekki, með tilvísun í það sem ég sagði fyrr um eðlilegt skilningsleysi okkar allra gagnvart mætti tónlistarinnar.

Bið hins vegar alla þá sem lesa að kynna sér þessa merku listakonu sem allra fyrst. Þið eigið það skilið.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: