Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 18. desember, 2021

Norah flott eins og furunálabað

Hér ætla ég, eins og undanfarin ár, að stikla á stóru yfir nýútkomnar erlendar jólaplötur. Reyndar er ekki sérstaklega gæfulegt um að litast þetta árið.

Ég hef venjulega litið til erlendra og innlendra platna í þessum efnum en ég sleppi þessu síðarnefnda í ár. Ástæðan? Jú, það er engin íslensk jólaplata á útgáfulista þessa árs. Já, ég er jafn hissa og þú lesandi góður og ég man hreinlega ekki eftir því að þetta hafi gerst áður. Iðulega koma út ein til tvær plötur og í fyrra voru þær nokkrar. Stök lög vissulega á kreiki þetta árið og Guðmundur Jónsson og Jóhann Sigurðarson standa fyrir útgáfu á þremur nýjum frumsömdum jólalögum þetta árið í gegnum verkefni sitt Jóladraumur. En, engin fullburða plata (sendið mér endilega póst ef eitthvað fór fram hjá mér).

Horfum þá til útlanda en það verður að viðurkennast að fátt er um fína drætti þótt einhverjar séu plöturnar. Það sem stendur upp úr er klárlega plata Noruh Jones, I Dream of Christmas. Ég vissi að þetta yrði gott um leið og ég sá umslagið. Svo greinilegt að hér yrði ekki hlaðið í ódýrar ábreiður til að elta peninginn heldur yrði eitthvert súbstans í þessu. Nóg er að líta til merks ferils Jones, sem hófst með áhlýðilegri „rauðvín við arineldinn“ plötu, en hefur síðan þá leitt okkar konu í alls konar spennandi króka og kima. Þess má þá líka geta að verkefni Noruh, Sasha Dobson og Catherine Popper, Puss n Boots, gaf út jólastuttskífu í hitteðfyrra (Dear Santa).

Önnur jólaplata, allrar athygli verð, er jólaplata Pistol Annies, Hell of a Holiday. Sveitin er ofurtríó sem inniheldur þær Miröndu Lambert, Ashley Monroe og Angaleenu Presley, allt listakonur sem keyra eigin risaferla og eiga stóran þátt í feminísku byltingunni í Nashville. Bylting kannski fullsterkt en áherslur þessara listakvenna og tónlist hefur sannarlega andað ferskum vindum um þessa höfuðborg sveitatónlistarinnar. Annað úr kántríranni er t.a.m. plata Amöndu Shires og svo Josh Turner.

Bandaríkin eiga öfluga innkomu eins og svo oft áður en ég ætla samt að tiltaka einn merkisgrip frá Bretlandi, jólaplötu Gary Barlow, The Dream of Christmas. Fyrrum sveitarfélagi hans í Take That, Robbie Williams, gaf út svona grip í hitteðfyrra og þar var hann trúr sjálfum sér. Prakkari, grallari, rokkari …tunga upp við tönn alla leið. Segja má að Barlow sé undir sömu sökina seldur, það er að vera trúr sjálfum sér, og ekkert kemur á óvart þannig lagað. Platan er snotur, notaleg en bara aðeins of passasöm fyrir minn smekk.

Aðrar útgáfur eru eftir þessu og lognmollan talsverð. Rob Thomas, söngvari Matchbox Twenty, er með plötu og ég sór þess dýran eið að reyna eftir kostum að sleppa því að hlusta á hana fyrir þessi skrif. Kíkti svo á tvö lög og hefði betur sleppt því. Önnur „stór“ plata er önnur jólaplata Kelly Clarkson, ædol-stjörnunnar kunnu.

Þá er Steve gamli Perry, söngvari Journey, með jólaplötu. Umslagið er hræðilegt en ég er svona aðeins búinn að smakka á innihaldinu og líkar ekki illa, en sem komið er. Eitthvað heimilislegt við þetta. Kat Edmonsson djasssöngkona setur þá hin ýmsu staðallög í djasshræru og já, þetta hljómar spennandi þótt ég sé ekki búinn að fullhlusta.

Að endingu nefni ég tvær plötur úr indígeiranum. Brian Fallon, leiðtogi The Gaslight Anthem, er með plötu og einnig Hiss Golden Messenger. Stórsigrar hafa verið unnir í gegnum tíðina hvað þennan samslátt varðar, ég nefni Low, Mark Kozelek og Sufjan Stevens sem dæmi. Fljótt á litið eða heyrt falla þeir félagarnir samt í giska algenga gryfju með þessar plötur. Mönnum er svo umhugað að vera nógu svalir og hnyttnir og „ójólalegir“ að plöturnar gjalda fyrir það.

Læt þetta duga. Algerlega að tékka á Noruh, þið verðið ekki svikin þar. Annað ekkert óskaplega mikilvægt. Ég segi samt og hrópa með hárri raust reyndar: Gleðileg jól!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: