Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 16. mars.

Þangað vil ég fljúga

Konan í speglinum er plata eftir Ingibjargir, hvar ljóð Ingibjargar Haraldsdóttur eru tónsett. Hér verður rýnt í verkið og það tekið til kostanna.

Ingibjargir eru þær Ingibjörg Fríða Helgadóttir (söngur, lestur, kalimba, söngskálar og spiladósir) og Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir (píanó, langspil, kalimba, harmonium, rafhljóð, söngur og lestur). Konan í speglinum inniheldur fimmtán ný sönglög við ljóð Ingibjargar Haraldsdóttur sem þær stöllur hafa unnið saman að í hartnær tíu ár.

Verkið er glæst því að auk hefðbundinnar streymisútgáfu (Spotify, Bandcamp og það allt) er líka til forláta vínyll í opnanlegu umslagi. Kjörgripur, enda listræn hönnun með miklum ágætum. Hönnun var í höndum Eysteins Þórðarsonar og unnið var með vatnslitamyndir Önnu Katrínar Einarsdóttur sem eru undir áhrifum tónlistarinnar og ljóðanna. Þær myndir hafa líka fylgt tónlistinni í lifandi flutningi. Ljósmyndir á svo Sigga Ella, Sigurbjörg Stefánsdóttir stíliseraði og um upptökur, hljóðblöndun og hljómjöfnun sá Albert Finnbogason. Allt þetta kemur svo saman í mögnuðum skurðpunkti er á er hlýtt.

Ljóð Ingibjargar eru sterk og oft umbúðalaus, nokkurs konar bein útsending úr ranni kvenna. Það er ólm í orðunum, hreinskiptin þrá og von eftir einu og öðru og heilu heimunum brugðið upp með einföldum, tiltálguðum setningum sem hitta auðveldlega í hjartastað. Glúrið látleysi mætti segja og þessi ljóðbragur er glæsilega unninn í tónmál af þeim Ingibjörgum. Vinkonur úr LHÍ, hvar þær unnu með spuna og skapalón klassíkur, djass og þjóðlagatónlistar. Þessi hræra er nýtt á áhrifamikinn máta út í gegn. Mestanpart er tónlistin hljóðlát og hægstreym en á köflum er boginn spenntur – óforvarandis jafnvel – og okkur brugðið, ekki ósvipað og Ingibjörg gerir sjálf í lúmskum hendingum sínum.

Lögin eru mislöng en eðlilegt að byrja þetta með „Upphaf“ sem byggir á samnefndu ljóði Ingibjargar frá 1974, fæðingarári þess sem hér ritar! Ljóðabókin er Þangað vil ég fljúga, hvers titil ég nýtti mér í fyrirsögn. „Ég fæddist í gráu húsi,“ syngur Ingibjörg Fríða, nánast án undirleiks. Spiladósir og söngskál gera vart við sig ásamt eilitlu píanóspili. Ingibjörg Ýr kemur þá inn með rödd líka, svona til undirstrikunar á samstarfinu. Tónlistin er höfug, fríð. Nútímatónlist ef einhverja dilkadrætti á að stunda. Tónlistin fylgir bæði ljóði og söng og jafnvægið er eftirtektarvert. Birtustigið er með ólíkum hætti út í gegn, „Húm“ er gotalegt, langspilið leiðir framvinduna og niður tímans læðist upp að okkur. „Í húminu er engin sannleikur, engin trú, engin stríð, bara þessi mjúki, dökki friður augnanna, aðeins þessi kyrra mjúka dýpt andartaksins áður en myrkrið skellur á.“ Takk fyrir! Titillagið er voldugt og svo eru hér nístandi smíðar eins og „Breiðholt“. Þar segir m.a.: „Vonina þunga til flugs, meðan rólurnar ískra.“ Hvílík mynd! Draumur, löngun eftir einhverju tæru, fallegu en fyrir utan gluggann eru rólurnar í „svipgráu“ sumrinu og „reykvísku“ regni. Úff.

Ingibjargir þrjár stíga fallegan dans saman út verkið. Yngri Ingibjargirnar spegla sig bókstaflega í þeirri eldri og skilja þau tákn sem hún dró djarflega fram í ljóðum sínum. Og allt þetta er svo sett í þennan hljómræna búning sem lýst er, þar sem þagnir og stilla spila jafn mikilvæga rullu og sjálf hljóðfærin og söngurinn. Vel gert allar!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: