Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 30. júní, 2018

Bassafljótið höfuga

 

Wood/Work er sólóplata eftir hinn mikilhæfa bassaleikara Ingibjörgu Elsu Turchi.

 

Ingibjörg Elsa Turchi er með iðnustu hljóðfæraleikurum landsins og maður er nánast farinn að sjá nafn hennar oftar en nafn Magnúsar Trygvasonar Eliassen (svona nánast getum við sagt!). Ingibjörg fer yfir mörk og mæri og spilar popp og örgustu tilraunatónlist, kemur fram á böllum með Stuðmönnum og Babies, liðsinnir neðanjarðartónlistarmönnum eins og Special K og plokkar gígjuna með Soffíu Björgu og Teiti. Svo fátt eitt sé nefnt.

Tónlist ferðast á stundum undarlega í dag, sumu er klínt í andlitið á manni en fyrir öðru þarf að hafa. Streymi og netútgáfa veldur því að við höfum aldrei verið ríkari að útgefnu efni, aldrei hefur verið auðveldara að nálgast það en um leið er útgáfa sú stundum eins og beljandi stórfljót þar sem góð og gegn verk sökkva óforvarandis til botns. Þannig tók Ingibjörg upp tónlist árið 2016 með góðri hjálp frá Sigurlaugu Gísladóttur (Mr. Silla) og gaf út sem eitt 17 mínútna verk, „Wood/Work“, og var því hlaðið upp á Soundcloud-síðuna. Þar lúrði það um sinn, í tiltölulega miklu skjóli frá eyrum okkar tónlistaráhugamanna. Það var svo ekki fyrr en snemma vors á þessu ári sem verkið fékk almennilega, eða eigum við að segja almennilegri, útgáfu. Íslenska útgáfan Smit Records (Héðinn Finnsson) hlóð verkinu upp á Bandcamp-setur sitt en hin ágæta Bandcamp-síða hýsir fjöldann allan af grasrótarútgáfum frá veröld víðri. Auk upprunalega verksins (sem er nú stytt, en engar áhyggjur, Soundcloud-hlekkurinn er enn virkur) eru nú þrjú lög aukreitis sem tekin voru upp af Ingibjörgu einni á síðasta ári. Efnislega eru verkin svo til á tveimur sjötommum sem gefnar voru út í fimmtán eintökum. Það form stýrði því að „Wood/Work“-verkinu var skipt upp í fjóra, ríflega þriggja mínútna parta.

Tónlistin sjálf er algerlega æðisleg. Hún kallar í fyrsta lagi fram þau verk sem Skúli Sverrisson hefur verið að semja, mínimalískur bassaleikur sem myndar taktviss stef og lykkjur. Hljóðið er unnið og nótum og skölum vafið haganlega saman. Tónlistin minnir um leið á sólótónlist þá sem meðlimir bresku síðpönksveitarinnar Wire gáfu út eftir að þá sveit þraut örendi í fyrsta sinn („Wood/Work 2: Stripdown“). Einkanlega þá plötur Colin Newman og minnir umslag „Wood/Work“ t.d. á þessar plötur. En nú veit ég ekkert hvort þetta var ætlað eður ei! Ákveðinn munur er á nýrri verkunum og þeim eldri, en ekki mikill. Aðeins meira flökt á stílnum mætti segja, „Meliae“ lýtur nokkurn veginn sömu lögmálum og „Wood/Work“ en „Siroi“ er t.d. hvassara, víraðra og meira af knýjandi áhrifshljóðum sem nuddast utan í hljóðrásunum. Allt í allt, virkilega áhlýðilegt verk og ég hvet lesendur til að nálgast þessa tónlist. Ætti þeim ekki að verða skotaskuld úr því, eins og ég hef verið að lýsa.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: