Fjölær Jelena Ciric sannar í gegnum lögin fjögur að ekki er tjaldað til einnar nætur. — Ljósmynd/Julie Rowland

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 5. desember, 2020.

Margra heima sýn

Stuttskífan Shelters One eftir Jelenu Ciric kom út fyrir stuttu. Fædd í Serbíu, alin upp í Kanada, lærði á Spáni, gegndi prófessorsstöðu í Mexíkó en býr nú og starfar á Íslandi. Nei, Jelena er ekki einhöm tónlistarkona, langt í frá.

Stuttskífan er form sem liggur á milli smáskífu og breiðskífu, hálfgert olnbogabarn á stundum en í gegnum þetta form er engu að síður hægt að knýja fram öfluga, listræna yfirlýsingu. Breiðskífan býður nefnilega þeirri hættu heim að uppfyllingarefni láti á sér kræla á meðan smáskífan, sem ber aðeins tvö lög, nægir ekki til að listamanneskjan geti sýnt fyllilega hvað í henni býr. Stuttskífan er hins vegar fullkomin hvað þetta varðar. Fjögur lög sem geta sýnt fram á breidd en um leið er ekkert pláss fyrir feilspor. Jelena Ciric sýnir fram á hámarksnýtingu hvað þetta varðar á Shelters One .

En áður en við förum í spjall um tónlistarkonuna og það sem meira er, innihaldið á plötunni, langar mig til að tala aðeins um hvernig Jelena hefur staðið að útgáfunni sjálfri, eitthvað sem er til eftirbreytni. Fréttatilkynningar og ljósmyndir, allt er þetta vandað mjög, en hún spilar líka inn á streymisveiturnar, þar sem tónlistarútgáfa í dag birtist einna helst. Hægt er nálgast plötuna á Bandcamp og Spotify og á hinu síðarnefnda hefur hún sett upp sérstakan lagaspotta með lögum sem höfðu áhrif á tónlistina í „Lines“, einu laganna sem var hlaðið upp á Spotify í aðdraganda Shelters One (Lines Inspiration). Þar er að finna lög með t.d. Aldous Harding, Joni Mitchell, The Roches og The Magnetic Fields. Upplýsandi fyrir hlustandann og gildisaukandi fyrir almenna upplifun af Jelenu um leið. Snjallt.

Ég kom stuttlega inn á heimshornaflakk Jelenu í inngangi og læt það sosum nægja. Hún fluttist hingað til Íslands árið 2016 ásamt frónverskum ektamanni og hefur unað hag sínum vel síðan, vinnur við ritstörf samfara tónlistarstússi og hefur verið giska virk í íslensku senunni. Í spjalli við Fréttablaðið lýsir hún því hversu gott það sé að búa á litlum stað, samanborið við fyrri íverustaði, og hversu margt skapandi fólk þrífist hér á landi. Þetta nefna aðfluttir svo oft og stundum finnst ritara eins og hann sé óþarflega ómeðvitaður um þessa sterku upplifun þeirra sem landið sjá með gests auga. Þeir eygja þetta jákvæða, sem of oft týnist í argaþvargi hversdagsins.

Platan kemur út í gegnum útgáfufyrirtækið Paradís Sessions. Albert Finnbogason stýrði upptökum ásamt Jelenu sem semur alla texta og lög. Jelena leikur á píanó og syngur, Karl James Pestka spilar á fiðlu og víólu, Margrét Arnardóttir þenur harmonikku og Albert leikur á það sem hendi er næst, er þess þarf.

Platan hefst með áðurnefndu „Lines“. Það er viss þjóðlagablær yfir en þegar um hálf mínúta er liðin af laginu var ég minntur harkalega á stórkostlega smíð Juliu Holter, Have you in my Wilderness (2015). Trúið mér, ég hendi þessari samlíkingu ekki út að gamni mínu. Eftir að versið er búið öðru sinni, en það er tiltölulega „eðlilegt“, fer Jelena á hlemmiskeið í viðlaginu, klifrar skyndilega af krafti upp tónstigann og fer glæsilega í háu nóturnar. Innlifunin er alger og áhrifin eftir því. Tónlistin styður glæsilega við allan tímann, maður er eiginlega kominn á bríkina. Þarna slær tvennu saman, tveimur heimum getum við sagt, þekkilegu þjóðlagastefinu er rænt af andsetnum og undurfurðulegum kafla (og ég skil að hún tefli Reginu Spektor fram sem áhrifavaldi). „In Time“ er næst, snotur ballaða. Stöldrum við söngröddina, hún er falleg og kannski það sterkasta á allri plötunni. Tónlistin er dramatísk, varleg, næm og svo gjörsamlega við hæfi. „Concrete“ er grallaralegra, mikill leikur í því og takti hraðað og á honum hægt. Nánast eins og barnagæla. „Loughbreeze“ lokar þessari stuttu en vel heppnuðu plötu. Lokalagið er „lokalag“, höfugt flæði og letilegt, nett sorgbundið jafnvel. Söngröddin og „tilfinningin“ í því tónar engu að síður vel við hin þrjú systkinin. Allt í allt sannfærandi og vandað verk þar sem ekkert er uppfyllingarefnið en um leið nægur efniviður til að gefa heilsteypta mynd af listamanninum. Ég er til í breiðskífu!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: