Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 7. desember, 2019.

Þar ríkir fegurðin ein…

Lofaður Jóhann Jóhannsson tónskáld árið 2004. Þá höfðu þau Erna Ómarsdóttir dansari ferðast vítt um Evrópu með verk sitt IBM 1401, notendahandbók, og vakið gríðarlega athygli og hlotið framúrskarandi lof. Jóhann lést 9. febrúar árið 2018.

Við höldum áfram að syrgja Jóhann Jóhannsson, þann mikla meistara, en vitum um leið að tónlist hans mun lifa um aldur og ævi. Um eitt og hálft er síðan hann lést, og eðlilega hlustar maður á tónlist hans í dag á dálítið öðrum forsendum. Fallegu kaflarnir eru fallegri, þeir sorglegu sorglegri.

Deutsche Grammophon hefur gert vel í að halda nafni hans á lofti. Safnplata með völdum verkum kom út í apríl á þessu ári og þetta verk hér 20. september, en þá hefði skáldið orðið fimmtugt. Jóhann, eða Jói, keyrði marglaga feril og ætli hann verði ekki kunnastur fyrir magnaða kvikmyndatónlist sína sem kollvarpaði um margt regluverki þess geira. Hann hafði, eins og með svo margt, allt á valdi sínu þar, gat samið „venjulega“ kvikmyndatónlist (The Theory of Everything t.d.) en fór svo út að þolmörkum með Sicario og Arrival, en tónlistin þar stendur rækilega ein og sér, líkt og með tónlist meistara eins og Morricone og Vangelis. En marglaga sagði ég, því að Jóhann fann sér líka tíma til að skapa tónlist utan kvikmyndarammans og er Orphée (2016) dásamlegt dæmi um tilþrif á þeim velli. Eins og þessi plata hér.

Verkið er í tólf hlutum og er fyrir strengjakvartett. Því var hrundið af stað, mætti segja, af listaverkasafnaranum Richard Thomas, sem var heillaður af því hvernig hægt er að má út mörk og mæri lista, sem Jóhann gerði með hægð. Thomas leiddi því saman Thilo Heinzmann, sem er málari búsettur í Berlín, og Jóhann. Tvíkeykið Heinszmann og Jóhann átti svo fundi þar sem ýmislegt var rætt; listir, pólitík og þeirra eigin ævi. Verkið var síðan unnið út frá einu málverki Heinzmann.

Echo Collective hefur getið sér orð sem framsækinn tónlistarhópur, en varnarþing hans er í Brussel. Meðlimir hafa starfað með hinum og þessum tónlistarmönnum úr margvíslegum geirum og var samstarf hans við Jóhann og félaga því eðlilegt. Jóhann hafði þá unnið með hópnum á áðurnefndri Orphée og heimatökin því hæg. Og hópurinn skildi að einföld tónlist er flókin, eins og Jóhann lét hafa eftir sér.

Og að lokum, persónuleg upplifun þess sem hér heldur á penna. Framvindan í mismunandi hlutum 12 Conversations, sem eru frá tveimur mínútum upp í sex, er giska lágstemmd og naumhyggjuleg. Eingöngu er um strengi að ræða, ekki rafhljóð eða neitt slíkt, sem gefur þessu blæ hreinleikans. Vitandi að þetta er Jóhann var eins og maður væri að bíða eftir einhverju slíku á völdum augnablikum. Það að hann „haldi aftur af sér“ hvað það varðar setti áhugaverðan blæ á framvinduna, fyrir þennan hlustanda í það minnsta. Rennslið er því nokkuð „klassískt“ en reglulega stinga einkennishljómar Jóhanns upp kolli. Þessir fallegu, þessir sorglegu. Þessi björtu… og þessir dimmu.

Þetta með einfaldleikann, þessi lúmskt spaugilega athugasemd okkar manns (ég sé hann fyrir mér glotta) segir svo mikið. Jóhann var með eitthvert risastórt „x“ í sköpun sinni. Við getum greint þetta sundur og saman en það er þessi galdur sem ekki er hægt að koma í orð sem er ástæðan fyrir því að við höldum áfram að tala um hann. Núna, og áfram um aldur og ævi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: