Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. apríl.

Ólíkindatólið að austan

Words er plata eftir Kára nokkurn Kresfelder, ungan smið frá Austfjörðum. Innihaldið er æði forvitnilegt, sérkennileg tónlist sem fer um velli víða en státar um leið af afar persónulegum tón.

Stundum koma plötur aftan að manni, maður veit ekkert um flytjandann en tónlistin stekkur á mann og hristir. „Hvaðan kom þetta?“ spyr maður sig og ég fæ að heyra: „Þetta er plata eftir smið frá Neskaupstað.“ Ég læt ekki segja mér draugasögur um miðjan dag! Ætlið þið að segja mér að þessi plata, sem hljómar eins og Captain Beefheart og Beck séu í darraðardansi með Ariel Pink, sé eftir austfirskan smið!? Já, það er víst raunin.

Kári Kresfelder, umræddur smiður, stendur á bak við Words, plötuna sem er búin að koma hinum ýmsu pælurum hér á landi í opna skjöldu.

Byrjum bara á því að lýsa fyrstu þremur lögunum af tólf. „Please“ er hálfpartinn eins og barnalag, gæti verið á Hattur og Fattur-plötunni, og söngraddir tvær heyrast, ein hefðbundin og svo segir tröll eitt: „Please don‘t touch me.“ Upptakan er lágfitluð („lo-fi“), banjó heyrist mér og svo skringilegur, kræklóttur rafgítar. Restin af laginu leysist svo upp í slaggígjulega óhljóðaorgíu. Með öðrum orðum: Hvað var ég eiginlega að hlusta á? „People“ hefst með geimlegum rafhljóðum og svo er farið í sýruleginn, neðansjávarlegan söng. „Sækadelíulegt“ mjög áður en skellt er í ókennilegan hávaða. Egill Sæbjörns gerði smá af þessu á sínum tíma og svipað er í gangi á erlendri grundu en Kári er samt alveg með sitt. „Clean“ er með furðutakti, fremur hreinum söng en rafgítaraöskursúpa er snemma á borð borin. Öll þessi lög eru fremur ólík en deila afar sérstæðri nálgun við popp/rokkformið svo ekki sé meira sagt. Restin af plötunni er meira og minna í þessum gír.

Ég hafði samband við Kára í gegnum Messenger og spjallaði aðeins við hann þar. Hann nefnir m.a. Ween, King Gizzard and the Lizard Wizard og Radiohead sem fyrirmyndir en innblástur komi víða að og fari eftir hlustunartímabilum hjá honum. Hann segir að tónlistin hafi verið skjól í æsku. Íslenska sé ekki móðurmálið hans og hann hafi átt erfitt með að vera í sífelldu talsambandi við aðra krakka. „Þannig að það að spila tónlist var mjög þægilegt þar sem ég gat setið einn í herberginu mínu og æft mig og síðan sýnt öðrum hvað ég var búinn að læra. Án þess að þurfa stressa mig á því hvort ég væri að fallbeygja rétt.“ Kári tók þátt í Músíktilraunum í ár sem hljómborðsleikari Chögma (3. sæti) en sólóferillinn er og í gangi. Sem betur fer. Stefnt er á nýja plötu í sumar.

Kannski er þessi saga Kára sönnun á tilvist heimsþorpsins. Þú þarft ekki að búa í 101 Reykjavík til að vera með á nótunum um hvað er „hipp“ og „kúl“. Allur heimurinn og hans tónlistarstraumar eru í eins „klikks“ fjarlægð. Svona svefnherbergisplötur eru líka svo mismunandi. Allt frá hálfköruðu efni sem fólk hendir inn á Bandcamp yfir í fullbúna gripi, eitthvað sem tækniþróunin hefur gert kleift. Og Kári er þarna á milli. Platan stendur glæst sem fullunnið verk, þannig rúllar hún, en um hana leikur líka „ókláraður“ blær og alls kyns vitleysa sem á því miður – og eðlilega – til með að detta út þegar fólk verður færara. Þessi plata er algerlega í ljósaskiptunum hvað þetta varðar. Gangi þér vel með næstu plötu Kári. En enga geldingu takk!

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: