Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 13. apríl.

Upp á eigin spýtur

Ást fyrir tvo er plata eftir Katrínu Halldóru, leik- og söngkonu, hvar hún syngur sig í gegnum nokkra íslenska gæða- og gullmola.

Hún er mjög kósí, ég lofa því,“ segir Katrín í tilkynningu um plötuna síðasta haust á Fjasbókarvegg sínum. Og það eru orð að sönnu! Hljómfögur, innileg og rennur eins og hunangsleginn fjallalækur. Plötuna vann hún með Ásgeiri Ásgeirssyni (gítar), Birgi Steini Theodórssyni (kontrabassi) og Hirti Ingva Jóhannssyni (píanó) og var platan, að sögn Katrínar í sömu færslu, tekin upp „einn sunnudagseftirmiðdag í mars [2023] í lifandi flutningi svo hún er hrá, lítið unnin og einlæg. Á henni er að finna endurunnin lög héðan og þaðan, lög eftir margt af mínu uppáhaldstónlistarfólki sem ég hef bæði mikið verið beðin um að syngja og svo önnur lög/textar sem ég held einfaldlega mikið upp á.“ Birgir Jón Birgisson sá um upptökur í Sundlauginni í Álafosskvos og Margrét Aðalheiður á þetta glæsilega umslag sem sjá má hér þó smátt sé (flettið því upp á internetinu til að sjá hámarksgæði!).

Til stóð að platan kæmi út sem stuttskífa síðasta sumar (ég sá orðið EP í einhverri fréttinni) en níu laga breiðskífa varð svo raunin í haust en sumarið hjá söngkonunni fór í eilitla mannkynsfjölgun. Í viðtali á Bylgjunni talaði Katrín um að um ákveðið samsafn væri að ræða, bæði lög sem hún hefur sungið oft á síðustu árum við athafnir, veri það brúðkaup eða jarðarfarir, en líka uppáhaldsslög, t.d. á höfuðsnillingurinn Magnús Eiríksson tvö lög.

Þetta er ekki fyrsta sólóplata Katrínar en 2021 tókst hún á við söngbók Jóns Múla og Jónasar Árnasonar og leysti það verkefni með glans. Fyrir Rás 2 skrifaði ég: „Söngrödd hennar er frábær og eitthvað svo pottþétt. Falleg, sterk, næm, víbrar þegar þarf, glettin þegar þarf og vald Katrínar fullkomið. Hér er þetta í raun hjónaband í himnaríki, þessi sígildi tónn sem hún býr yfir fellur fullkomlega að efninu.“ Og: „Í ljósi þess að enga fáum við jólaplötuna á Íslandi þetta árið kemst þetta verk hér næst því að sveipa guðsvolaðan Mörlandann birtu, hlýju og yl á aðventunni.“

Já, Katrín kann sko kósífræðin upp á tíu en aldrei er þetta ódýrt eða klaufalegt. Ást fyrir tvo opnar með titillaginu, portúgalska sigurlaginu í Evróvisjón árið 2017 og um textasnörun sér afmælisbróðir minn Hallgrímur Helgason. Lagið er undurblítt og ofurvarlegt, er svona rétt til, svífur inn, gælir við mann, og fer svo aftur út. Og Katrín setur sitt „töts“ á. „Flugvélar“ eftir Nýdanska er næst, yndissmíð og klassík og Katrín hægir á, fer í næmnina og útsetningin virkar afskaplega vel. „Frá liðnu vori“ er eftir Bergþóru Árnadóttur og fær nokkuð gáskafulla meðferð sé miðað við restina af plötunni. Lögin tvö eftir Magga Eiríks eru „Elska þig“ og „Ómissandi fólk“ og hið síðarnefnda er afskaplega vel heppnað. „Draumaland“ þeirra Sigfúsar Einarssonar og Jóns Trausta er náttúrulega fullkomlega dásamlegt og útsetning Katrínar og félaga sendir mann inn í stofu til afa og ömmu. „Presley“ Grafíkur er sett í rómanskan gír, skemmtilegur vinkill á það fína lag og „Það er gott að elska“ Bubba rennur áfram ljúflega og löturhægt. „Himnarnir opnast“ er nýsmíð eftir Braga frænda Valdimar og lokar plötunni.

Ábreiðuplötur eru eins misjafnar og þær eru margar. Hér er vel á spöðum haldið, farið er um efniviðinn af virðingu og það er völundarbragur á öllu. Ég tek ofan, skríð undir bjarnarfeldinn, skara lítið eitt í eldinn í arninum og færi nálina yfir grammófónsplötuna. Gott ef afi og amma eru ekki í gættinni, nikkandi höfðum samþykkjandi

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: