Tvíeind Kötlubræður spúa bæði eldi og brennisteini á nýju plötunni.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 9. janúar, 2021.

Ást orðum ofar…

Allt þetta helvítis myrkur er önnur breiðskífa Kötlu sem er sveit þeirra Guðmundar Óla Pálmasonar og Einars Thorberg Guðmundssonar. Kynngikraftur býr í plötunni rétt eins og í samnefndu fjalli.

Nú eru þrjú ár liðin síðan fyrsta plata Kötlu, Móðurástin , kom út. Dúettinn er skipaður þeim Guðmundi Óla Pálmasyni (sem var í Sólstöfum) og Einari Thorberg Guðmundssyni (Fortíð, Potentiam). Fyrri platan var stór og mikilúðleg, tónlist sem tónar vel við jarðfræðiundrið sem sveitin heitir eftir, og öll ímyndarvinna og slíkt með glæsibrag, hvar staða Guðmundar sem ljósmyndara og hönnuðar nýtist vel (sjá umslög á breiðskífum sem sjötommum og kynningarmyndir af liðsmönnum). Það er þýska útgáfan Prophecy sem gefur út, bæði frumburðinn og Allt þetta helvítis myrkur . Það er varla hægt að hugsa sér meira hæfandi heimili fyrir Kötlu en Prophecy gerir út á tónlist af þyngra taginu sem nokkuð erfitt er að pinna niður stíllega. Og það er nákvæmlega tilfellið með Kötlu. Svartþungarokk? Já, að einhverju leyti. Þjóðlagakennt? Mögulega. Gotneskur bragur. Auðvitað! En að mestu, þá rennur bandið úr skilgreiningargreipum, líkt og eldfjallasandur.

Katla er tiltölulega þekkt band í alþjóðlegum heimi öfgarokks og nokkur viðtöl (og dómar) hafa birst í tengslum við plötuna nýju. Í yfirgripsmiklu viðtali við vefritið stönduga Arrow Lords of Metal , sem á varnarþing í Hollandi, lýsir Guðmundur því að í þetta sinnið sáu þeir félagar svo gott sem um allt sjálfir, í samstarfi við góða vini og fjölskyldu. Einar sá þannig um alla upptökustjórn t.d. Guðmundur lýsir því líka að Katla hafi alla tíð verið fjarvinnuverkefni, en Einar var búsettur í Noregi um langa hríð og er bara nýfluttur heim. Og þó að þeir búi báðir á Íslandi núna þá muni fjarvinnan líkast til vera það líkan sem unnið verði með áfram, enda sé Guðmundur að flytja út fyrir Reykjavík á næstunni.

Tónlistarlega er allt undir á Allt þetta helvítis myrkur . Og ekki þarf að koma á óvart að það er límið sem heldur plötunni saman, helvítis myrkrið! „Allir textarnir fjalla um myrkur á einn eða annan hátt,“ segir Guðmundur í nefndu viðtali. „Sumt á sér rætur hið innra en sumt hið ytra.“ Íslenska náttúran sem allir elska er hérna. Já, henni er oft rænt af klisjukóngum en gleymum því ekki að hún er rosaleg, falleg og svakaleg og Katla gerir vel í því að spegla þá staðreynd. Hamfarir hið innra gera og vart við sig og á plötunni eru þessir tveir þættir hnýttir listavel saman. Vel tekst því að hljómsetja þessi temu enda er pallettan stór sem unnið er með.

Öfugt við það sem margir gætu ætlað er tiltölulega lítið um ofsa á plötunni. Spennunni er meira haldið og ýjað að hlutum en þeim sé troðið að þér. Það virkar. Hálfgerðir proggsprettir gera stundum vart við sig og oft eru smíðarnar teygðar og togaðar og þeim stillt upp sem hálfgerðum „ambient“-verkum. Sjá t.d. „Sálarsvefn“ þar sem lagið fær að anda og vera, andrúmsloft sem dettur í hálfgerðan trans á köflum (en er svo brotið upp með viðeigandi hríðarstormi). Einar lætur þá arg og garg að mestu vera, oftast er söngurinn hreinn og giska melódískur. Heildaáhrifin eru nokk ógurleg, það hangir angist yfir, jafnvel hætta, og lagaröðun er vel heppnuð að þessu leytinu til. Blessunarlega er þetta um leið alls ekki eintóna verk, það er hnýtt í ýmsa stíla eins og ég nefndi hérna fyrr, nokkuð sem heldur manni sperrtum út í gegn.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: