Listakona Kristín Anna veit að djöfullinn er með öll bestu lögin… (Ljósmynd/Ari Magg)

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. apríl, 2019.

Hver djöfullinn

I must be the devil er ný breiðskífa Kristínar Önnu Valtýsdóttur og sannar að hún er með fremstu tónlistarmönnum landsins. Innihaldið er engu líkt.

Ég var staddur á einhverri Airwaveshátíðinni fyrir margt löngu (finnst mér) og Kristín Anna var að ljúka mögnuðu setti í Fríkirkjunni. Heyra mátti saumnál detta á meðan Kristín lék á píanóið. Nei, „lék“ nær þessu ekki, hún verður ein með píanóinu, fer inn í það eiginlega og innlifunin er með miklum ólíkindum. Þetta vita þeir sem hafa sótt með henni tónleika og þeir eru efalaust kinkandi kolli við þennan lestur.

Kjartan Sveinsson, sem stýrir upptökum á þessari plötu hér, I must be the devil, var í kirkjunni og ég rakst á hann þegar fólk var að yfirgefa svæðið í lok tónleika. „Verður þetta ekki gefið út?“ spurði ég hann og nánast þreif í frakkann hans. Með sárbænandi augum. „Jújú, þetta kemur út,“ sagði hann kankvís, og sá um leið á mér aumur. „Við erum að vinna í því að það gerist. Það mun gerast!“

Já, því að platan er búin að vera lengi í því ferli, og hafa óstöðugir (eins og ég) verið að ærast og það fullkomlega. Þið getið því rétt ímyndað ykkur þá strauma sem runnu um mig þegar ég fékk loksins tölvupóst frá skrifstofu Ragnars Kjartanssonar um að dæmið væri loks klárt. Bel-Air Glamour Records, útgáfa á hans snærum, kom óðar á mig eintaki, og var það starfsmaður þar sem afhenti (síðustu plötu, Howl, fékk ég hins vegar senda með leigubíl en það er önnur saga).

Howl (2015) var án efa langbesta plata þess árs og ég varð orðlaus þegar ég heyrði það verk. Þar er rödd Kristínar sett í hljóðlykkjur sem svo streyma fram undir draugalegri hljóðmottu. Röddin rís og fellur leiðslubundið og maður fór í hálfgerðan trans við að hlusta. Galdur. Þetta reit ég á sínum tíma: „Það er nefnilega eitthvað í gangi á þessari plötu sem erfitt er að orða, einhver kynngikraftur sem læsir sig um hljóðrásirnar. Þetta tilkomumikla verk felur þá í sér sterka, listræna yfirlýsingu. Ekki er sleginn þumlungur af; áttatíu mínútur af nánast sama töfrum slegna stefinu eða ekki neitt!“ Ég stend við hvert orð.

I must be the devil er allt öðruvísi verk. Hér eru „lög“, hvar stuðst er við píanóið, en tónlistin var samin á árunum 2005-2017. Píanó og rödd eru einkennandi, en hér eru líka strengir, bassar og ýmislegt annað sem styðja við framvinduna. Lög segi ég, en í þeim öllum er eitthvert „x“ sem verður trauðla lýst. Hvernig stendur á því að maður heyrir kannski mjög áþekka tónlist eftir annan listamann og þar er ekkert að gerast, en svo heyrir maður í tónlistarkonu eins og Kristínu Önnu, sem er einfaldlega að spila á píanó og syngja, og maður er gjörsamlega á bríkinni frá fyrsta tóni! Sumir hafa bara höndlað eitthvað sem við dauðlegir eigum ekki möguleika á að skilja.

„Tónlistin sem ég hafði verið að semja í gegnum árin var mjög persónulegt mál,“ hefur Kristín Anna sagt. „Til þess að komast af tilfinningalega og andlega.“ Þetta heyrist vel, enda farið inn í kviku við hvert slag og hverja nótu. Ég mun aldrei gleyma því er ég tók einu sinni viðtal við hana og hún settist við píanó í því miðju og spilaði fyrir mig. „Þetta er geðveikt,“ hugsaði ég, „en á líklega aldrei eftir að komast almennilega út.“ En nú er þetta komið út. Til allrar hamingju. Og hér er ég líka að dæsa yfir þeim fáránleika að vera að reyna að skrifa eitthvað um þetta. Því að þessi tónlist sleppur svo gjörsamlega undan öllu slíku. Galdur. Alger.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: